Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 13:14:00 (2881)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi held ég að ég hafi sagt alveg skýrt áðan sjónarmið mitt og reyndar fer það saman við íslensk lög og þá samninga sem gerðir hafa verið varðandi launagreiðslur. Ég taldi að skilja ætti þessa setningu þannig að það væri um að ræða greiðslur til viðkomandi stofnunar en ekki greiðslur stofnunar til starfsmanna fyrir unna og umbeðna vinnu. En ég sé að það getur valdið misskilningi og hef nú þegar rætt það við minn aðstoðarmann og aðra þá sem fara með þessi mál.
    Út af bótunum sem hv. þm. ræddi um áðan og reyndar fleiri hafa gert fyrr, þá hef ég sagt nú þegar það sem ég þarf að segja um þetta mál, en ég vek athygli á að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði áðan, sjálfsagt réttilega, að 1.500 kr. væru 3% af launum láglaunakvenna, ég man ekki hvernig hún orðaði það nákvæmlega, sem segir mér að

það séu laun í kringum 50 þús. kr. Þá spyr ég: Sé þetta rétt --- og ég ætla ekki að efast um að því miður hafa sumir slík lág laun, þeir sem ekki eru á neinum bótum --- finnst fólki þá óeðlilegt að bætur frá ríkinu skerðist til þeirra sem hafa --- ja, hvað er það? --- 30% hærri laun en þessi lægstu laun, og síðan skerðist það smám saman upp í 115--116 þúsund? Þetta er spurning sem hver verður að svara fyrir sig.