Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 14:24:00 (2889)

     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Það eru ótrúlega margir óvissuþættir í sambandi við skólamálin og niðurskurð í þeim málaflokki. Nú hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að það séu ekki 180 millj. plús 40 plús 40 sem eigi að spara heldur 180 millj. plús 40. ( Menntmrh.: Nei, nei, 180 millj.) Jæja, það skánar þá heldur. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið reiknað út nákvæmlega, nú hlýtur það að vera reikningsdæmi sem hægt er að setja upp, hvað það er mikið sem sparast við að fella niður tvær kennslustundir í bekkjum frá 4. og upp í 10. bekk ef hann hefur þá tölu.
    Hæstv. ráðherra talar gjarnan um þessar sparistundir sem eigi að fórna og séu kannski ekki svo óskaplega mikilvægar. En eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni eru þessar stundir líka mikilvægar og þeim hefur einmitt verið ráðstafað fyrir höfuðkennslugreinarnar sem við köllum, íslensku og stærðfræði, o.fl. Hverju sem hæstv. ráðherra leyfir sér að halda fram, þá er það mjög alvarlegur niðurskurður.
    Það var sérstaklega þetta sem mig langaði til að heyra hjá hæstv. ráðherra: Hvað getur hann sparað mikið með því að skera tvær kennslustundir af 4.--10. bekk?