Skýrsla samgönguráðherra um málefni Skipaútgerðar ríkisins

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 15:20:00 (2894)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur gefið þinginu. Eins og skilið var við málið síðast þegar það var tekið til umræðu var það ófullnægjandi og þess vegna var skynsamlegt hjá ráðherranum að verða við kröfu minni um að gefa munnlega skýrslu. Auk þess hafði hann út af fyrir sig nógan tíma í þessari umræðu til að segja satt svo ekki þurfi þar um að deila eða kenna um tímaskorti.
    Málið hefur þróast síðan það var síðast til umræðu, en þó eru hér nokkur atriði sem mér finnast ekki vera nægilega skýr eftir ræðu ráðherrans. Hvernig ætlar ráðherrann að tryggja sambærilegar samgöngur á sambærilegu verði við það sem Skipaútgerðin bauð upp á? Það er að vísu komið fram að ef samningar takast við Samskip verða þrjú skip í strandsiglingum. Það kom ekki fram í ræðu ráðherrans hverjir yrðu viðkomustaðir þessara skipa eða hvaða gjald yrði sett upp fyrir þá þjónustu sem þau veita. Þetta finnst mér vera feiknamikið atriði og meðan það liggur ekki ljóst fyrir og meðan það er ekki upplýst hljóta þeir

sem á minnstu stöðunum búa að vera í óvissu um sínar samgöngur. Ég tel að okkur beri skylda til að reyna að sjá til þess að samgöngur séu ekki látnar niður falla til þessara staða, en frá hendi ráðherrans liggur ekki fyrir um það hvernig það verði tryggt að samgöngum verði haldið uppi.
    Í öðru lagi kom ekki nægilega skýrt fram í ræðu ráðherrans hvað yrði um starfsfólk Skipaútgerðar ríkisins. Það hefur að vísu komið fram að einhverjar áhafnir koma til með að fylgja skipum sem keypt eru, a.m.k. áhöfn Esju heldur þar áfram, en því spyr ég að þessu að ég tel að ríkið eigi nokkrar skyldur við þetta fólk sem hefur rækt sitt starf af mikilli prýði og ríkir mikil ánægja með störf þess hjá þeim sem við það hafa þurft að skipta.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um framgöngu ráðherrans í þessu máli. Hún hefur verið með nokkuð hröslulegum hætti á sumum stigum þessa máls og væri efni í talsverðan fyrirlestur. Ég ætla að sleppa því í von um að ráðherrann hafi lært af málinu og lausn á málinu verði þrátt fyrir allt á endanum farsæl, þó að ég sjái það ekki fyrir, og tryggðar verði samgöngur við þá staði sem ég nefndi áðan og að starfsfólk Skipaútgerðarinnar verði ekki skilið eftir í einhverju reiðileysi.