Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 13:16:00 (2882)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér þykir mjög merkilegt þegar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar til jöfnunar í þjóðfélaginu miðast við þá sem hafa nánast ekki neitt, hafa ekki til hnífs og skeiðar og er alveg augljóst að geta varla lifað, og síðan eigi að skerða þá sem eru örlítið hærri. Ég bendi hæstv. ráðherra á að meðallaun í landinu eru miklu hærri en það sem þarna er verið að ræða um. Þegar við erum að tala um að 3% af launum fari í eina sérfræðingsheimsókn erum við ekki þar með að segja að það sé eðlilegt. Það er mjög langt frá því að vera eðlilegt og það er líka langt frá því að það sé hægt að lifa af 66 þús. kr. á mánuði. Jöfnuður í þjóðfélaginu á ekki að vera með þeim hætti að þeir sem eru með undir meðallaunum eigi að fara niður í laun sem eru það lægsta sem gerist í þjóðfélaginu og niður fyrir ,,sultargrensuna``.