Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 11:07:00 (2869)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Ég vil fyrst út af þeim umræðum sem hafa farið hér fram segja að mér finnst það undarlegur misskilningur, sem hæstv. fjmrh. var að leiðrétta áðan, að eftir að búið er að koma fram mjög skýrt og greinilega í fjölmiðlum frá hendi aðstoðarmanns fjmrh. að það sé fullt umboð til að stöðva launagreiðslur kemur hæstv. fjmrh. og segir að það hafi aldrei staðið til. Þessi skýring nægir a.m.k. mér ekki því að það var greinilegt að sá maður sem viðtalið var við stóð í þeirri meiningu og hann sagði það reyndar alveg skýrt að hann teldi að til þessa væru heimildir. En fjmrh. hefur borið það til baka og það er vel. En aðdragandinn að þessu máli segir okkur að þarna hafi menn ætlað sér eitthvað sem þeir hafi hætt við, það held ég sé ekki nokkur vafi á. Þess vegna get ég tekið undir með hv. þm. Páli Péturssyni þegar hann sagði að hlutverk stjórnarandstöðunnar skipti miklu máli.
    Það hefur reyndar komið fram í umræðum og ákvarðanatöku og tillögum hér í allan vetur að hlutverk stjórnarandstöðunnar er ómetanlegt. Svo oft hefur þessi ríkisstjórn breytt sínum ákvörðunum, komið með nýjar tillögur sem hafa verið skömminni skárri en þær fyrri og lagfært ýmis mál sem hafa verið enn verri en þau þó eru núna og eru þau þó nógu slæm. Ég ætla ekki að telja upp langa runu af slíkum málum, enda er það óþarfi, yfir

hv. alþm. sem hafa staðið í því að ræða þessi mál í allan vetur og fengið fyrir það harða gagnrýni að hafa eytt tíma þingsins í langar umræður. En það er alla vega kristalstært í mínum huga að þær umræður hafa haft verulegan tilgang og þær hafa skilað því sem þær áttu að skila. Þær hafa skilað tíma til að fjalla um málin, þær hafa gefið þeim aðilum sem eiga hlut að máli tækifæri til að segja sínar skoðanir og þær hafa í sumum tilfellum haft þau áhrif að ríkisstjórnin hefur breytt um stefnu.
    En það er þörf á því að hún breyti allmiklu meira um stefnu en hún er búin að gera. Þó er kannski ástæða til að velta því svolítið fyrir sér hvaða breytingar hafa orðið á yfirbragði þessarar stjórnar frá því að hún tók við í vor. Það hlýtur að vera mjög til umhugsunar þeim sem létu leiða sig til þess að styðja þessa stjórn hvort hún er í dag það sem þeir töldu hana vera þegar þeir veittu henni stuðning í vor. Ég er hræddur um að ýmsir telji í dag að þeim hafi kannski verið seldur tannlaus klár þegar þeir fara að velta því fyrir sér hvað það var sem þeir voru fengnir til að trúa að mundi verða á afrekalista þessarar ríkisstjórnar til að byrja með.
    Ég held t.d. að aðalástæðurnar fyrir því að ýmsir alþýðuflokksmenn voru tilbúnir inn í þessa ríkisstjórn hafi verið sú að forustumönnum flokksins tókst að telja þeim trú um að aðalmálin í pólitíkinni á næstunni væru að hægt væri að hefja byggingu álvers, bara ef Alþfl. færi í stjórn með Sjálfstfl., og það væri hægt að semja um Evrópska efnahagssvæðið sem allt mundi bæta og vera farmiði inn í 21. öldina ef það væri farið í stjórn með Sjálfstfl. Nú eru þessi mál orðin dálítið úti í fjarskanum og ekki vitað enn hvernig endirinn verður. Það er alla vega ekki líklegt að það verði af þessu á næstunni, sem voru þó tvær af aðalástæðunum fyrir því að þessi ríkisstjórn var mynduð. Ég er hræddur um að ýmsir að forustumönnum Alþfl., sem voru leiddir til stuðnings við ríkisstjórnina á þessum forsendum, séu ekkert mjög hressir í dag með að í stað þess að vera á fullum skriði við að byggja álver og á fullum skriði við að ná samningum um mikil viðskipti við Evrópulöndin, sem áttu að gefa gull og græna skóga í atvinnulífinu og öllu fólki í landinu, sé það eina sem eftir er þriðja stóra ástæðan fyrir stofnun þessarar ríkisstjórnar og hún var fyrst og fremst Sjálfstfl., þ.e. einhvers konar krossferð á hendur fortíðarinnar og einhvers konar pólitísk hreingerning eftir geðþótta hæstv. forsrh. og hans nánustu samstarfsmanna.
