Skýrsla samgönguráðherra um málefni Skipaútgerðar ríkisins

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 15:56:00 (2900)


     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég á erfitt með að trúa því hvaða stefnu þessi mál eru að taka þessa dagana. Svo ótrúleg þykja mér í reynd þau tíðindi að hæstv. samgrh. skuli nánast einn og með sjálfum sér taka þá ákvörðun að ljúka þessari áratuga löngu sögu strandsiglinga með opinberum tilstyrk sem hefur verið geysimikilvæg undirstaða almenningsamgangna í þessu landi í þágu atvinnulífs og mannlífs um áratuga skeið. Þrátt fyrir mikinn og hraðan lestur hæstv. ráðherra áðan fannst mér aldrei komið að kjarna málsins sem er spurningin um þá algeru óvissu sem er greinilega stefnt út í. Ég tek fram að fyrirtækið Samskip er alls góðs maklegt og ég hef mikla samúð með því sem þeir eru að reyna að gera í erfiðri samkeppni við markaðsráðandi risa sem er við hliðina á þeim og lái þeim ekki þó að þeir reyni að afstýra því að enn sé nú þrengt að þeim með því að þessi hinn sami risi hefði náð meiri undirtökum á ströndinni en þegar er orðið.
    Hæstv. ráðherra nefndi bættar samgöngur á landi sem hefðu skipt sköpum í þessum efnum. Menn hafa vitað um það undanfarin ár og undanfarna áratugi, hæstv. ráðherra, að samgöngur á landi hafa verið að batna. En eftir sem áður hefur ekki hvarflað að mönnum fyrr en á þessu sumri að unnt væri að taka þá ákvörðun allt í einu að leggja niður strandsiglingakerfi sem byggt hefur verið upp með þjónustu við alla staði á ströndinni í huga. Á undangengnum árum og mér liggur við að segja áratugum, þegar málefni Ríkisskipa hafa iðulega verið til skoðunar í stjórnartíð margra ríkisstjórna, hefur útgangspunkturinn ævinlega verið sá að eftir sem áður þyrfti með einhverjum hætti að tryggja þessa þjónustu þangað til allt í einu nú að þess er ekki lengur þörf. Hæstv. samgrh. þarf að vita það, úr því að hann hefur svo mikla trú á batnandi vegum sem vissulega er rétt að hafa batnað, að eftir sem áður búa margir staðir við mikla landfræðilega einangrun a.m.k. yfir vetrartímann. Eftir sem áður eru velflestir fjallvegir ófærir svo vikum og mánuðum skiptir á Vestfjarðasvæðinu og jafnvel austanlands. Eftir sem áður eru þungatakmarkanir á vegum á vorin á stórum hlutum vegakerfisins úti í strjálbýlinu og eftir sem áður er ákveðin þungavara sem fer yfirleitt ekki nema með skipum, hæstv. ráðherra, og á sáralítið erindi upp á bíl. Eftir sem áður snýr þetta að samkeppnisstöðu atvinnulífs fyrirtækja á landsbyggðinni og hún verður stórlega lakari ef engar boðlegar sjósamgöngur eru fyrir hendi. Þá er ég ekki að tala um samgöngur á hálfs mánaðar til mánaðar fresti þegar menn koma og sækja framleiðsluvörur viðkomandi svæða heldur er ég að tala um einhverjar reglubundnar samgöngur samkvæmt áætlun sem unnt er að treysta á. Á því er mikill munur, hæstv. ráðherra, eða geðþóttasiglingum skipafélaga sem sækja þá frakt sem þeim hentar og jafnvel þegar þeim hentar.
    Nei, gallinn liggur í því að hæstv. ráðherra virðist hafa tekið sér vald til að kveða upp úr um að ekki gæti orðið um neinn stuðning eða neinn samning um þessa þjónustu að ræða af hálfu þess opinbera. Slíkt mál hefur aldrei verið borið upp á þingi. Ég bendi á hvernig hæstv. ráðherra lagði málin hér fyrir þegar fjárlög voru til afgreiðslu. Þá átti þetta allt saman að leysast, m.a. með stofnun fyrirtækis sem nú er allt saman orðið í skötulíki.
    Mér sýnist, hæstv. forseti, stórkostleg hætta á að menn séu að færast áratugi aftur í tímann hvað mikilvægar samgöngur fyrir landsbyggðina snertir, hverfa jafnvel aftur undir tíma vorskipanna og haustskipanna hvað afskekktustu staði eins og Norðurfirði á Ströndum snertir. Mér sýnist þó öllu alvarlegast í þessu máli að menn eru að klippa á, ef svo heldur sem horfir, þá innbyrðis tengingu landshlutanna með sjósiglingum sem gert hefur fyrirtækjum, verslun og framleiðslufyrirtækjum, á landsbyggðinni mögulegt að eiga innbyrðis viðskipti og standa Reykjavíkurvaldinu í þessu tilliti snúning.
