Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 16:40:00 (2844)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (frh.) :
     Frú forseti. Þar sem heilbr.- og trmrh. er nú kominn í salinn get ég hafið ræðu mína en áður en ég beini máli mínu til hans langar mig aðeins að beina einu til fjmrh. og það kannski ekki síst vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um hina svokölluðu tilsjónarmenn. Gárungarnir kalla þessa tilsjónarmenn gjarnan STASÍ og er það skammstöfun á orðinu ,,starfsmannasía``. Sem sagt, starfsmannasía, skammstafað STASÍ. Þetta er nýjasta uppfinning hugvitsmannanna í fjmrn. og hefur þó margt furðulegt þaðan út gengið. En þó að það sé merkilegt að búa til þessa tilsjónarmenn þá tók þó steininn úr í gær eða það fannst þeirri sem hér stendur a.m.k. þegar hún horfði á kvöldfréttir sjónvarpsins. Þar var sagt frá minnisblaði fjmrh. um sparnað hjá ríkinu. Þetta var minnisblað sem hann mun hafa kynnt á fundi með forstöðumönnum ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja og var sem sagt um sparnað hjá ríkinu. Ég verð að segja að sé þetta rétt sem sagt var í sjónvarpinu í gær þá eru þetta hreint ótrúlegar hugmyndir sem þarna eru á ferðinni um eftirlit með launagjöldum í opinberum stofnunum.
    Ég hef fengið útskrift af fréttinni og mig langar til þess, með leyfi forseta, að lesa það sem þar var sagt en það er sem sagt verið að fjalla um framkvæmd þessa eftirlits og sagt að það verði með eftirfarandi hætti og er þá verið að vitna í minnisblað hæstv. fjmrh. Og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í fyrsta lagi verði heimiluð ákveðin frávik á launakostnaði hverrar stofnunar frá áætlun. Heimildin fari lækkandi eftir því sem líður á árið og heimilt verði að draga umframgreiðslur launa frá öðru rekstrarfé stofnunar.
    Í öðru lagi verði útborgun hreinlega stöðvuð ef launagreiðslur fari umfram tilgreind

mörk, fyrst yfirvinnu- og aukagreiðslur, því næst fyrirframgreiðslur og að lokum aðrar mánaðargreiðslur.``
    Með öðrum orðum þarna er í rauninni verið að uppáleggja mönnum að nota húsbóndavald ríkisins til að stöðva launagreiðslur, til að brjóta lög og kjarasamninga á opinberum starfsmönnum. Fréttamaður spyr út í þetta tiltekna atriði og spyr aðstoðarmann fjmrh. hvort þarna sé ekki verið að ganga á svig við lög. Þá segir í fréttinni, með leyfi forseta:
    ,,Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjmrh., sagði í kvöld að verulega mikið yrði að ganga á til þess að gripið yrði til jafnafdrifaríkra aðgerða, enda væri gert ráð fyrir að forstöðumenn störfuðu samkvæmt greiðslu- og rekstraráætlunum. Um það hvort hægt væri að stöðva launagreiðslur samkvæmt lögum vitnaði Steingrímur til fjárlaga yfirstandandi árs``. Ég verð að segja að mér finnst það mjög sérkennilegt ef fjárlögin takmarka eða upphefja rétt einstaklinganna til sinna launa, til þeirra launa sem þeir hafa samið um, sem þeir hafa unnið fyrir. Þetta finnst mér satt að segja mjög sérkennileg túlkun á fjárlögunum og eru því fjárlögin farin að taka yfir allvítt svið ef þau taka líka fyrir rétt einstaklinganna. Ég hef ekki orðið vör við að einstaklingarnir séu fjárlaganúmer á fjárlögum með beinum hætti.
    Ég verð að segja að ég skil ekki hvaða nauðir reka menn út í þann samskiptastíl sem núv. ríkisstjórn hefur tamið sér gagnvart launafólki á undanförnum mánuðum og reyndar hafa margar ríkisstjórnir tamið sér sérkennilegan stíl gagnvart launafólki. Og í þessu tilviki á það ekki síst við um samskiptastíllinn við starfsmenn ríkisins.
    Ríkisvaldið stendur í því núna að gera kjarasamninga en á sama tíma eru boðaðar fjöldauppsagnir hjá opinberum starfsmönnum. Boðuð er skerðing á ýmsum réttindum; lífeyrisrétti, fæðingarorlofi, veikindarétti og nú síðast er boðað að launum þeirra, þ.e. launum opinberra starfsmanna, verði haldið eftir ef stofnunin sem þeir vinna hjá fer fram úr settum mörkum. Mér þykir þetta mjög sérkennilega að verki staðið í miðri gerð kjarasamninga. Ég skil ekki hvernig þetta á að geta liðkað fyrir í þeim málum, enda brást formaður BSRB ókvæða við þessum fréttum í kvöldfréttum í gær. Mér finnst þetta mjög furðuleg tíðindi sem þarna komu fram í sjónvarpsfréttunum og ég vænti þess að fjmrh. útskýri þetta mál fyrir þingheimi, þ.e. hvaða minnisblað sé þarna á ferðinni og hvernig menn hafa hugsað sér að standa að málum. Er þetta rétt að verið sé að veita mönnum heimild til þess að halda eftir launum opinberra starfsmanna? Ég verð að segja að miðað við það sem komið hefur frá fjmrn. á undanförnum vikum og mánuðum sé fjmrh. að ýmsu leyti í viðlíka krossferð gegn opinberum starfsmönnum og heilbr.- og trmrh. er að mörgu leyti gegn velferðarkerfi fjölskyldnanna. Ég hélt reyndar að hann væri kannski örlítið liprari en kollegi hans í heilbr.- og trmrn. en ég sé lítil merki þess. Ég vildi segja þetta vegna þeirrar umræðu sem fór fram áðan um tilsjónarmennina og ég mundi óska einhverra útskýringa á þessu minnisblaði frá hæstv. fjmrh.
    Í umræðum um bandorminn hafa menn á undanförnum dögum talað um þau vinnubrögð sem viðgengust við frv. Þess er skemmt að minnast að fyrir harðfylgi stjórnarandstöðunnar var því frestað fyrir jól en síðan var Alþingi kallað saman aftur þann 6. jan. til að afgreiða frv. Þá kom í ljós að frv. var aldrei nema hálfunnið. Ég veit satt að segja ekki hvernig ríkisstjórnin hefði farið að ef málinu hefði ekki verið frestað og þing ekki komið saman þann 6. jan. Því þegar við komum til þings lágu fyrir brtt. við frv. ríkisstjórnarinnar í níu liðum. En þar með er þó ekki öll sagan sögð því að þessar brtt. voru líka allar hálfkaraðar. Og í heilbr.- og trn. einni saman hafa verið unnar átta brtt. á því sem að þeirri nefnd snýr, átta brtt. á níu brtt. við frv. ríkisstjórnarinnar. Þetta er satt að segja mjög sérkennilegt. Og rétt er að taka það fram að þessar átta brtt. heilbr.- og trn. voru bara við eina tillögu af níu brtt. sem komu frá ríkisstjórninni eftir áramót.