    Það er það yfirbragð sem þessi ríkisstjórn hefur í dag. Hún hefur ekki það yfirbragð sem hún setti fram í sínum upphafsplöggum og mig langar til að vitna til, með leyfi forseta.
    Í innganginum stendur: ,,Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur sett sér það markmið að rjúfa langvarandi kyrrstöðu í íslenskum þjóðarbúskap.`` Ekki sér maður að neitt bendi til þess að sú kyrrstaða verði rofin með þeim aðgerðum sem þessi ríkisstjórn hefur gripið til.
    ,,Efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar hefur á undanförnum árum einkennst af stöðnun og samdrætti og hefur ekki verið svo lengi í lægð frá því á fjórða áratug þessarar aldar. Hefja þarf nýja framfarasókn í íslensku samfélagi svo að hagur landsmanna geti farið á ný batnandi.`` Þessi nýja framfarasókn er alla vega ekki hafin. Ég held að við höfum ekki orðið varir við það.
    Ekki skal ég nú lesa lengi, með leyfi forseta, úr þessu fræga plaggi sem heitir Velferð á varanlegum grunni, en þar heitir næsti kaflinn Framtíðarsýn, og ég vil grípa örlítið niður í hann: ,,Ríkisstjórnin vill tryggja stöðugleika í efnahagslífinu og stuðla þannig að því að sættir takist um sanngjörn kjör.`` Hvernig hefur þetta gengið fram? Hvernig eru þessar sættir um sanngjörn kjör sem áttu að sjá dagsins ljós? Það gengur ekki mikið að semja við forustumenn launþegasamtakanna um þessi sanngjörnu kjör. Og það virðist allt vera í uppnámi og fátt af því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera hefur orðið til þess að gefa jákvæðara andrúmsloft í þeim samningaviðræðum sem eru í gangi og munu verða á næstunni.
    ,,Hún [þ.e. ríkisstjórnin] mun í þessu skyni beita sér fyrir aðgerðum í skatta- og félagsmálum sem koma hinum tekjulægstu til góða.`` Hvar eru þessar ráðstafanir í skatta- og félagsmálum sem eiga að koma hinum tekjulægstu til góða og hefðu auðvitað auðveldað

samninga ef þær hefðu verið fyrir hendi í dag?
    ,,Ríkisstjórnin mun freista þess að örva efnahagslegar framfarir, án verðbólgu og án þess að gengið verði of nærri náttúruauðlindum lands og sjávar. Þannig fæst örugg undirstaða undir góð lífskjör þjóðarinnar í nútíð og framtíð.``
    En svo kemur í viðbót og það er kannski aðalástæðan fyrir því að ég fór að lesa upp úr þessu plaggi að hér stendur: ,,En lífskjör eru annað og meira en efnahagsgæði. Þau taka einnig og ekki síður til félagslegra og menningarlegra þátta og þeirra ómetanlegu lífsgæða sem hreint og heilnæmt umhverfi veitir. Ríkisstjórnin vill að hlúð sé að fjölskyldunni.`` Og hvernig hlúir þessi ríkisstjórn að fjölskyldunni? Er það með því að skerða barnabætur?
    ,,Tryggð verði afkoma aldraðra, öryrkja`` --- hvernig er hún tryggð? Er það með því að skerða ellilífeyri? --- ,,og annarra sem þurfa á stuðningi og samhjálp að halda og að öllum skulu tryggð jöfn tækifæri til að þroska hæfileika sína.`` Hvernig er farið að því? Er það með því að koma á skerðingu á skólunum? Er það með þessum flata niðurskurði í skólakerfinu sem er í gangi? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að koma áfram þessum hugðarefnum sínum? Hún er ekki að því í dag, það er a.m.k. alveg ljóst.
    Ég ætla að láta vera að lesa meira úr þessu plaggi nema kannski til viðbótar vísu sem mér áskotnaðist og er tileinkuð plagginu og ort fyrir munn þeirra sem hafa verið kallaðir óskabörn þessarar ríkisstjórnar, en það eru fjármagnseigendur:
        Hér lofa stjórnvöld allir einum munni,
        enda er flaumur gróðans jafn og stríður,
        og velferðin á varanlegum grunni
        vex með hverjum deginum sem líður.
