Skýrsla samgönguráðherra um málefni Skipaútgerðar ríkisins

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 16:08:00 (2902)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Það er átakanlegt að sjá hversu viðkvæmt mál það er fyrir hæstv. ráðherra að öll þjóðin veit að hann sagði ósatt sl. miðvikudag. Fyrir þá sem ekki voru hér þegar ég rakti það mál skal hlaupið yfir ósköp einfaldar staðreyndir.
    Klukkan sex miðvikudaginn 15. jan. bar hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, fram fyrirspurn um gang þessara mála. Ráðherra svaraði því til að viðræður væru í gangi við Samskip. Hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, var hins vegar í forsvari fyrir nefnd til undirbúnings hlutafélagi sem e.t.v. gæti tekið við þessum rekstri. Ekkert var á það minnst að nálægt samningum væri komið.
    Þegar hv. þm. opnuðu Ríkisútvarpið kl. sjö þetta kvöld, en héðan fórum við líklega kl. 6.45, kom frétt sem enginn hefur vogað sér að bera til baka og hún hefst svona, með leyfi hæstv. forseta: ,,Samskip hf. hafa gert kaupsamning um strandaferðaskipið Esju. Ómar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Samskipa, staðfesti skömmu fyrir fréttir að öll meginatriði varðandi kaupin væru í höfn.`` Og fréttin er raunar lengri. Ég tel ekki ástæðu til að lesa hana aftur, ég gerði það á föstudaginn.
    Nú hefur verið upplýst, sem ég ekki vissi, að þessi frétt hafði verið komin á Bylgjunni kl. fimm, klukkutíma áður en fundurinn hófst. Í þessari umræðu, þegar ég gerði þessa athugasemd, talaði hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, sá er veitti nefndinni forstöðu, sem ekkert vissi um þessar viðræður við Samskip. Hv. þm. hóf ræðu sína hér til að taka undir mitt mál og sagði í upphafi ræðu sinnar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hæstv. forseti. Þessi umræða og þetta mál í heild sinni er orðið heldur dapurlegt. Ég get satt að segja naumast tekið þátt í umræðum við hæstv. ráðherra um þetta mál. Mér ofbýður.``
    Það er ánægjulegt að sá ágæti hv. þm., 4. þm. Reykv., skuli hafa tekið gleði sína aftur og lítur nú bjartari augum á þetta mál, en það var þungt í honum ef ég man rétt sl. föstudag.
    Það segir svo ekki frekar af því að kl. 10.30 á föstudagsmorguninn er gengið frá samningum. Það er ekki lengi verið að því sem lítið er á þeim bæ.
    Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra sagði þinginu ósatt og það veit öll þjóðin og það stendur skýrum stöfum í þingtíðindum og mun standa þar um allan aldur. Það er alvarlegt mál. Því miður held ég að þjóðþingið líti á það sem minna mál en þjóðin gerir. En það er önnur saga. Við sjáum hvað úr því verður. En viðkvæmni þeirra skil ég mjög vel og hv. 3. þm. Reykn. hefði betur látið ósagt það sem hann sagði um þetta mál því að hann

vissi augljóslega ekkert um það.
    En enn er ósvarað nokkrum spurningum. Ég vil enn heyra þær: Hefur nefnd hv. 4. þm. Reykv. lokið störfum? Esjan er aðeins hluti af eignum Ríkisskipa. Hvað á að gera við hitt? Eiga þeir þremenningar, Benedikt Jóhannesson, Þórhallur Jósefsson og hver sá þriðji var nú, að annast þetta einir og sjálfir eða á hv. 4. þm. Reykv. og hans nefnd enn að koma að einhverjum málum? ( EKJ: Hún kemur saman seinna í vikunni.) Hún kemur saman seinna í vikunni, segir hv. 4. þm. Reykv., og heldur enn að hann fái einhverju ráðið í þessu máli.
    Sannleikurinn er sá að þetta mál er allt saman eitt reginhneyksli. Starfsmenn Ríkisskipa hafa verið hundsaðir eins og þeim komi þetta fyrirtæki ekkert við. Þjóðþingið hefur verið hundsað eins og því komi þetta mál ekkert við. Íbúar landsbyggðarinnar hafa verið hundsaðir eins og þetta komi þeim ekkert við. Ráðherra hefur ráðskast með þetta með frændgarði sínum eins og flest önnur mál, aðstoðarmönnum sínum örfáum, án þess að nokkur fái þar rönd við reist og kemur svo í þjóðþingið og segir ósatt.
    Það er engin tilviljun að Færeyjasiglingar eru ekki leyfðar þar sem Eimskipafélagið er nú búið að fá þar slíka einokun að færeysk skipafélög eru komin á hausinn. Það er ekki lengi verið að snara þeim út úr myndinni.
    Sannleikurinn er sá að hér er verið að skrökva miklu meira en ég hef lýst. (Gripið fram í.) Það er engin trygging fyrir því. --- Hæstv. forseti. Svo hef ég verið borin þungum sökum að ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lengja mál mitt um eins og tvær mínútur því að ég er nefnilega að segja satt. Það er tilbreyting hér í salnum. ( Forseti: Hv. þm. hefur þegar farið tvær mínútur fram yfir tímann.) Þá mun þingmaðurinn ljúka máli sínu mjög fljótlega.
    Hér er auðvitað hráskinnsleikur í gangi. Það er verið að koma á svokallaðri samkeppni. Samkeppni milli hverra? Samskipa og Eimskipafélags Íslands. Það verður fljótlegt að skipta um nafn á þessu nýja skipafélagi ef hæstv. samgrh. verður lengi við völd, taka út ess og a og setja ei í staðinn.