    Ég tek það fram að mér hefur líkað vel að vinna í heilbr.- og trn. og málefnalega hefur verið að hlutum staðið og reynt að ná samstöðu eftir því sem kostur hefur verið. Ég hef ekkert undan því að kvarta. En vinnubrögðin í nefndinni bera auðvitað merki þess undirbúnings sem hafði verið unninn fyrir þessar tillögur því að málið hefur verið að breytast dag frá degi, frá einum fundi til annars í heilbr.- og trn. Á hverjum fundi hafa komið í ljós nýir skafankar á brtt. ríkisstjórnarinnar og þess vegna hafa menn sífellt verið að reikna og breyta hugmyndum sínum um það hvernig almannatryggingalöggjöfin ætti að líta út. Þetta var um vinnubrögðin, hina formlegu hlið vinnubragðanna.
    Önnur hlið snýr að þeim stjórnarstíl sem ríkisstjórnin hefur tamið sér og virðist ganga í gegnum allt stjórnarkerfið og það eru tilskipanir að ofan. Komið hefur í ljós og verið sagt frá því í þessari pontu áður að Tryggingastofnun var fyrst sett inn í málið föstudaginn 10. jan. Þann dag voru starfsmenn Tryggingastofnunar fyrst settir inn í þær breytingar sem verið var að vinna að á vegum heilbr.- og trn. og á vegum heilbr.- og trmrn. að almannatryggingalöggjöfinni. Samtök öryrkja höfðu ekkert verið spurð um það hvernig tilfærslu þau vildu gera innan síns hóps. Enda kom í ljós að þau voru mjög ósátt við það sem verið var að gera í heilbr.- og trmrn. Mér finnst mjög sérkennilegt að hafa ekki samráð við þann hóp vegna þess að með breytingunum á örorkulífeyrinum er ekki verið að spara fyrir ríkissjóð, ekki verið að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, heldur vinna að tilfærslum innan hópsins og því er mjög eðlilegt að hafa hópinn sjálfan með í ráðum. En það var ekki gert og þess vegna barst nefndinni eða réttara sagt heilbr.- og trmrh. bréf sem nefndarmenn fengu afrit af frá Öryrkjabandalagi Íslands. Þar er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Öryrkjabandalag Íslands mótmælir harðlega þeim handahófskenndu aðgerðum sem ríkisstjórnin beitir til þess að ná endum saman í ríkisfjármálum. Þessar aðgerðir miðast við skerðingu örorku- og ellilífeyris þannig að lífeyrisþegar eru sviptir grunnlífeyri að hluta til eða að fullu.`` Og síðan segir: ,,Hvað öryrkja varðar hefur það verið grundvallarviðhorf, viðurkennt af samfélaginu, að greiða öryrkjum lífeyri sem nokkra uppbót vegna þeirrar hömlunar og aukakostnaðar sem örorka veldur. Skerðing grunnlífeyris án tengsla við heildarskoðun tryggingakerfisins er því vægast sagt varhugaverð. Ámælisvert er að tekjur fólks sem er langt innan við meðaltekjumörk eru skertar verulega á meðan í engu er hróflað við þeim sem eru hátt yfir þessum meðaltalstekjum.``
    Mér finnst þessi mótmæli öryrkja mjög skiljanleg en mér finnst þau líka bera því vitni hversu klaufalega er að málum staðið í heilbr.- og trmrn. Því hefði verið í lófa lagið að hafa samráð við þennan hóp og fá þá ekki hávær mótmæli frá hópnum vegna þeirra tilfærslna sem þar er verið að gera. Það er kunnara en frá þurfi að segja að með brtt. á almannatryggingalöggjöfinni sem nú liggja fyrir er í rauninni verið að gera stefnubreytingu í lífeyristryggingum. Í fyrsta sinn er verið að tekjutengja grunnbætur og þar á meðal ellilífeyrinn sem margir hafa getað gengið að sem rétti sínum hingað til. Mismunandi skoðanir hafa komið upp um það hvort þetta standist lögformlega og m.a. hafa aðilar úr Tryggingastofnun dregið það mjög í efa. Aðilar frá Samtökum aldraðra og Félagi eldri borgara hafa líka dregið þetta í efa.
    Ráðuneytið mun hafa fengið ríkislögmann til þess að taka saman efni um þessa aðgerð. Þar kemur fram sú skoðun hans að þetta standist lög. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þetta er ekki lögfræðileg álitsgerð frá ríkislögmanni. Þetta er ekki álitsgerð í formlegum skilningi heldur er þetta minnisblað, það kemur skýrt fram frá ríkislögmanni, og ekki hægt að nota það sem lögformlega álitsgerð. Ég tel mjög miður að Alþingi skuli ætla sér að fara út í breytingar eins og þessar, breytingar sem mjög skiptar skoðanir eru um og menn hafa mjög mismunandi skoðanir á því hvort standist lög, og að það skuli gert án þess að fyrir liggi formleg, lögfræðileg álitsgerð annaðhvort frá ríkislögmanni eða Lagastofnun Háskóla Íslands.
    Ýmislegt í því sem er lagt til í tryggingamálunum er, ef maður má orða það þannig, ýmist klúður eða hreinar sjónhverfingar. Í bréfi frá heilbr.- og trmrn. sem fylgdi tillögunum þegar þær komu inn í nefndina er boðað að þarna sé verið að gera ákveðna réttarbót hvað hjón varðar. Með öðrum orðum, tekjur hjóna eru meðhöndlaðar sem tekjur einstaklinga þegar reiknuð er út skerðing ellilífeyris. Þegar maður fer að velta þessu fyrir sér er óneitanlega sérkennilegt að við það að tekjutengja og skerða grunnlífeyrinn er verið að færa hjónum ákveðna réttarbót með nýju skerðingarákvæði. Og það segir í greinargerð frá ráðuneytinu, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að hjón verði að öllu leyti meðhöndluð sem sjálfstæðir einstaklingar

hvað varðar skilgreiningu tekna. Er þetta í samræmi við ákvæði skattalaga um aðskilda meðferð á tekjum hvors hjóna.``
    Ég get út af fyrir sig fagnað þessu ef þetta gengi í gegnum allt kerfið en svo er alls ekki. Eftir stendur reglugerð t.d. um tekjutryggingu sem meðhöndlar tekjur hjóna sameiginlega. Upphæð tekjutryggingar ákvarðast af því hvort um hjón eða einstakling er að ræða þannig að tekjur annars þeirra, í flestum tilvikum karlsins, skerðir tekjutryggingu hins, í flestum tilvikum konunnar. Og nú vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort við eigum von á breytingu og réttarbót hvað þetta varðar næstu daga. Hvort hjón verði að öllu leyti meðhöndluð sem sjálfstæðir einstaklingar eins og segir í plaggi frá ráðuneytinu og hlýtur þá að gerast innan tíðar. Ég ætla að biðja ráðherrann um svör við þessu. Ég dreg hins vegar stórlega í efa að þetta standi til hjá ráðuneytinu vegna þess að mér sýnist að ekkert megi kosta um þessar mundir og þessi réttarbót, verði hún ekki bara notuð þegar verið er að skerða grunnlífeyri heldur líka varðandi tekjutryggingu, mun hún án efa hafa kostnað í för með sér. Og ég spyr, mega réttarbætur kosta eitthvað?