    Ég held að þessi vísa segi svolítið um hverjir það eru sem hafa sloppið og hafa það bara gott undir þessari ríkisstjórn og hafa enda ekki orðið fyrir neinum skerðingum.
    Ég ætla ekki að þreyta þingmenn með mjög langri ræðu og ég mun ekki leggja mjög flóknar spurningar fyrir fjmrh. þannig að honum takist ekki að svara þeim. Það er ekki víst að hann svari neinu af því sem mér dytti í hug að spyrja hann og það væri kannski bættur skaðinn. En mig langar til að snúa máli mínu á þann veginn að við getum velt því aðeins fyrir okkur hvernig þessi ríkisstjórn hefur breyst frá þeirri kynningu sem fólkið í landinu fékk af henni við upphaf stjórnartíma hennar og til dagsins í dag. Þess vegna var ég áðan að nefna þessi þrjú aðalatriði sem í umræðunni virtust vera ástæðurnar og afsakanirnar fyrir því að það var farið í þennan leiðangur, þ.e. hið stóra álmál, hið evrópska efnahagssvæði sem átti að vera farmiðinn inn í 21. öldina. En kannski er þjóðin eins og sólarlandafararnir eru núna þarna suður á Kanaríeyjum, farmiðalaus, nema til hjálpar komi eitthvert pólitískt flugfélag til að flytja okkur heim.
    Og þá kem ég að krossferðinni á hendur fortíðinni sem forsrh. og hans nánustu samstarfsmenn hafa staðið fyrir. Svo langt gekk þetta lið að það var sett sérstök nefnd í það að skoða fortíðina, fortíðarvandanefnd, og hún er búin að skila niðurstöðum. Og það finnst mér undarlegt. --- Eftir ræðuhöldin um það hvernig menn hefðu velt sér í sukki árum saman, eytt og spreðað og sukkað með fjármuni landans lauk þessi hv. nefnd störfum um áramótin og hætti. Ég hef á því mínar skýringar og þær skýringar eru þær að hæstv. forsrh. hafi verið ráðlagt af mönnum, sem hann tekur mark á, að hætta þessu róti í fortíðinni vegna þess að það gæti ýmislegt komið upp sem yrði honum og hans flokki erfiðara en einhverjum öðrum sem hefði átt að koma á kné með þessu róti og hann hafi haft á því skynsemi að sjá að það mundi vera líkast til rétt að leggja af þessa fortíðarskoðun.
    Ég verð að segja það eins og er að mér finnst stjórnarandstöðuþingmenn, sem hafa talað í þeim umræðum sem hér hafa farið fram, hafa staðið sig mjög vel. Þeir hafa farið yfir öll þau atriði sem eru hér til umræðu, gert þeim mjög góð skil, mér fannst t.d. að hinar myndarlegu ræður, sem hv. þm. í fjh.- og viðskn. héldu hér, væru til fyrirmyndar. Þar voru öll mál reifuð alveg frá upphafi til enda og ég ætla ekki að endurtaka þær ræður til að hrella fjmrh. En ég þakka fyrir þær og tek undir þann anda sem var í þeirri umræðu allri og þess vegna mun ég eingöngu halda mig við fáein atriði sem mig langar til

að bæta við umræðuna.
    Það fyrsta eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við þau mál sem hún hefur lagt fyrir þingið og sérstaklega í sambandi við þau mál sem liggja fyrir í þessari umræðu. Það er satt að segja ekki nema eðlilegt að hún hafi verið gagnrýnd og stjórnarflokkarnir fyrir undirbúning mála. Og af því að ég geri ráð fyrir að hæstv. fjrmh. og hans flokksmenn taki nú meira mark á Morgunblaðinu en okkur stjórnarandstæðingum langar mig til að vitna í Morgunblaðið núna um helgina. Í Morgunblaðinu, það er í sunnudagsblaðinu, í Reykjavíkurbréfinu á sunnudaginn, er einn kaflinn sem heitir ,,Að tala við þjóðina`` og mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp úr þessum kafla.
