Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 16:28:00 (2905)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns vildi ég fá að veita andsvar. Hann sagði eitthvað á þá leið að erfiðleikarnir sem núv. ríkisstjórn og þjóðin stæðu frammi fyrir væru heimatilbúnir mestanpart vegna vaxtahækkana ríkisstjórnarinnar. Aðeins til að fræða hv. ræðumann vil ég benda honum á heimild í Hagtölum mánaðarins, desemberhefti, sem fjallar um þetta atriði. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Framan af árinu [þ.e. síðasta ári] héldu ríkissjóður og innlánsstofnanir þó að sér höndum með vaxtabreytingar þrátt fyrir vaxandi verðbólgu.`` Og síðar: ,,Á verðbréfamarkaðnum urðu hins vegar raunvaxtahækkanir á tímabilinu febrúar--maí, t.d. í viðskiptum með húsbréf. Síðustu vikur þess tímabils var ávöxtun slíkra bréfa hærri en meðalvextir verðtryggðra bankaútlána.``
    Allir þeir sem hafa fylgst með vöxtum vita að á eftirmarkaði voru vextir miklum mun hærri en skráðir vextir á opinberum bréfum, svo miklu hærri að auðvitað hlaut að koma að því að ríkisstjórnin eins og aðrir viðurkenndi það og gerði þær breytingar sem þurfti, enda hefur það margoft verið rakið hvernig fé streymdi úr ríkissjóði á þessu tímabili.
    Hitt atriðið sem kom fram í ræðu hv. þm. og ástæða er til að nefna er að erfiðleikarnir 1983 hafi verið miklu meiri en nú og samt hafi þá verið gripið til almennra aðgerða sem gefist hafa betur. Við skulum aðeins líta á tölur í þessu sambandi. Ef við lítum á töluna fyrir árið 1983, fyrst á það hvernig vergar þjóðartekjur á mann breyttust, urðu

þær árið 1983 4,6% minni en árið áður, en vergar þjóðartekjur að raungildi 3,3% minni. Hins vegar er það svo að árið 1992 er gert ráð fyrir að vergar þjóðartekjur á mann séu 7% lægri en árið áður, en vergar þjóðartekjur 6,1% lægri en árið áður, þ.e. í fyrra. En sé litið til kaupmáttarins lækkaði kaupmátturinn árið 1983 á mann um 15%, en gera má ráð fyrir að kaupmátturinn á þessu ári miðað við sl. ár lækki um 2,1%. Almennu aðgerðirnar þá voru fólgnar í því fyrst og fremst að lækka gengi íslensku krónunnar stórkostlega. Það eru almennar aðgerðir, en ég vonast til þess að hv. þm. sé ekki að benda okkur á að það sé skynsamlegasta staðan í málunum í dag. Sé það svo verður hv. þm. að segja okkur frá því hvort það sé stefna Framsfl. í málinu.