Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 17:47:00 (2849)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Vegna athugasemdar hv. 8. þm. Reykn. vil ég taka fram að ég hafði fjarvistarleyfi í ákveðinn tíma, ég hef syndgað um tvær mínútur eða svo. Það var vegna þess að ég þurfti að fara í útvarp og eiga þar orðastað við Ögmund Jónasson, formann BSRB. Áður en ég lagði af stað talaði ég við þann ræðumann sem hélt ræðu á meðan ég var frá og reyndar aðra sem hefðu átt að flytja ræður eftir að viðkomandi ræðumaður flutti sína ræðu. Það var vitað að ég yrði frá þennan tíma, ég hef ekki tafið eitt eða neitt og m.a.s. sat ég hérna þann hluta ræðutíma hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, 10. þm. Reykv., að því marki sem efni ræðunnar sneri að mínu ráðuneyti og þeim málefnum sem ég fer með.
    Ég vek aðeins athygli á þessu og jafnframt segja að ég tel að við höfum gegnt hér þingskyldu okkar að allflestu leyti og ég hugsa talsvert betur en oftast hefur verið gert áður og er þá síðasta ríkisstjórn meðtalin þótt ég viðurkenni að oft hafi 8. þm. Reykn. setið ágætlega undir ræðum manna þegar hann var fjmrh. En ég tel að það sé ekki efni til þess að ræða gæslu þingskapa að ég skuli hafa vikið mér frá með fullu leyfi og hafa þar að auki talað við viðkomandi ræðumenn.