    Það er líka klúður í þessum málum varðandi öryrkja. Í málefnum þeirra er verið að flytja til 30 millj. kr. með miklu fimbulfári og látum eins og ég lýsti áðan. Það er verið að lækka örorkulífeyri þeirra öryrkja sem ná að komast upp fyrir skattleysismörk. Það eru 6,9% hópsins. Þetta er eini hópur öryrkja sem getur grillt í mannsæmandi líf af því að þeir ná að tosast upp fyrir skattleysismörkin. En það er talin ástæða til þess að krukka í bætur þessa hóps og jafnframt er reynt að krukka vítt og breitt í almannatryggingalöggjöfina til þess að fyrirbyggja alls kyns hliðarverkanir sem af þessu hljótast. Alvarlegasta klúðrið í þessu öllu saman er að öryrkjum er mismunað með þeirri breytingu sem verið er að gera eftir því hvort orsakavaldur örorkunnar er sjúkdómur eða slys.
    Í brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. sem er til kominn inn í heilbr.- og trn. 2. tölul., e staflið, b undirlið, breyting við 34. gr. tryggingalaga, segir:
    ,,Við 1. mgr. bætist: Skerðingarákvæði 6. mgr. 12. gr. [þ.e. skerðingarákvæði hvað varðar örorkulífeyrinn] skulu ekki taka til örorkulíferis samkvæmt þessari grein`` --- og þá er það örorkulífeyrir sem greiddur er vegna slysa. Þetta þýðir að verið er að flokka öryrkja í 1. og 2. flokks öryrkja. Sjúkdómsöryrkjar eru 2. flokks samkvæmt þessu. Þeir eru það reyndar nú þegar, það er rétt að taka það fram. Þessi hópur öryrkja er kallaður til endurmats inn í Tryggingastofnun á tveggja ára fresti og ef þeir hafa náð að skapa sér félagslegan stöðugleika og eru með fastar tekjur yfir skattleysismörkum, þá er örorkumat þeirra lækkað úr 75% örorku í 65%. Við þessa lækkun missa þeir örorkulífeyri en geta hins vegar fengið örorkustyrk sem er aftur tekjutengdur. Þetta endurmat á ekki við um öryrkja eða fólk sem er öryrkjar af völdum slyss. Þeir öryrkjar eru metnir í eitt skipti fyrir öll og hafi menn fengið 75% örorkumat þá stendur það. Endurmatið á hinum hópnum er hins vegar háð huglægu mati tryggingayfirlæknis og engar fastar reglur eru til um það hvernig með skuli farið. En viðmiðun er almennt sú að hafi mönnum tekist að skapa sér félagslegan stöðugleika og tekjur yfir skattleysismörkum eða slíkum mörkum þá er örorkumat þeirra lækkað. Þetta segir að í raun ættu engir öryrkjar með yfir 114 þús. kr. mánaðartekjur að vera með örorkulífeyri samkvæmt reglum Tryggingastofnunar nema örorkan stafi af slysi. Stafi örorkan af sjúkdómi ætti að vera búið að endurmeta þá og þeir ættu að vera komnir niður í 65% örorku og þar af leiðandi ekki vera í þessum hópi. Og þá vaknar sú spurning hvort þeir 100 öryrkjar, sem eru 2,1% öryrkja, og eru með yfir 114 þús. kr. mánaðartekjur og ættu því að missa allan sinn örorkulífeyri samkvæmt hugmyndum heilbr.- og trmrh., hvort þeir gera það samt ekki vegna þess að þeir séu öryrkjar af völdum slyss. Ég er með öðrum orðum að spyrja hvort þessir 100 öryrkjar sem menn hafa reiknað út að missi örorkulífeyri vegna tekjutengingarinnar, séu ekki þegar betur er að gáð allir öryrkjar af völdum slyss og þar af leiðandi muni þessi upphæð ekki sparast. Ég hef ekki nákvæma upphæð í höndunum en ef ég man rétt þá eru um 14 millj. kr. sem þarna eru taldar sparast. Og mér segir svo hugur að í rauninni muni ekkert sparast vegna þess að þetta sé slysaörorkulífeyrir en ekki sjúkdómsörorkulífeyrir sem þessi hópur er með.
    En ég vek líka athygli á því hvernig þetta er orðað með þá sem fá örorkulífeyri

vegna slysa í greinargerð með breytingum heilbr.- og trn. Mér finnst orðalagið satt að segja dálítið ósmekklegt og bera vott þeim þankagangi sem hér er á ferðinni. Nú er ég ekki að segja að þessi þankagangur sé í eðli sínu slæmur heldur hversu ákafir þeir eru í skerðingaráformum sínum. Þar segir:
    ,,Skerðingarákvæði örorkulífeyris eiga ekki að ná til þeirra sem fá lífeyri samkvæmt slysatryggingaákvæðum almannatryggingalaga.`` --- En, og taki menn nú eftir. --- ,,Óhjákvæmilegt er að sleppa þessu fólki við skerðingu lífeyris ella skapast ósamræmi þeirra milli þeirra sem fá einskiptisbætur og hinna.`` --- Óhjákvæmilegt er að sleppa þessu fólki við skerðingu lífeyris.
    Rétt er að það komi fram að textinn er upprunninn í ráðuneytinu þó að hann sé í brtt. meiri hluta heilbr.- og trn. Og mér finnst þetta lýsa því hversu ákafir menn eru í skerðingaráformum sínum. Þeim þykir verst að einhverjir skuli þurfa að sleppa við skerðingu og það í hópi öryrkja.
    En ég var áðan að tala um þessa 100 öryrkja sem væru með yfir 114 þús. kr. mánaðartekjur og eiga því að missa sinn örorkulífeyri. Mér segir svo hugur að þeir séu flestir öryrkjar af völdum slyss og munu því halda lífeyrinum. En ef einhverjir í þessum hópi eru öryrkjar af völdum sjúkdóms þá hljóta mjög sérstakar ástæður að liggja fyrir því að þessir einstaklingar hafi haldið 75% örorkumati vegna þess að það er í trássi við allar vinnureglur í Tryggingastofnun ríkisins, því miður.
    Ég er sem sagt að halda því fram og vil gjarnan fá svör við því frá heilbr.- og trmrh. á eftir hvort þessar 14,5 millj. sem þeir hafa reiknað sér til tekna hjá þessum hópi eða til sparnaðar réttara sagt, séu ekki rangt reiknaðar. Ef svo er, þá finnst mér þetta mjög dæmigert fyrir það hvað þetta mál er illa og yfirborðslega unnið.
    Auðvitað er svo kapítuli út af fyrir sig að menn skuli sjá ástæðu til þess að leggja 55% jaðarskatt á örorkulífeyrisþega sem komast yfir skattleysismörk í heildartekjur. Það er út af fyrir sig umhugsunarefni að þeim skuli refsað fyrir sjálfsbjargarviðleitni með þessum hætti. Oft er þarna um að ræða ungt fólk sem er að reyna að skapa sér sjálfstætt líf. Menn hafa talað hér um sjómennina og lagt mikla áherslu á þann hóp. Ég vil ekki síður leggja áherslu á þennan hóp, þ.e. örorkulífeyrisþegana. Vegna þess að flest er þetta ungt fólk og hefur ekkert annað sér til framfærslu en bæturnar og atvinnutekjur. Það hefur ekkert úr lífeyrissjóðum eins og t.d. aldraðir sem ekki fá þessa skerðingu og hugsanlega einhverjir úr hópi sjómanna. En aldraðir fá líka á sig 55% jaðarskatt eins og öryrkjarnir því ellilífeyrir á nú að tekjutengjast í nafni réttlætis og jöfnuðar.