    Hæstv. ráðherra, sem stundum ber hagsmuni Eyjafjarðarsvæðisins nokkuð fyrir brjósti, ætti að hugleiða hvað það getur kostað slíka starfsemi á Norðurlandi, Austfjörðum eða Vestfjörðum að klippt verður, ef illa tekst til eins og hér horfir, á innbyrðis tengsl þessara landshluta. Með einum eða öðrum hætti mun það beina allri slíkri þjónustu og allri slíkri verslun til og frá Reykjavík og út á þessa staði. Þetta er langalvarlegasti hluti þessa máls, hæstv. forseti, og með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli bera á borð að þetta eigi bara að gerast si svona og með því að selja Samskipum, sem eins og ég segi eru alls góðs makleg, þessi skip sé þetta mál úr sögunni og leyst af hans hálfu.
    Ég tel að það hafi verið staðið illa að þessu máli frá sl. hausti. Ég fæ ekki betur séð en flest hafi verið gert til að rýra kost fyrirtækisins sem þó stóð í orði kveðnu til að selja, m.a. með því að byrja á að skera af því arðvænlegasta hluta starfseminnar sem voru Færeyjasiglingarnar. Hvers vegna var allt í einu byrjað á þeim? Ef menn bera fyrir brjósti eðlilega samkeppni í þessum efnum var þvert á móti ástæða til að leyfa þeim anga að þroskast meira, enda var það hann sem fór fyrir brjóstið á stóra risanum í þessu dæmi, það er alveg ljóst.
    Alveg síðan á þessu hausti hefur verið talað með þeim hætti um þetta fyrirtæki að það varð ekki til þess að auka áhuga manna á að taka við rekstrinum eða stofna um hann nýtt fyrirtæki.
    Að lokum verð ég að segja að ræða hv. 5. þm. Austurl. var mér með öllu móti óskiljanleg og er það reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég skil ekki alveg hv. þm. Hér liggur fyrir að verið er að draga stórlega úr þeim stuðningi sem úr sameiginlegum sjóðum hefur komið, gengið til þess undanfarin ár að halda uppi mennilegum samgöngum um landið allt. Það er ekki sérstaklega í þágu landsbyggðarinnar, það er í þágu landsmanna allra, hvar sem þeir búa í landinu, að hér sé rekið sæmilegt samgöngukerfi sem teygir sig til landsins alls. Það er verið að klippa á það með þessum hætti. Það er verið að skerða stórkostlega samkeppnisstöðu fyrirtækja og það gæti farið svo að þetta klippti á möguleika t.d. framleiðslufyrirtækja úti um landið að eiga innbyrðis viðskipti. Hv. 5. þm. Austurl., þetta er verið að gera á sama tíma og verið er að skera niður vegafé en ekki auka það. Og hvar koma þessar hundrað-og-eitthvað milljónir fram sem teknar eru núna af Ríkisskipum? Hvergi. Þvert á móti er dregið úr nánast öllum öðrum liðum í fjárlögunum sem lúta að stuðningsaðgerðum af þessu tagi þannig að hér er verið að snúa hlutunum við með þeim endemishætti sem hv. 5. þm. Austurl. flutti sitt mál og hef ég ekki frekari orð um það.
    Að lokum er svo rétt að benda á að hér er gengið gegn þeirri þróun sem talin er æskileg í öðrum löndum og bæði með tilliti til orkusparnaðar og umhverfismála er auðvitað æskileg, þ.e. að hafa sem mest af þungaflutningum á sjó eða með járnbrautum þar sem þær eru til í staðinn fyrir að færa þá upp á land á bíla sem eyða meiri orku og eru umhverfisfjandsamlegri en þessi tegund samgangna.
    Ég leyfi mér að leggja þrjár spurningar fyrir hæstv. ráðherra í tilraunaskyni. Það má gera eina tilraun enn hvort upp úr honum hafast einhver svör. Sú fyrsta er þessi:
    1. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra tryggja með fullnægjandi hætti að afskekktustu staðir á Vestfjörðum, Norðausturlandi og Austfjörðum og minni staðir sem ætla má að ekki fái skipaviðkomur ef Ríkisskip leggja niður starfsemi fái ekki lakari þjónustu? Ég spyr um tryggingar í því sambandi.
    2. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra sjá til þess að innbyrðis tenging landshlutanna verði ekki lakari en hún hefur verið hvað sjósamgöngur snertir?
    3. Hefur hæstv. ráðherra látið gera úttekt á því hver áhrif af þessum breytingum verða á samkeppnisstöðu og innbyrðis viðskiptamöguleika fyrirtækja í verslun, þjónustu og framleiðslustarfsemi á landsbyggðinni?