Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 13:11:00 (2880)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég vil til að byrja með segja hæstv. fjmrh. að það hefði ekki hvaða ríkisstjórn sem er ráðist að ýmsum málum í ráðstöfunum í ríkisfjármálum eins og þessi ríkisstjórn hefur gert. Ég get tekið sem dæmi menntakerfið sem ég hef gert að umræðuefni við þessa umræðu. Það er alveg ótrúlegt hvað hæstv. ríkisstjórn lætur sér detta í hug að gera. Það eru ýmsar ráðstafanir sem hún telur sig geta gripið til.
    Hvað snertir það sem síðast kom fram og vitnað hefur verið til í dag, þ.e. minnisblað frá fjmrn., kemur í ljós að það líða ekki margir klukkutímar frá því að það er gert opinbert og kemur fram í fjölmiðlum að það stenst auðvitað engan veginn.
    Mig langar til, virðulegur forseti, að lesa eina setningu upp úr þessu blaði en þar segir: ,,Með samþykki hlutaðeigandi ráðuneytis verði eftirfarandi mögulegt í kjölfar launagreiðslustöðvunar``. Þannig kemur greinilega fram á þessu blaði að það hafi verið meiningin að stöðva launagreiðslur, enda kom fram hjá aðstoðarmanni ráðherra að þetta var meiningin. Nú hefur ráðherra sem betur fer, og eins og hann segir sjálfur, það er það sem skiptir máli, sagt að þetta standist engan veginn og auðvitað verði ríkisstjórnin að fara að lögum eins og aðrir. En ég bendi hæstv. ráðherra á að hann þurfi þá bæði að gera þeim grein fyrir sem fara með þetta plagg til ríkisstofnana sem og sínum aðstoðarmanni að það stenst engan veginn lög sem hérna er verið að leggja til.
    Það er verið að ræða um að þeir sem meira hafa fái skertar bætur, en þeir sem minna mega sín eigi að halda sínu. Þær viðmiðanir sem þarna eru teknar eru alveg út í hött. Við getum tekið sem dæmi örorkubæturnar. Það á að skerða bætur til þeirra sem eru með 66 þús. kr. á mánuði. Ég veit ekki hvort það hefur hingað til verið talið hálaunafólk. Alla vega get ég ekki skilið að fólk geti lifað vel af 66 þús. kr. á mánuði.