    Hann byrjar með spurningarmerki: ,,Hvað gerir ríkisstjórnin rangt?`` Og svo svarar Morgunblaðið: ,,Hún talar of lítið við þjóðina. Hún á til að gleyma því hvaðan umboð hennar er komið. Hún gerir of lítið af því að undirbúa jarðveginn fyrir umdeildar aðgerðir. Hún gerir of lítið af því að skýra fyrir þjóðinni gerðir sínar. Það er ekki nóg að gera þetta í fjölmiðlum. Það er svona upp og ofan hversu vel það kemst til skila. Sjónvarpsstöðvar klippa samtöl með þeim hætti að það er undir hælinn lagt hvort málflutningur manna kemst á framfæri með réttum hætti. Hið sama gera útvarpsstöðvarnar þótt á annan veg sé. Dagblöð eru vettvangur þar sem menn geta talað í lengra máli, en koma ekki í staðinn fyrir beint samband við fólkið í landinu. Þrátt fyrir nútímalega fjölmiðlun kemur ekkert í staðinn fyrir hið beina samband milli stjórnmálamanna og kjósenda.
    Þegar ríkisstjórnin undirbýr ákvarðanir um aðgerðir til þess að breyta þjóðfélaginu og snúa ofan af þeirri allsherjar ábyrgð skattgreiðenda, sem er að sliga þá, þarf hún að gera meira en að undirbúa aðgerðirnar sjálfar. Hún þarf líka að undirbúa mjög vandlega kynningu á þeim. Hún þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að útskýra fyrir fólkinu í landinu hvers vegna þetta og hitt er gert.
    Það eru öll rök fyrir því að tekjutengja elli- og örorkulífeyri eins og að er stefnt þannig að skattgreiðendur borgi ekki í vasa þeirra sem þurfa ekki á því að halda. Það gildir einu hvort um sjómenn eða aðra að ræða.`` --- Þetta eru skoðanir Morgunblaðsins sem ég er hér að lesa. --- ,,Ef gamlir sjómenn hafa svo mikil eftirlaun með einum eða öðrum hætti að þeir komast yfir ákveðið tekjustig er engin ástæða til þess að skattgreiðendur borgi þeim fremur en öðrum, sem eru í svipaðri aðstöðu, sérstakan ellilífeyri. En það þarf að tala um þetta við elli- og örorkulífeyrisþega``, segir Morgunblaðið.
    ,,Það eru öll rök fyrir því að ungt fólk sem er að hefja háskólanám borgi einhver skólagjöld og tryggi sér þar með betri kennslu. Það er ekkert vandamál að fella niður þessi skólagjöld hjá þeim nemendum sem sannanlega hafa ekki efni á því að borga þau. En um þetta þarf að tala við þetta unga fólk og útskýra fyrir því hvers vegna. Engin kynslóð í landinu á meira undir því en einmitt æskufólkið að horfið verði frá núverandi braut mikillar skuldasöfnunar þjóðfélagsins.
    Það eru öll rök fyrir því að koma einhverjum böndum á útgjöld heilbrigðiskerfisins, hvort sem er vegna reksturs sjúkrahúsa, lyfjasölu eða af öðrum ástæðum, en það þarf að tala við fólkið sem starfar að þessum málum og útskýra fyrir því og sjúklingunum líka. Menn ná engum árangri, hvorki á þessu sviði né öðrum, með því að ryðjast um eins og naut í flagi.
    Það eru öll rök fyrir því að stöðva fjárstreymið úr opinberum lánasjóðum í vonlausan atvinnurekstur á landsbyggðinni, sem landsbyggðarfólk hefur fyrst og fremst armæðu af,`` stendur hér í Morgunblaðinu. ,,En það þarf að útskýra fyrir þessu fólki hvað þarna hefur verið að gerast áratugum saman. Skattgreiðendur á landsbyggðinni hafa engan áhuga á því fremur en skattgreiðendur í þéttbýli að sóa eigi fjármunum í tóma vitleysu.
    Þannig er hægt að taka hvert dæmið á fætur öðru um það að ríkisstjórnin er á réttri leið, en hún og stuðningsmenn hennar þurfa að leggja margfalt meiri vinnu í að útskýra fyrir þjóðinni hvað fyrir þeim vakir. Ef það er ekki gert getur orðið ,,pólitískt stórslys````, segir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina.
