Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 17:56:00 (2856)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :

     Virðulegi forseti. Ég biðst forláts að koma hér aftur en ég tel það óhjákvæmilegt til þess að skýra ræðu hæstv. heilbrrh. því ég reikna með að hún hafi verið óskiljanleg flestum þingmönnum. Það sem hæstv. heilbrrh. mun hafa verið að víkja að var að ég vakti athygli á því, ég held í síðustu viku, að tekið hefði verið viðtal við hæstv. utanrrh. um samþykkt ríkisstjórnarinnar varðandi málefni GATT og það viðtal myndi koma í fréttatíma ríkissjónvarpsins þá um kvöldið. Hvernig hæstv. heilbrrh. kemur þessu heim og saman við það sem við erum að tala um er mér hins vegar algjörlega hulið. ( Forseti: Við erum að ræða gæslu þingskapa.) Það er nú einu sinni þannig, virðulegi forseti, að ef vikið er að manni undir liðnum gæsla þingskapa, og það af hæstv. ráðherrum, er óhjákvæmilegt að maður svari undir sama dagskrárlið.
    Ég hef hins vegar tekið eftir því að núna um þessa helgi ætlar hæstv. heilbrrh. að fara með þennan sama utanrrh. og formann Alþfl. vestur á Ísafjörð og þeir ætla að halda þar fund, lokaðan fund. Það er merkilegur vitnisburður um ástand Alþfl. á Vestfjörðum að formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., treystir sér ekki lengur til þess að halda opna fundi á Ísafirði. ( Gripið fram í: Undir rauðu ljósi.)