    Það kom fram í sjónvarpsþætti í umræðum um ellilífeyri með heilbr.- og trmrh. ekki alls fyrir löngu, að þetta virðist allt vera gert í nafni réttlætis og jöfnuðar. Mér finnst stundum eins og heilbrrh. sé krossferðarriddari en ekki sé alveg ljóst hvert ferðinni er heitið. Réttlæti er góðra gjalda vert. Það er göfugt og jafnaðarhugsjónin er líka göfug og vel hægt að taka undir margt í henni. Ef þetta er allt saman gert í nafni réttlætis og jöfnuðar, af hverju eru þá eftirlaun úr lífeyrissjóði undanþegin þeirri tekjuviðmiðun sem hefur áhrif á skerðingu? Hvar er réttlætið? Að hvaða leyti eru sparaðar tekjur fyrri ára eðlisólíkar útborguðum tekjum ársins í ár? Hver er eðlismunurinn?     Lífeyrisgreiðslur eru auðvitað ekki annað en sparaðar tekjur fyrri ára og þeir sem hafa það sér til framfærslu núna verða ekki fyrir skerðingu, aðeins hinir sem vinna sér fyrir atvinnutekjum og fá þær útborgaðar núna. Ég vil fá svar ráðherra við því hver er eðlismunurinn á þessu tvennu. Er t.d. eitthvert réttlæti í því að ráðherra, tökum það dæmi, á fullum eftirlaunum haldi óskertum grunnlífeyri meðan einstaklingur, sem á aðild að veikum lífeyrissjóði og rembist því við að vinna til að hafa í sig og á lengur en hann kannski vildi, verður fyrir skerðingaráráttu krataráðherrans en ekki hinn? Hvert er réttlætið í því? Ég kem ekki auga á það.
    Er í raun verið að fullnægja réttlætinu eða bara ná sér í aura þar sem þeir eru auðteknir? Mér finnst hið síðara nær lagi vegna þess að það sem gert er í öllum þessum skerðingarmálum er að menn deila og drottna. Þeir gera það hjá ellilífeyrisþegum, taka af sumum, láta aðra halda sínu. Það er gert hjá barnafólki, tekið af sumum, fært til annarra þó að óvera sé og það er gert líka hjá sjómönnum og öryrkjum. Ef menn vilja fullnægja réttlætinu af hverju er þá ekki allur grunnlífeyrir tekjutengdur? Af hverju bara örorkubætur og ellilífeyrir? Af hverju ekki allur annar grunnlífeyrir líka? Hvað með mæðra- og feðralaun, ekkla- og ekkjubætur, barnalífeyri? Af hverju ekki? Ég er ekki að leggja til að þetta verði gert. Ég bara spyr. Hvert er prinsippið, hver er grunnhugmyndin, hvert er réttlætið í því að taka ákveðna hópa út úr? Hvert er þessari krossferð heitið, hæstv. heilbr.- og trmrh.? Með hverjum er samúðin og hvaða vígi stendur til að fella í þessari herferð?
    Eitt vígið, sem fellur viljandi eða fyrir slysni, ég hef grun um að það sé fremur fyrir slysni, er sjómannalífeyririnn vegna þess að hann er tengdur ellilífeyrinum. Það var samþykkt frv. um þennan sjómannalífeyri hér á Alþingi veturinn 1980--1981. Eins og kom fram í máli Halldórs Ásgrímsson áðan var þetta frv. samið í samráði við samtök sjómanna og í tengslum við kjarasamninga þeirra. Á bak við þetta frv. lá hugmynd sem kemur auðvitað fram í athugasemdum við frv. En þar segir í athugasemd við 1. gr. sem fjallar um sjómannalífeyrinn, með leyfi forseta:
    ,,Því verður ekki mótmælt að sjómenn leggja á sig mikið erfiði við störf sín. Sú krafa sjómannasamtakanna að sjómönnum verði tryggður réttur til töku lífeyris við lægri aldursmörk en almennt gildir í landinu að uppfylltum skilyrðum um t.d. 25 ára starf byggist þess vegna á þeirri viðurkenndu staðreynd að sjómannastarfið er það erfitt og vinnutími svo langur að engum manni er ætlandi að standast þær kröfur sem starfið gerir lengur en það. Eru þess aðeins örfá dæmi að sjómenn á fiskiskipum nái 60 ára aldri í starfi.
    Í frv. þessu er gert ráð fyrir því að réttur til töku ellilífeyris miðist við 60 ára aldur sjómanns en hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að viðkomandi þurfi að vera starfandi sjómaður þegar hann nær þessum aldri. Í flestum nágrannalanda okkar mun sérstaða sjómanna hafa verið viðurkennd að þessu leyti. Einnig skal á það bent að almennt er það talsverðum erfiðleikum bundið fyrir sjómenn að fá vinnu við hæfi í landi að lokinni sjómennsku.``
    Þessi texti verður ekki skilinn öðruvísi en svo að ekki hafi verið ráð fyrir því gert að menn hættu allri iðju, hættu að vinna heldur að þeir flyttu sig um set, þ.e. af sjónum og í land og við það mundu þeir væntanlega lækka nokkuð í tekjum. Nú er með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin grípur til gegn ellilífeyri og gegn sjómannalífeyri í raun verið að ganga gegn þessari grunnhugmynd í breytingunni á almannatryggingalögunum. Það má auðvitað með ákveðnum rökum halda því fram að sjómannalífeyrir og sjómannaafslátturinn sé í raun niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðar í landinu, því má vel halda fram með rökum. Það breytir þó ekki því að hvort tveggja er komið á í tengslum við kjarasamninga og afnám eða skerðing þessara réttinda ætti því líka að skoðast í tengslum við kjarasamninga, fylgja kjarasamningi.
    Það hefur vakið athygli mína að það hefur lítið heyrst frá fulltrúum sjómanna á þingi um þetta mál. Einn þeirra hefur þó setið í heilbr.- og trn. og ekki haft nokkurt orð um þennan sjómannaafslátt þar og annar situr hér á þingi sem varamaður og hefur setið hér síðan þetta frv. kom til umfjöllunar og ég hef ekki orðið vör við að hann hafi tekið til máls um þetta efni. Það hefur oft verið haft fyrir satt að ekki sé hægt að spauga með íslenskt sjómannsblóð. En ég verð að spyrja: Hvaða glundur er það sem rennur í æðum þessara sjómanna sem sitja hér á þingi? Því að ég verð ekki vör við annað en það sé mjög auðvelt að spauga með þá í hagsmunamálum sinnar stéttar.