    Ég las þetta allt saman upp vegna þess að þarna tekur Morgunblaðið undir það sem

stjórnarandstæðingar hafa verið að segja hér í allan vetur, að þær aðgerðir sem stjórnin hefur verið með á prjónunum og hafa verið hér í umræðunni hafa verið illa undirbúnar og það hefur ekki einu sinni verið tími --- hvað sem menn hefðu nú verið mikið af vilja gerðir til þess að undirbúa þessi mál --- til að undirbúa þau með þeim hætti að forsvaranlegt væri. Því að breytingarnar á ýmsum sviðum sem hafa verið hér til umræðu eru þannig að það er ekki hægt að hrófla við hlutum nema með langri umræðu og skoðanaskiptum og þar sem allir aðilar sem hlut eiga að máli fá tækifæri til að segja sínar skoðanir og þar sem tíminn er nægilegur til þess að það sé hægt að yfirfara ýmsar aðferðir og nýjar hugmyndir. En auðvitað er hægt að taka undir að það á að skoða öll mál. Það er út af fyrir sig ekki hægt að dæma ríkisstjórnina fyrir að hafa komið fram með hugmyndir. En þessar hugmyndir hafa ekki fengið þá umfjöllun sem þær hefðu þurft að fá.
    Ég hef svo ýmislegt við þær skoðanir sem Morgunblaðið setur fram í þessum greinarstúf að athuga, en ætla ekki að eyða í það of löngum tíma. En ég vildi lesa þennan part í heilu lagi svo að ég væri ekki að slíta úr samhengi það sem þarna var sagt.
    En það þarf svo sem ekkert vitnanna við og maður þarf auðvitað ekkert að vera að vitna í Morgunblaðið til þess að geta bent á fjölmörg atriði sem styðja það að hér hafi ekki verið staðið nægilega heilbrigt að málum í sambandi við þær tillögur og hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur verið með á prjónunum í vetur. En þó get ég ekki að mér gert vegna eins af þeim stóru málum sem hafa verið í umræðunni og það eru samskiptin við sveitarfélögin. Um þessa helgi er líka í Morgunblaðinu grein sem er skrifuð af frammámanni í Sjálfstfl., borgarfulltrúa í Reykjavík, þar sem hann sendir virkilega ríkisstjórninni tóninn fyrir það hvernig hún stendur að málum. Stjórnarandstæðingar hafa núna í allan vetur --- eða frá því að þessar hugmyndir komu fram --- gagnrýnt harkalega hvernig hefur verið ráðist að sveitarfélögunum. Stjórnin hefur auðvitað breytt sínum hugmyndum og hopað með þær. Ég ætla nú, með leyfi forseta, að gefa Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni orðið litla stund úr þessum ræðustól vegna þess að það kann að vera að hæstv. fjmrh. og fylgjendur ríkisstjórnarinnar í Sjálfstfl. taki örlítið meira mark á því sem sá maður segir en hv. stjórnarandstæðingar sem hér hafa talað í vetur.
    Ég ætla ekki að fara yfir alla grein Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, en hann lýsir því, sem hefur verið lýst af stjórnarandstæðingum í vetur, að sveitarfélögin eru ekki í stakk búin til að taka á sig þær álögur sem ríkisstjórnin er að setja á þær með sínum ákvörðunum. Þar eru lagðar á borðið tölur sem sanna að sveitarfélögin hafa ekki grætt þessi ósköp á breytingunum sem urðu fyrir fáum árum á verkefnaskiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga.
    Ég ætla ekki að lesa það yfir, en mig langar til að grípa niður í lok þessarar greinar. Þar er fyrirsögnin ,,Nýjar álögur á sveitarfélögin 1992``:
    ,,Ríkisstjórnin virðist hafa trúað ósannindum og rangfærslum um fjármál sveitarfélaganna í Fréttabréfi VSÍ og ætlar nú að sækja gull í sjóði sveitarfélaganna í landinu. Á einni helgi ákvað ríkisstjórnin án nokkurs samráðs við sveitarfélögin að færa verkefni yfir til sveitarfélaganna og auka álögur á þau. Hér var um að ræða kostnað upp á 410 millj. kr. vegna málefna fatlaðra, 0,1% af útsvarsstofni sem næmi 230 millj. kr. sem yrði dregið af innheimtu staðgreiðslufé sveitarfélaganna og að fella landsútsvar ÁTVR til sveitarfélaganna niður sem áætlað var um 759 millj. kr. Þannig tæki ríkið til sín um 700 millj. kr. Þessum hugmyndum var síðan vikið til hliðar, meðal annars vegna háværra mótmæla sveitarstjórnarmannanna. Í staðinn ákvað ríkisstjórnin að sveitarfélögin greiddu 700 millj. kr. sem ætti að vera þátttökukostnaður þeirra í löggæslukostnaði. Síðan hefur lögregluskatturinn verið lækkaður í 600 millj., en gert var ráð fyrir 100 millj. kr. aukaframalagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til jöfnunarframlaga.
