Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 12:55:00 (2872)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það eru tvö örstutt atriði sem ég ætla að koma á framfæri við hæstv. fjmrh. Ég ætla að spyrja fjmrh.: Ef hann trúir lokaorðum ræðu sinnar um að ríkisstjórnin sé búin að skapa aðstæður til lækkaðra vaxta, af hverju gengur þá ekki ríkisstjórnin á undan og lækkar vexti á ríkisbréfum sem eru í gangi? Það er sama við hvaða aðila við í efh.- og viðskn. höfum rætt varðandi vaxtamál, það ber allt að sama brunni að það sé ríkisstjórnin sem hafi lykilinn að þessu. Þess vegna skora ég á hæstv. fjmrh. að sýna að hann trúi í raun því sem hann sagði hér um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og áhrif þeirra á fjármagnsmarkaðinn og gangi á undan með vaxtalækkun.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, var það sem hann ræddi um sjómenn og kjör þeirra í okkar þjóðfélagi. Ég ætla ekkert að draga úr því að það finnist sjómenn sem hafi góð kjör og ekki sé ég neinum ofsjónum yfir því. En ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann hafi gert sér grein fyrir því, þegar lagðar voru til breytingarnar á tekjutryggingu á ellilífeyri, að það mundi koma við þá sjómenn sem eru að hætta störfum, sjómenn á aldrinum 60--67 ára, á þann hátt sem frv. gerir, ef það verður að lögum, og er að mínu mati margfalt óréttlátari aðgerð en lækkun sjómannaafsláttarins því að þarna er verið að taka af að hluta áunnin réttindi í samningum þar sem Alþingi var algjörlega samstiga um að viðurkenna að sjómenn, sem væru búnir að ná þessum aldri, hefðu nokkra sérstöðu fram yfir aðrar stéttir.