Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 14:19:00 (2886)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Fyrst það að við erum áreiðanlega sammála um að það sé þörf ítarlegri umræðu um skólamál og ég vona að við fáum tækifæri til að ræða um skólamál og ekki bara þá að ræða peningamálin sem varða skólana. Við erum áreiðanlega sammála um þetta.
    Ég sagði að það væri ekki víst að þessi niðurskurður kæmi allur fram í ár og því spyr hv. þm. hvort þetta verði tekið einhvers staðar annars staðar í grunnskólakerfinu. Svar mitt við því er nei. Ég held að það sé ekki um það að ræða að hægt yrði að taka þann niðurskurð annars staðar í grunnskólakerfinu en á þeim þáttum sem ég hef þegar talað um. Það sem ég átti við, og ég hélt að það hefði komið sæmilega skýrt fram, er að menntmrn. er ætlað að ná ákveðnum sparnaði. Og ég er að gera mér vonir um --- en ég hef enga

vissu um það vegna þess að ekki er búið að fara ofan í saumana á þessu að fullu og öllu --- að sá niðurskurður sem ráðuneytinu er ætlaður megi nást þótt niðurskurðurinn í grunnskólakerfinu komi fram á skólaárinu. Ég sé ekki að það sé nein þversögn í því þótt ég segi þetta. Það er engin þversögn í því. Ég held að þvert á móti væri mjög örðugt að koma við svona aðgerðum í grunnskólakerfinu ef þær ættu eingöngu að eiga við haustmissirið t.d. Ég held að það sé mjög erfitt að skipuleggja skólaárið þannig að stór niðurskurður komi fram eingöngu á haustmissirinu en ekki á síðari hluta skólaársins þannig að í þessu felst engin sérstök þversögn.
    Það er líka ljóst að ríkisstjórnin setti sér tveggja ára markmið að ná tökum á ríkisfjármálunum. Og það má vel vera að einhver tilfærsla verði á einu eða öðru sviði milli áranna 1992 og 1993.