    Áður fram komnar tillögur í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum leiddu til um 240 millj. kr. útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin. Þar er um að ræða ábyrgðasjóð launa, aukin þátttaka sveitarfélaganna í byggingu félagslegra íbúða, hækkun þjónustugjalda Fateignamats ríkisins, niðurfelling á mótframlagi ríkisins til skipulagsmála og lækkun ríkisframlags til refa- og minkaveiða.

    Þannig á að sækja nálega 750 millj. kr. til sveitarfélaganna í formi aukinna álaga til þess að ná því markmiði að lækka fjárlagahalla ríkissjóðs.``
    Og svo segir í niðurlaginu: ,,Í einstaka leiðurum dagblaða er m.a. sagt að sveitarfélögin geti ekki verið stikkfrí í baráttunni við efnahagsvandann og ríkisstjórnin hvött til að láta ekki þrýstihópa trufla sig. Sveitarfélögin eru ekki stikkfrí, eins og sýnt hefur verið fram á, og þau eru heldur ekki þrýstihópur. Sveitarfélögin gera þær kröfur til ríkisins að það standi við gerða samninga um lýðræðisleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Að öðrum kosti er hætta á að trúnaðarbrestur verði milli þessara tveggja stjórnvalda í landinu og nauðsynlegu samstarfi þeirra, sem getur varðað þjóðarhaf miklu, teflt í tvísýnu.``
    Öll eru þessi orð nákvæmlega þau sömu og stjórnarandstæðingar hafa verið að viðhafa í vetur um þessi mál. Þess vegna er þessi ræða auðvitað endurtekin. En mig langaði til að þessi orð kæmu hér fram vegna þess að þar talar einn af frammámönnum Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur og það er kannski maður sem sjálfstæðismenn taka meira mark á en stjórnarandstæðingum um þessar mundir.
    Ég segi nú bara eins og er, og vík þá aftur að því sem ég ræddi áðan, þ.e. vonbrigði Morgunblaðsins og áhyggjur af því að ríkisstjórnin kunni ekki til verka, að Morgunblaðið setur í sama greinabálki fram sínar skoðanir og þar segir Morgunblaðið alveg skýrt og skorinort: Við erum sammála ríkisstjórninni um það sem hún er að gera. En við viljum að hún fari öðruvísi að því. Mig langar til að grípa niður í einn stuttan kafla í viðbót og þar segir:
    ,,Sannleikurinn er auðvitað sá að það er nauðsynlegt að breyta þjóðfélaginu. Það er bæði tímabært og óhjákvæmilegt. Við höfum á nokkrum áratugum byggt upp samfélag sem hefur gengið of langt í því að taka fulla ábyrgð á öllu sem gert er. Það er ekki einungis svo að samfélagið hafi tekið nánast fulla ábyrgð á heilbrigðisþjónustu, hverju nafni sem nefnist, afkomu aldraðra, bæði ríkra og fátækra, skólagöngu æskufólks og öðrum þeim þáttum velferðarkerfisins sem mjög víðtæk samstaða hefur verið um heldur hefur ábyrgðin verið færð út til annarra þátta.``
    Þarna er Morgunblaðið auðvitað að veita ríkisstjórninni móralskan stuðning við það sem hún er að gera, þ.e. velferðarkerfið var orðið allt of gott og það skal skorið niður. Það stingur í stúf við það sem ýmsir hv. stuðningsmenn Alþfl. við þessa ríkisstjórn hafa sagt. Þeir hafa talað um að þeir væru nánast að bjarga velferðarkerfinu með sínum aðgerðum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar og hafa talið --- eftir því sem maður hefur getað best heyrt --- að það væri best fyrir velferðarkerfið að skera það niður. Það yrði betra á eftir. Ég á satt að segja mjög erfitt með að skilja þá röksemdafærslu, en þeir hjá Morgunblaðinu skilja þetta öðruvísi. Þeir telja að það megi eitthvað af þessu missa sig.
