Skýrsla samgönguráðherra um málefni Skipaútgerðar ríkisins

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 15:43:00 (2898)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu. Hún hefði gjarnan mátt vera fyrr, en ekki er við forseta að sakast um það. Við hefðum getað komið því á vafalaust aðrir.
    Þá er fyrst til að taka að þegar talað er um þjónustusamning var á því byggt frá upphafi, a.m.k. heyrði ég aldrei neitt annað frá því að ég byrjaði að taka þátt í því að aðstoða starfsmenn eins og allir vita hér inni væntanlega, þess vegna var upphaflegt tilboð eitthvað öðruvísi en síðan varð. En þjónustusamningur var afskrifaður af hálfu þeirra sem fóru með málefni ríkisfélagsins, þ.e. ráðherrans væntanlega og hans trúnaðarmanna. Ekki meira um það.
    Ég held að það sé óþarfi fyrir mig að ræða mjög lengi um þetta mál, enda er tíminn örstuttur, nokkrar mínútur. Ég vil þá aðeins geta þess að undirbúningsnefndin og Samskip hafa ræðst mikið við að undanförnu og er alveg óhætt að segja að hugarfarið hafi verið aldeilis ágætt á báða bóga og sé enn. Það er hægt að tala við þá menn og ætti því að vera auðið að koma málum þannig fyrir að allöruggt og öflugt skipafélag gæti verið hér við strandsiglingar og millilandasiglingar. Núverandi undirbúningsnefnd getur sjálfsagt fljótlega lokið störfum, en hún hefur verið kölluð saman næstu daga og þar verða málin skoðuð niður í kjölinn og ákvarðanir teknar um framhaldið.
    Frá mínum bæjardyrum séð er mergurinn málsins sá að ríkisvaldið getur með engum hætti skilið við þetta mál svo að einokun yrði á siglingum til og frá landinu og á ströndinni. Um þetta held ég að hv. alþm. séu meira og minna sammála. Einu skipi Skipaútgerðarinnar hefur nú verið ráðstafað sem kunnugt er og tveir ráðherrar hafa undirritað kaupleigusamning, hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. Skipið var selt Samskipum hf. á leigu og drög að þeirri ráðstöfun voru raunar lögð meðan undirbúningsnefndin vissi ekki annað en við hana eina væri verið að ræða. Þetta eru staðreyndir og er ágætt að allar þær dagsetningar og tímasetningar sem var gerð grein fyrir liggi fyrir þannig að menn þurfi ekki að rífast um aukaatriði og staðreyndir.
    Héðan í frá er ekkert við þessu að gera. Það er sjálfsagt að líta á málið eins og það er. Og síst langar mig til að munnhöggvast við þá ráðherrana, flokksbræður mína. Það þjónar nákvæmlega engum tilgangi og best að strika yfir það sem liðið er og snúa sér að því að byggja upp það skipafélag sem starfandi er með sameiginlegu átaki og auðvitað sem almenningshlutafélag. Hv. þm. hafa líka þegar fyrir nokkrum dögum fengið í hendur skjöl sem þetta mál varðar og kynnt sér þau rækilega vænti ég.
    Tími minn er nú reyndar búinn. Ég vil aðeins taka það fram að mín einlæg ósk er sú að máli þessu linni þannig að öflugt félag standi eftir og tryggi samgöngur og samkeppni. Frá mínu sjónarmiði væri ekkert á móti því að það héti Samskip, orðið er gott, bæði innanlands og utan. Í öllu falli yrðu til að koma samtök margra manna til að efla traust á fyrirtækinu og held ég að áhættusamt yrði að leggja út í þessa siglingu öðruvísi en með stofnun verulega öflugs almenningshlutafélags sem ég efast ekki um meginþorri hv. alþm. er sammála um. En síðast en ekki síst verð ég að fá leyfi til að geta þess að auðvitað er það fyrst og fremst hagur starfsfólksins sem verður að gæta næstu dagana.