    Síðan ég kom hér á Alþingi hefur örugglega vikulega verið sagt héðan úr þessari pontu og haft til marks um ágæti manna eða ágæti skoðana manna hvort þeir hafi migið í saltan sjó. Hafa menn gjarnan haft þetta að orðtaki hér í pontu. Og það hefur verið haft til marks um að þeir hefðu rétt stilltan radar á allt sem góðu gegndi. Ég verð að segja að eitthvað hefur hlaupið í radar sjómannanna hér á Alþingi að láta það yfir sig ganga núna í tvígang á skömmum tíma að vegið sé að hagsmunum þeirra með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Það hefur eitthvað hlaupið í radar þeirra og ég er hrædd um að þeir hafi illa misst áttir.
    En ég var að tala um tekjutengingu og hugmyndin um tekjutengingu og skerðingu bóta ýmiss konar leiðir auðvitað hugann að eðli mismunandi bótagreiðslna. Hvert er hlutverk bótagreiðslna? Er í öllum tilvikum sanngjarnt og eðlilegt að tekjutengja? Eru bætur eða tryggingar réttur einstaklinganna eða eru þær ölmusa samfélagsins? Eru þær hjálparhönd samfélagsins? Eru þær almennt jöfnunartæki sem getur þá verið eðlilegt að tekjutengja eða eru þær tæki til að jafna aðstöðumun hópa? Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna örorkubætur sem draga úr forskoti sem heilbrigðir hafa umfram öryrkja. Ég vil líka nefna barnabætur í þessu sambandi sem ég lít ekki á sem almennt jöfnunartæki heldur tæki til þess að jafna aðstöðumun hópa, þ.e. tæki til þess að draga úr forskoti barnlausra umfram barnafólk. Og það orkar verulega tvímælis að tekjutengja slíkar bætur. Ég verð ekki vör við í þeirri umfjöllun, sem hér hefur verið um þessa hluti á Alþingi frá því í haust, að menn hafi nokkra heildarsýn, menn hafi nokkra grunnhugmynd í því sem þeir eru að gera. Það er bara krukkað hér og þar og reynt að ná sér í aura þar sem það er auðveldast. En úr því að ég minntist á barnbæturnar þá langar mig lítillega til að fjalla um þær vegna þess að þær eru auðvitað kapítuli út af fyrir sig sem ég tel að hafi ekki verið nægilega ræddur hér Alþingi og ég vil enn og aftur ítreka það sem ég hef áður sagt að ég tel fráleitt að ekki skuli öllum börnum ætluð sama grunnframfærsla, í rauninni sama startgjald í þessum heimi. Það telur það enginn ofrausn þegar fullorðnir eiga í hlut að allir fái sama startgjald. Öll fáum við sama persónuafsláttinn, rúmar 22 þús. kr., hvort sem við erum gift eða ógift, ung, gömul, heilbrigð eða sjúk. Við fáum öll þetta sama startgjald. Og því skyldu ekki öll börn fá það líka? Mér finnst það virðingarleysi að veita börnum ekki sambærilegan rétt og fullorðnum í þessu efni. Það er verið að gera þeirra rétt með þeirri skerðingu á barnabótum sem hér var ákveðin fyrir jól að sérstakri matarholu eða samningsatriði sem hægt er að hækka ef menn þurfa nauðsynlega að koma því við og lækka svo þegar það hentar stjórnvöldum betur. Ég er hrædd um að menn mundu ekki leyfa sér að fara svona með persónuafslátt fullorðinna einstaklinga þannig að þetta er hreint virðingarleysi.
    Vegna þess að ég er að tala um barnabætur langar mig að tengja það aðeins útgerðinni eða sjómönnum þó svo að ýmsum kunni að þykja það langsótt en það er það bara alls ekki. Ég talaði hér áðan um að það mætti líta á sjómannaafsláttinn og sjómannalífeyrinn sem niðurgreiðslu á launakostnað útgerðar. Það má með sama hætti líta svo á að hinn ,,góði`` vilji, vilji stjórnvalda til að gera vel við einstæða foreldra sé öðru fremur til þess fallinn að draga úr meðlagskostnaði, að þetta sé niðurgreiðsla á meðlagskostnaði. Meðlag er í dag um 7.400 kr. á mánuði og ég leyfi mér að fullyrða að faðir, því að í flestum tilvikum eru það feður sem þetta greiða, sem greiðir þá upphæð með barni sínu sleppur mun léttar frá framfærslu þess en faðir í hjúskap eða sambúð. Stjórnvöld eru því ekki fyrst og fremst að gera eitthvað fyrir einstæða foreldra sem eiga svo að standa í gífurlegri þakkarskuld við stjórnvöld fyrir að gera eitthvað í þeirra þágu. Það er ekki verið að gera eitthvað fyrst og fremst fyrir þessa foreldra heldur fyrir meðlagsskylda feður. Það er verið að niðurgreiða kostnað meðlagsskyldra feðra.
    Ég var að tala um tekjutenginguna og mig langar, þó að ég hafi gagnrýnt það mjög hvernig að því hefur verið staðið af núv. ríkisstjórn, vil ég að það komi skýrt fram að við kvennalistakonur erum ekki í grundvallaratriðum mótfallnar tekjutengingu, alls ekki. Við vitum og það er skoðun okkar að hún geti komið konum til góða svo fremi sem hún sé almennt notuð hinum tekjulágu til góða, þ.e. til að lyfta þeim en ekki bara til að ýta hinum tekjuhærri niður. En það er ekki sama hvernig að framkvæmdinni er staðið. Það er t.d. fráleitt að hefja skerðingu bóta eða greiðslna annarra við tekjur sem eru undir framfærslumörkum. 66 þús. kr. á mánuði eru undir framfærslumörkum og að byrja tekjutengingu þar er auðvitað fráleitt. Það er líka fráleitt að tekjutengja allt nema skattkerfið. Ef við viljum tekjutengja þá á auðvitað að bæta við skattþrepum. Það er sú tekjutenging sem mestu máli skiptir. Það er líka fráleitt að miða tekjutengingu einvörðungu við launatekjur fólks en ekki fjármagnstekjur og það er ekki hægt að ljá máls á tekjutengingu fyrr en fjármagnstekjur hafa verið gerðar skattskyldar, það er ekki hægt að ljá máls á því.
