Skýrsla samgönguráðherra um málefni Skipaútgerðar ríkisins

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 15:48:00 (2899)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur flutt um málefni Ríkisskipa. Ég tel að það hafi verið full þörf á að ræða þetta mál undir rýmra formi en hálftíma umræðu utan dagskrár. Ég held að nauðsynlegt sé að rifja upp nokkur meginatriði sem upp úr standa í þessum máli og þar sem það virðist kannski ekki vera öllum alveg ljóst.
    Meginatriðið er að ákvörðun hefur verið tekin um að hætta að ríkisstyrkja þessa flutninga. Töluverðu fé hefur verið varið til þeirra á undanförnum árum og það er alveg rétt að margir samgönguráðherrar hafa unnið að því að reyna að minnka það, en nú hefur ekki verið tekin ákvörðun um að minnka það heldur hætta þessum ríkisstyrkjum alveg. Síðan er ákveðið að leggja Ríkisskip niður og með ákvörðunum um að skipa því að selja skip og hætta Færeyjasiglingum er aðstaða þess veikt. Það er ámælisvert. En síðan þróast málin í viðræður við annað stóra skipafélagið hér. Ég ætla svo sem ekkert að efast um að þeir hafa vilja til að halda þessum siglingum áfram hjá Samskip, en samt er alveg ljóst og mér er kunnugt um það að við þá hefur ekki verið gerður þjónustusamningur og þeir reka þessar siglingar aðeins í frjálsri samkeppni á markaðnum. Það er alveg ljóst að svo verður.
    Ég viðurkenni að það er visst hagræði fólgið í þessari sameiningu. Samskip hefur aðstöðu til að taka þessa flutninga að sér og sameina afgreiðslur, tæki o.fl. En hitt er alveg óljóst, hvort þeir geta haldið þessum siglingum áfram á hverja einustu höfn án þess að hafa til þess tilstyrk. Það er alveg eins víst að það verði á því einhverjar breytingar ef Samskip telur sig ekki geta haldið þeim uppi án þess að tapa á þeim.
    Það er alveg ljóst að sú ákvörðun hefur verið tekin að hætta að ríkisstyrkja þessar samgöngur og þar með eru samgöngur ýmissa smærri staða í meiri óvissu en var áður. Það rétta hefði verið að mínum dómi að ákveða einhverja tiltekna upphæð sem ríkisstyrk í þessar siglingar og reyndar var það ofarlega á baugi í þeirri nefnd sem ég sat í á sínum tíma ásamt fleiri góðum mönnum, á tíma fyrrv. samgrh., að það var rætt mjög alvarlega hvort ekki væri leið að þarna væri ákveðin upphæð árlega, sem yrði þá allmiklu lægri en þær upphæðir sem var veitt til þessara mála, og reynt síðan að halda uppi siglingum á þeim forsendum.
    Þessu máli er ekki lokið. Það standa enn þá yfir viðræður við Samskip. Ef samningar takast, af því að málefni starfsfólks Ríkisskips hafa verið í umræðu, er ljóst að málefni starfsfólksins eru í óvissu, þeirra sem í landi vinna og þeirra sem vinna um borð. Ég hef enga trú á að Samskip muni ráða það fólk allt saman til vinnu. Þess vegna tek ég undir að auðvitað verður að líta á þann þátt málsins líka. Ef einhverjir hv. þm. hafa staðið í þeirri meiningu að þessi framgangur mundi verða þannig held ég að að sé alveg borin von. Þessi mál eru komin út í harða samkeppni með þessari leið. Því verða menn að gera sér grein fyrir, hv. þm. eins og aðrir, og eftir þetta verða strandsiglingar reknar, ef þessir samningar fara svona, í samkeppni tveggja fyrirtækja. Það er vonandi að slíkt gangi upp, en ég er alls ekki sannfærður um það. Ég er hræddur um að upp komi að það þurfi að breyta viðkomustöðum, fella einhverja staði út ef þessir flutningar eiga að standa undir sér.
    Það er athyglisvert að fram kom í þessum umræðum hjá hæstv. samgrh. að nú eru málefni flóabáta til athugunar líka. Þar hefur sú leið verið farin að ákveða þeim ákveðinn styrk á fjárlögum. Má þar nefna t.d. Baldur á Breiðafirði og Akraborgina sem fá ákveðinn styrk á fjárlögum til sinna siglinga. Er það þá ekki framhaldið að þessir styrkir falli niður? Ég gæti ímyndað mér að ef framhaldið er rökrétt muni sú ákvörðun verða tekin að hætta að ríkisstyrkja siglingar. Ég tel það í sjálfu sér mikið óöryggi fyrir samgöngur á landsbyggðinni og verr farið en heima setið og óþarfi því að ég tel að það hefði mátt spara stórlega í þessum framlögum með því að fara aðrar leiðir í þessum málum en valdar hafa verið þó að ég voni svo sannarlega að Samskipsmenn, ef þeir taka að sér þessar siglingar, nái þeim árangri í rekstri að fraktirnar þurfi ekki að hækka sem er auðvitað einn vinkillinn enn þá á þessu máli.