    Eitt af því sem hefur verið talið að mætti missa sig er svokallaður sjómannaafsláttur og það hefur komið af stað miklum umræðum í þjóðfélaginu hvernig menn hafa ákveðið að draga úr honum. Það er reyndar sérkennilegt að hafa séð það í afgreiðslu þingsins hvernig Sjálfstfl. beygði sína forustumenn í verkalýðshreyfingu sjómanna og fékk þá til að rétta upp höndina með þessum skerðingum á sjómannaafslættinum. Það verð ég að segja að ég undraðist að Sjálfstfl. skyldi ganga svo langt að láta þessa forustumenn sína greiða atkvæði með skerðingunni þegar það gerðist á sama tíma við sömu atkvæðagreiðslu að alþýðuflokksmenn voru stikkfrí í öðrum málum. Vorum látnir komast upp með að greiða atkvæði gegn og sitja hjá í öðrum málum. En í framtíðinni þurfa verkalýðsforingjar Sjálfstfl. að burðast með að hafa greitt atkvæði með þessum skerðingum á réttindum sinna umbjóðenda.
    En ekki nóg með það heldur er lífeyrisréttur sjómanna skertur sem settur var á með sérstökum hætti fyrir nokkuð mörgum árum. Það er út af fyrir sig alveg sérstakt umræðuefni að það skuli hafa verið lagt í að gera þennan lífeyri upptækan, einfaldlega vegna þess að hann er ekki sams konar lífeyrir og annar ellilífeyrir. Það datt engum manni í hug, þegar þessi ellilífeyrir var settur á, að sjómenn mundu hætta að vinna sextugir, það var alla vega ekki röksemdin fyrir því. Röksemdirnar fyrir því að þessum lífeyri væri komið á voru fyrst og fremst lélegur ellilífeyrisréttur sjómanna og sú stóra röksemd að sjómenn sem væru

komnir um sextugt væru margir hverjir að hætta sjómennsku og yrðu að reyna fyrir sér í nýjum störfum sem gæfu, ef þeir þá fengju vinnu, mun lægri tekjur. Þetta átti að vera eins konar viðurkenning fyrir þeirra störf og hjálp til að skipta um atvinnu. Þetta er því alls ekki sams konar ellilífeyrir og verið er að tala um í öðrum tilvikum. Ég verð að segja að mér finnst það kjarkmiklir menn sem nota sömu röksemdafærslu fyrir því að skerða þennan lífeyri og annan ellilífeyri. Ég get ekki sætt mig við að það sé hægt að taka það gilt. Það kann vel að vera að margir af þessum mönnum hafi góðar tekjur og geti vel borið þessa skerðingu. En það eru líka til margir sjómenn sem eru að fara í land, og það þekkir maður dæmin um, sem þurfa að sætta sig við að fara í mjög tekjulág störf. Auk þess er sú aðferð sem notuð er í þessu tilfelli algjörlega forkastanleg. Ég tel að ef menn hefðu á annað borð ætlað í þá ósvinnu að skerða þessi réttindi hefði þeim þó verið sæmast að snúa sér að þeim lögum sem fjalla um þennan lífeyri og breyta þeim en ekki að taka þetta af með þessum hætti, með almennum ráðstöfunum nánast, sem hér er gert. Ég ætla út af fyrir sig ekki að eyða lengri tíma í þetta, en það verð ég að segja að mér finnst geðleysi þeirra manna, sem eru á þingi og hafa verið sérstakir talsmenn sjómanna í þessu landi, mikið ef þeir koma til með að rétta upp höndina með þessu líka. Satt að segja er það mín von að ríkisstjórnin breyti þessu líka því hún hefur ýmsu breytt frá því sem ráðin hafa staðið til í vetur. Ég held að það væri sæmast að menn endurskoðuðu þetta og reyndu að finn leið til að fella niður þessar hugmyndir.
    Eitt er það sem mig langar að ræða hér sérstaklega vegna þess að hæstv. forsrh. kom inn á það í sinni framsöguræðu á sínum tíma fyrir þessu lagafrv., en það er einkavæðingin. Ég ræði það hér vegna þess að það kom auðvitað í ljós við afgreiðslu fjárlaganna að þar voru samþykktar heimildir fyrir ýmsu sem tengist þeirri einkavæðingu sem ríkisstjórnin ætlar sér í. Eitt er það sem ríkisstjórnin hæstv. hugsar sér að gera og það er að einkavæða og selja hlutafé sitt í Bifreiðaskoðun Íslands. Mig langar að gera það að umræðuefni.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast það og ég ætla satt að segja að vona að hæstv. fjmrh. geymi sér það mál að selja hlutabréf í Bifreiðaskoðun Íslands, hann bjóði ekki bifreiðaeigendum í landinu upp á það að þetta verði látið ganga fram með þeim hætti sem að virðist vera stefnt. Mig langar að rifja upp fyrir honum hver aðdragandinn að þessu máli var.