    Mig langar til þess að nefna tölur sem eru mjög athyglisverðar og komu inn í heilbr.- og trn. Að vísu varða þær tölur bara ellilífeyrisþega. Það er verið að reikna þar út hver

er eignarstofn ýmissa tekjuhópa ellilífeyrisþega. Þar kemur m.a. fram í þessum gögnum að 37 ellilífeyrisþegar, og þá er það fólk sem ekki er í sambúð eða gift, sem hafa tekjur á mánuði undir 16.200, ég tók viðmiðunina 16.200 vegna þess að þá byrjar tekjutryggingin að skerðast, þetta er sem sagt hópur sem fær fullan ellilífeyri og fulla tekjutryggingu, 37 einstaklingar og eru með eignarstofn að meðaltali upp á 25 millj. kr. á mann. Þessi hópur fær ekki á sig neina skerðingu. Hann heldur fullum ellilífeyri og fullri tekjutryggingu. Í þessum sama hópi eru 133 hjón. Á bak við það eru þá 266 einstaklingar sem líka njóta fullrar tekjutryggingar þrátt fyrir að þetta fólk sé með eignarstofn upp á að meðaltali 26 millj. kr. Og það er rétt að taka fram að það er alls ekki víst að allar eignir séu þarna fram taldar þar sem þær eru ekki skattskyldar margar hverjar heldur einungis framtalsskyldar og það er auðvitað mikið sem ekki skilar sér á skattframtölum af slíkum eignum. Bara til að nefna mönnum dæmi um þessar eignir sem þarna er um að ræða þá eru hér t.d. sex einstaklingar sem eru með um 30--35 þús. kr. á mánuði í tekjur og það geta þess vegna verið lífeyristekjur eða atvinnutekjur og þeir eru með eignarstofn upp á 49 millj. að meðaltali. Ef við tökum svo aftur hópa sem eru með talsvert hærri tekjur, þ.e. tekjur yfir 250 þús. kr. á mánuði, þá erum við þar líka með 14 einstakinga sem eru hver um sig með eignarskattsstofn upp á 44 millj. og hjón, 171 hjón, ef maður getur sagt svo, með eignarskattsstofn upp á 44 millj. Þarna eru auðvitað á ferðinni hópar sem hafa gífurlegar eignir og eignatekjur sem verða væntanlega ekki fyrir þeirri skerðingu sem hæstv. ríkisstjórn er að koma á og undanskil ég þá auðvitað þá sem ég nefndi áðan með þessar hæstu tekjur. Maður hlýtur því að spyrja sig hvort að þetta sé réttlæti. Er þetta réttlæti? Er þetta jöfnuður? Og er þetta gert í nafni þessara tveggja göfugu hugtaka?
    Ég ætla ekki að ræða meira um breytinguna sem nú hefur verið unnið að á almannatryggingalöggjöfinni, þ.e. þessar nýju breytingar um tekjutengingu ellilífeyris, heldur langar mig núna aðeins að víkja að þeim breytingum sem heilbr.- og trn. leggur til að gerðar verði á þeim þætti frv. sem snýr að sjúkratryggingum og var til meðferðar hér á þingi fyrir jól. Í heilbr.- og trn. náðust fram jákvæðar breytingar á sjúkratryggingunum, þ.e. á þeim tillögum að breytingum á sjúkratryggingum sem heilbr.- og trmrh. lagði hér fram á þingi, þ.e. hans innlegg í bandorminn. Á þessu náðust fram jákvæðar breytingar og góð samvinna var í heilbr.- og trn. um það mál og í raun finnst mér að sú samvinna hafi verið til fyrirmyndar. Sú breyting náðist fram í nefndinni að forvarnir í tannlækningum eru nú veittar án endurgjalds. Þar átti að greiða ákveðna prósentuupphæð rétt eins og af öðrum tannlækningum en nú verða þær veittar alveg án endurgjalds sem er auðvitað mjög mikilvægt því þetta er einhver mikilvægasta starfsemi tannlækna.
    Það náðist líka fram að ekki er sú algera lokun á notkun almennra tannlækna eins og var í frv. upphaflega. Foreldrum er heimilt að leita til þeirra með börn sín þó að þeir eigi kost á skólatannlækni en greiðslur fara þó samkvæmt gjaldskrá Tryggingastofnunar ríkisins en ekki samkvæmt reikningi tannlæknanna eins og verið hefur nema þá í þeim tilvikum þar sem reikningurinn er lægri. En stærsti gallinn á þessu --- og það sem gerir mann kannski ekki fyllilega sáttan við það sem kom út úr nefndinni þó að minni hlutinn stæði að því --- stærsti gallinn er enn þá sá að ekki verður greitt fyrir tannréttingar barna nema í allra alvarlegustu tilvikum.
    Það er ekki ýkja langt síðan að úrskurður tannlæknis um að rétta þyrfti tennur í barni var venjulegu launafólki verulegt áfall og fylgdu því umtalsverð útgjöld sem gerðu það að verkum að fólk þurfti ýmist að leggja á sig aukna vinnu, herða sultarólina eða hreinlega sleppa því að láta gera við tennur barna sinna. Nú finnst mér að með þeirri breytingu, sem hér er verið að gera á sjúkratryggingum almannatrygginga, sé verið að stíga skref aftur til þess tíma. Það er þess vegna sem minni hluti heilbr.- og trn. leggur fram brtt. á þskj. 307 þar sem við gerum ráð fyrir því að inn í 17. gr. almannatryggingalaganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
    ,,Heimilt er að greiða allt að 50% kostnaðar við tannréttingar hjá börnum og unglingum 16 ára og yngri samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessum tölulið að fyrir liggi sérstök umsókn sem útfyllt er af viðkomandi tannlækni samkvæmt ósk Tryggingastofnunar og samþykki sjúkratrygginga.``
    Þetta er í rauninni svipað ákvæði og er í núgildandi lögum en það er rétt að vekja athygli á því að þetta er heimildarákvæði og útfærslan er auðvitað í höndum ráðherra. Við teljum mjög brýnt að þetta komi þarna inn og hafi menn ekki viljað hafa tannréttingarnar inni í tillögum sínum, þ.e. meiri hluti heilbr.- og trn., vegna deilna við tannlækna eða tannréttingafræðinga þá eru þær deilur nú leystar eftir því sem manni hefur skilist fyrir utan það að það orðalag, sem við leggjum hér til á lagagrein, ætti ekki að skapa vandamál í samskiptum við tannréttingafræðinga. Við teljum líka að ef þessi hópur barna er tekinn út úr almannatryggingalöggjöfinni vegna þessara deilna þá sé verið að refsa þeim sem síst skyldi í þessu efni.
    Ég ætla ekki að fjalla meira um brtt. heilbr.- og trn. við sjúkratryggingarnar en langar hins vegar að gera hér lítillega að umtalsefni reglugerð sem heilbr.- og trmrn. hefur nú nýverið sett um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Þessi reglugerð er sett væntanlega í samræmi við þau lög sem enn hafa ekki verið samþykkt hér á Alþingi. Við erum ekki búin að samþykkja breytingu á heilbrigðis- og tryggingalögunum og þessi reglugerð tók gildi þann 15. jan. sem er ef ég man rétt í fyrradag. Það er kannski enginn sérstakur fingurbrjótur fyrir ráðherra þó að hann setji þessa reglugerð án þess að lögin hafi hér farið í gegn vegna þess að ég get ímyndað mér, án þess að ég hafi skoðað það nákvæmlega, að hún geti út af fyrir sig staðist þrátt fyrir að lagabreytingin hafi ekki gerst. En mér finnst dálítið sérkennilegt að láta reglugerðina ekki bíða eftir gildistöku laganna, láta það tvennt ekki fylgjast að í meðförum í ráðuneytinu.
    Mig langar aðeins til þess að fjalla um reglugerðina. Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að með reglugerðinni er komugjald sjúklinga til sérfræðinga hækkað um 150%, þ.e. úr 600 kr. í 1.500 kr. Mörgum kann að þykja 1.500 kr. gjald ekki mjög há upphæð. En þetta 1.500 kr. gjald er 3% af mánaðarlaunum fiskverkakonu eftir 10 ára starf samkvæmt taxta. Eftir 10 ára starf hefur fiskverkakona 49 þús. kr. á mánuði og þessar 1.500 kr. eru 3% af launum hennar og það er allnokkuð. Þar að auki er verið að koma á 600 kr. gjaldi á heilsugæslustöð þó að ungbarnaeftirlit og mæðraskoðun sé að vísu undanskilið. Mín skoðun er hins vegar sú að öll heilsuvernd ætti að vera undanþegin þessu gjaldi og aðeins ætti að greiða fyrir hina svokölluðu viðgerðarþjónustu heilsugæslunnar.