    Eins og allir vita er það hlutafélag sem stendur að Bifreiðaskoðun Íslands. Á sínum tíma var þetta fyrirtæki ríkisstofnun og menn ákváðu að breyta því í hlutafélag og taka aðra aðila í samstarf um að veita þá þjónustu að skoða bíla á Íslandi. Og hvernig hefur svo verið staðið að því? Þetta hlutafélag var stofnað og voru reistar nýjar skoðunarstöðvar, ráðnir menn, farið í að koma upp bæði húsnæði og sérstökum færanlegum skoðunarstöðvum. Allt þetta kostaði töluverða peninga og öll gjöld fyrir þjónustuna voru auðvitað snarhækkuð. Þegar svo bifreiðaeigendur gerðu sér grein fyrir því að þrátt fyrir að kostnaðurinn væri mikill var gróðinn óheyrilega mikill af því að reka þessar skoðunarstöðvar fóru menn að malda í móinn. Og hver voru svörin? Svörin voru þau að það væri rétt að borga þetta niður, bara á fáum árum til að byrja með, þá fengju menn réttláta og góða gjaldskrá á eftir og menn mundu njóta þess í lægri gjöldum síðar meir að greiða niður stofnkostnaðinn. En hvað ætlar ríkið svo að gera sem er einn af aðaleigendum í þessu fyrirtæki? Ríkið ætlar að bjóða til sölu hlutabréfin sín í Bifreiðaskoðun Íslands. Og hvað þýðir það? Það þýðir að sá maður sem kaupir hlutabréf í Bifreiðaskoðun Íslands gerir það í þeirri trú að hann fái af þann arð sem er nokkurn veginn í gangi í þjóðfélaginu á þeim tíma sem hann kaupir þessi bréf og við það hlýtur hann að ætlast til að gjaldskráin verði miðuð. Og hvað mun þá gerast? Það mun gerast að allir sem eiga hlutabréf í Bifreiðaskoðun Íslands munu fá fullan arð af eigin fé fyrirtækisins sem hefur verið myndað með okurgjaldskrá á bifreiðaeigendur á fyrstu tveim, þrem árunum sem þetta er rekið. Það er búið að búa til eigið fé sem á að skila fullum arði.
    Mér finnst eitthvað bogið við einkavæðingarhugmyndir ríkisstjórnarinnar ef þær verða með þessum hætti og ekki verður t.d. reynt að nota áhrif eignar ríkisins í Bifreiðaskoðun Íslands til að sjá til þess að bifreiðaeigendur fái eðlilega gjaldskrá sem miðast við að menn hafi verið látnir borga há gjöld á undanförnum árum, en þessi gjöld verði ekki látin mynda gróða handa þeim sem eiga þetta fyrirtæki í dag. Mér finnst að ríkisstjórnin hljóti að verða að horfa á málið frá þessum sjónarhóli og hún eigi þess vegna að leggja á hilluna hugmyndir um að selja hlutabréf í þessu fyrirtæki og það strax.
    Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara í gegnum mörg af þeim málum sem hafa verið hérna til umræðu. Mér finnst að þeim hafi verið gerð góð skil og þessi umræða er orðin löng. Mér finnst að þessi ríkisstjórn sé búin að sýna sitt andlit. Hún hefur breyst. Menn eru að horfa framan í allt öðruvísi stjórnvald en var kynnt fyrir fólki í vor og sumar. Við erum að horfa framan í ríkisstjórn sem er í einhvers konar krossferð. Hún er að skera niður allt sem hún telur mögulegt að skera niður í þjóðfélaginu. Hún er að draga saman velferðarkerfið. Hún ræðst að öllum þáttum þess með samdrætti. Ég er mjög andvígur ýmsu af því sem hún er að boða okkur. Ég hef alveg sérstakar áhyggjur af því að menn skuli á þessum tímum láta þann samdrátt koma fram, sem fyrirhugaður er, í skólakerfinu. Ég tel að vísu að það sé margt sem eigi að skoða og bæta í rekstri hins opinbera, en mér finnst samdrátturinn í skólakerfinu og í tryggingakerfinu vera varhugaverður og allir slíkir hlutir eigi að taka miklu lengri tíma í skoðun en menn hafa gefið sér núna. Ég ætla að vona að ríkisstjórnin hafi lært eitthvað af þessu í vetur, ef hún skyldi eiga langa lífdaga í vændum, en ég leyni ekki þeirri von minni að það verði ekki mjög langir lífdagar.