    Í þriðja lagi er verið að koma á 1.500 kr. gjaldi fyrir krabbameinsleit á heilsugæslustöð og sú gjaldtaka finnst mér fráleit. Mér finnst það fráleitt að láta greiða 1.500 kr. fyrir krabbameinsleit vegna þess að þetta er svo mikilvæg forvörn sem getur sparað hinu opinbera alveg gífurleg útgjöld ef næst til allra kvenna í krabbameinsleit. Þetta getur sparað gífurleg útgjöld og það er fráleitt að hækka slíka þjónustu. Það er jafnfráleitt og að leggja gjald á ungbarnaeftirlit og mæðraskoðun sem menn féllu frá og tóku rökum því efni.
    Eitt vil ég gera sérstaklega að umtalsefni og það er 1.500 kr. gjald á göngudeildir, ekki síst á göngudeildum geðdeilda. Ég vek athygli á því að t.d. á barna- og unglingageðdeildinni á Dalbraut þurfa foreldrar nú að greiða 1.500 kr. fyrir hverja komu og þá er vert að hafa í huga að fjölmargir foreldrar koma þangað með börn sín nauðugir. Þeir eru sendir þangað með börn sín af skólanum, af félagsmálayfirvöldum, af dagvistum og það er auðvitað full ástæða til þess, ég er ekki að mæla gegn því að það sé gert. Engu að síður er þetta fólk sjálfs sín ráðandi og það fer með forræði barna sinna og það fer þangað vegna þess að það er í rauninni þvingað til þess. Í ofanálag á það svo að greiða 1.500 kr. fyrir að koma þarna. Þetta á ekki bara við um göngudeildir barna- og unglingageðdeildar heldur um geðdeildir almennt. Það er talsvert um það að fólk fari þangað fyrir þrábeiðni ættingja eða það sé á einhvern máta þvingað til þess með ýmsum aðferðum og það á að greiða fyrir þetta 1.500 kr. Oft og tíðum er þetta fólk sem er félagslega illa sett og margt af þessu fólki er fátækt vegna þess að fátækt er til í landinu og hún er til ekki síst hér í Reykjavík. Þetta fólk er skikkað til þess að greiða 1.500 kr. og það er engin heimild í reglugerðinni til þess að fella þetta gjald niður. Það var auðvitað 900 kr. gjaldtaka þar og mér skilst að starfsfólk á göngudeildunum hafi oft séð í gegnum fingur sér með gjaldtökuna. En það er að verða enn þá erfiðara en áður að sjá í gegnum fingur sér með slíka hluti. Mér skilst að það sé m.a. vegna þess fyrirkomulags sem nú er verið að taka upp á reikningshaldi á þessum stöðum, á útskrift reikninga. Það er engin heimild í reglugerðinni til þess að fella niður gjaldtöku í tilvikum sem þessum. Ég vil biðja menn að hugleiða þetta og athuga með hvaða hætti sé hægt að taka á þessu máli.
    Enn eitt vil ég gera að umtalsefni í þessari reglugerð og það varðar glasafrjóvgun því að í reglugerðinni er gert ráð fyrir því að greitt sé fyrir glasafrjóvgun 105 þús. kr. fyrir fyrstu meðferð, 60 þús. kr. fyrir aðra og þriðju meðferð og 200 þús. kr., þ.e. fullan kostnað, fyrir aðrar meðferðir eða meðferðir umfram þrjár. Mér finnst þetta satt að segja dálítið sérkennileg gjaldtaka vegna þess að verið er að setja glasafrjóvgun af stað hér á landi og það er í raun verið að safna reynslu. Þetta er tilraunastarfsemi. Þetta er tilraunastarfsemi og konur sem þarna koma eru þá auðvitað notaðar í tilraunaskyni og ég segi það þá ekki í vondum tilgangi, þær eru engin tilraunadýr. Verið er að safna reynslu og tölfræðiupplýsingum á meðan þetta er að fara af stað. Þær konur sem þarna koma greiða 102 þús. kr. fyrir fyrsta skiptið en vita ekki hvað þær eru að kaupa. Það er engin reynsla komin. Það liggja engar tölur fyrir um árangur og það er lágmarkskrafa að slíkt liggi fyrir áður en farið er út í gjaldtöku. Fólk ræður í því þá sjálft hvort það tekur það eða hafnar því. En það á að vita hvað það er að kaupa. Mér finnst ómóralskt að selja einhverjum eitthvað sem enginn veit hvað er. Það skal tekið fram að byrjunin í glasafrjóvgunum lofar góðu. Með öðrum orðum munu vera komnar 11 þunganir af þeim 25 sem þarna hafa fengið meðferð en það segir okkur ekki neitt. Reynslan er allt of lítil til að teljast marktæk. Ef menn vilja endilega taka gjald fyrir þessa tilteknu þjónustu hefði verið mun nær í reglugerðinni að kveða á um að eftir tiltekinn reynslutíma yrði tekið upp gjald þannig að þeir sem þangað leita viti hvað þeir eru að kaupa.
    Hins vegar vil ég taka það fram að ég tel þessa gjaldtöku almennt orka tvímælis og geti reynst erfitt að færa rök fyrir henni umfram aðrar. Þá vil ég spyrja: Hvers vegna skyldi fólk greiða fyrir þessa aðgerð sem hjálpar því að eignast börn, en t.d. ekki dýrar smásjáraðgerðir á eggjastokkum kvenna sem á að gera þeim kleift að verða barnshafandi? Ég sé ekki hver er eðlismunurinn á þessu tvennu. Af hverju þessi aðgerð er greiðsluskyld, ekki hin sem auðvitað er líka dýr? Þegar ég spyr þessara spurninga og ég tel mig vera að spyrja hér prinsippspurninga í mörgum málum þá er ég ekki að leggja til að svona sé farið með að tekið sé gjald fyrir slíkar smásjáraðgerðir. En ég spyr: Af hverju eitt en ekki annað?
    Ég hlýt líka að spyrja og mér finnst það óneitanlega dálítið sérkennilegt að fyrsta gjaldtaka sem tekin er upp fyrir aðgerð á opinberu sjúkrahúsi skuli tengd barnseignarhlutverki fólks. Mér segir svo hugur um að það sé m.a. vegna þess að það er tiltölulega auðveldt að koma henni á. Löngun fólks til þess að eignast barn er nógu mikil til þess að vera grundvöllur vandræðalausrar gjaldheimtu fyrir hið opinbera. Mér finnst þetta satt að segja dálítið sérkennilegt og vera valið eins og svo margt annað sem hér hefur verið gert til þess eins að ná sér í aura en það sé engin jafnaðarhugsjón, engin réttlætishugsjón, ekkert prinsipp sem að baki býr. Ég tel gjaldtökuna ekki eðlilega að svo stöddu eins og ég rakti áðan.
    Það sem ekki hefur verið gert í heilbrigðis- og tryggingamálum í nafni réttlætis og jafnaðar hefur verið gert þá í nafni kostnaðarvitundar. Kostnaðarvitundin á öll að vera sjúklinganna, ekki þeirra sem þjónustuna veita. Þar er ekki verið að beita neinum lagatextum eða aðgerðum til þess að koma kostnaðarvitundinni við. Ég ræddi þetta ítarlega við 1. umr. um bandorminn fyrir jól og ég vil ítreka það sem ég sagði þá um þetta efni.
    Ég vil ítreka það líka að þeir sem nota heilbrigðisþjónustuna manna mest eru barnafólk og aldraðir. Það eru því þessir hópar sem verða fyrir hækkunum á sjúkrakostnaði umfram aðra þó að ég vilji í hinu orðinu vissulega segja að það er til bóta, það ákvæði nýrrar reglugerðar eða sjúkratryggingar sem kveður á um að það sé 12 þús. kr. þak á greiðslum fólks í heilbrigðiskerfinu og ég fagna því. En þessi svokallaði sparnaður sem verið er að gera í tryggingakerfinu með því að flytja aukin gjöld yfir á þá sem þjónustunnar njóta

er í rauninni ekki sparnaður. Þetta er tilflutningur á kostnaði en ekki sparnaður, tilflutningur frá ríkinu yfir til almennings. Þá vil ég vekja athygli á nýlegri samþykkt sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands gerði og er frá 16. jan., þ.e. í gær. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ítrekar mótmæli samtakanna gegn árásum ríkisstjórnarinnar á lífskjör launafólks sem þegar hefur verið komið á framfæri við þingnefndir og ráðherra. Hækkun þjónustugjalda m.a. fyrir lyf og læknisþjónustu, raunhækkun skatta, skerðing barnabóta, sjómannaafsláttar og gjaldskrárhækkanir hafa í för með sér rúmlega 2% skerðingu á ráðstöfunartekjum að meðaltali.`` --- Og auðvitað vitum við að það eru ýmsir sem verða fyrir mun meiri skerðingu og aðrir lítilli sem engri. Kaupmáttarskerðingin er enn meiri hjá barnafjölskyldum og þeim sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. --- ,,Skattleysismörk eru nú rúmlega 2.000 kr. lægri á mánuði en ætti að vera miðað við lánskjaravísitölu. Þá er einnig stefnt að því að skerða ellilífeyri og fella burt ríkisábyrgð af lífeyrisréttindum við gjaldþrot. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin enn vikist undan því að skattleggja fjármagnstekjur.
    Miðstjórn Alþýðusambandsins áréttar að í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir verður knúið á um það gagnvart ríkisstjórninni að þessum ákvörðunum verði breytt.`` Ég vona sannarlega að Alþýðusamband Íslands hafi erindi sem erfiði í því sambandi því að það er vissulega nauðsynlegt og mikilvægt að brjóta sumar þessar breytingar á bak aftur.
    Sparnaðurinn er ekki fólginn í því að flytja þjónustugjöld yfir á almenning. Hann er fólginn í því að koma flötum niðurskurði á allar opinberar stofnanir og fyrirtæki. Þessi flati niðurskurður kemur ekki síst niður á sjúkrahúsum og skólum landsins. Margur hver niðurskurður er óréttlátur en enginn niðurskurður er eins óréttlátur og hinn svokallaði flati niðurskurður vegna þess að hann hittir alla jafnt fyrir, jafnt þá sem bruðla sem hina sem spara. Hann hittir alla jafnt fyrir.
    Þessi niðurskurður þarf auðvitað mun ítarlegri umræðu á þingi en ég tel ástæðu til að fara út í að þessu sinni og það munu væntanlega gefast önnur tækifæri til þess. Ég kemst ekki hjá því að nefna grunnskólann áður en ég fer héðan úr pontunni vegna þess að niðurskurðurinn þar er svo grátlegur að maður trúir því varla að þeim mönnum sem leggja hann til geti verið alvara. Það ber vott um algeran skilnings- og þekkingarskort á málefnum grunnskólans að hugsa um slíkan niðurskurð í alvöru. Öll þjónusta við börn í þessu samfélagi hvort sem við erum að tala um skóla eða dagvistun er í algeru fjársvelti og það vantar mikið upp á að því er varðar grunnskólann sérstaklega að hann geti með viðunandi hætti sinnt og ræktað þá einstaklinga sem þar dvelja 9 mánuði á ári í 10 ár, marga klukkutíma á dag. Það vantar mikið upp á að hann geti ræktað og sinnt þessum einstaklingum sem þarna eiga að þroskast og mótast innan þessara fjögurra veggja þennan tíma. Að leggja þetta til er blinda á aðstæður og ekki síst tilfinningar barna og mig langar að nefna dæmi um þetta.
    Í umræðunni að undanförnu hefur verið hugmynd um svokölluð aukabörn í bekkjardeild, þ.e. ef menn hugsa sér að 30 börn séu í bekk og síðan eru óvart 96 börn í árganginum þá eru 6 aukabörn þarna sem eitthvað þarf að gera með. Menn hafa verið með þá hugmynd að flytja þau í annan skóla. Þetta er svo ótrúleg hugmynd og hún er svo ótrúlega grimm. Hver ætlar að velja þessi 6 börn eða hvað þau eru mörg, þau geta verið þess vegna 10, hver ætlar að velja þau úr sem ekki fá að fylgja félögum sínum í árgangi sínum? Hver ætlar að ákveða hvaða börn þetta eiga að vera sem eiga að fara út úr sínu hverfi í annan skóla? Ætti flutningur þessara barna að vera til frambúðar eða er verið að senda þau tímabundið í burtu úr sínum skóla, kannski einn vetur? Mér er í rauninni alveg sama hvor hugmyndin það er. Þetta er hvort tveggja jafnslæmt, bara á mismunandi hátt. Það er engu betra að senda barn tímabundið í einn vetur úr sínum kunningjahóp eða í nokkra vetur. ( Gripið fram í: Það mundi enginn skólastjóri gera þetta.) Og mundi, eins og hv. þm. segir, enginn skólastjóri gera þetta. Það yrði þá að gerast með einhverjum þvingunum í ráðuneytinu. En það sem mér finnst merkilegt við þessa umræðu, af því að ég er að tala

um að þetta sé grimm hugmynd, er að þessir menn eru helst að velta fyrir sér í sambandi við þetta hinum aukna kostnaði á sveitarfélögin sem mundi fylgja skólaakstri. Þeir hafa ekki verið að tala um tilfinningar barnanna eða hvernig þetta snertir þau. Þeir hafa verið að tala um kostnað sveitarfélaganna vegna skólaaksturs. Það hefur verið það helsta sem menn hafa séð að gæti verið gagnrýni sem stæðist. Þeir hafa ekki velt fyrir sér tilfinningum þeirra sem í hlut eiga. Af því að ég er að tala um grunnskólann og nú ætla ég að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, þá ætla ég að biðja menn í allri vinsemd og einlægni að hverfa frá öllum hugmyndum um þennan niðurskurð í grunnskólanum. Hann fær ekki staðist, það er algerlega útilokað.