Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 16:36:00 (2908)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég rifjaði upp áðan í minni ræðu og bar saman þessi tvö ár, þ.e. árið 1992 og svo hins vegar 1983. Ég get farið yfir það enn einu sinni.
    Árið 1983 var hér 140% verðbólga og það er rétt að þá var veruleg kjaraskerðing vegna verðbólgunnar. Í dag er verðbólgan í kringum 5% og það er ekki þessi ríkisstjórn sem hefur skapað þær aðstæður heldur fyrri ríkisstjórn sem Sjálfstfl. átti ekki aðild að. Sú ríkisstjórn í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins hefur náð þessum árangri og skapað þær aðstæður sem hérna eru núna. ( Fjmrh.: Ég er að tala um rauntölur.)
    Árið 1983 var þorskveiði áætluð í kringum 360 þús. tonn. Hún varð hins vegar ekki nema 290 þús. tonn á árinu vegna þess að aflinn brást. Á þessu ári má búast við að þorskaflinn verði í kringum 280, jafnvel upp undir 300 þús. tonn, þrátt fyrir að kvótinn sé áætlaður 265 þús. tonn, af þeirri ástæðu að það eru verulegar innstæður hjá útgerðarmönnum frá fyrra fiskveiðiári. Loðnuafli á þessu ári verður 700 þús. tonn sem verður heimilt að veiða. Árið 1983 mátti enga loðnu veiða.
    Þegar menn líta á þetta og bera saman sjá menn að þeir erfiðleikar sem ríkisstjórnin sjálf er að útbúa í hugum fólksins og í raun og veru með þeim aðgerðum sem hún greip til, vaxtahækkunum sl. vor, eru heimatilbúnir. Og þeir eru smámunir í samanburði við það sem var 1983, en þá var með öðrum hætti tekið á vandanum. Þannig var ekki aukið á kreppuna sem þá hafði myndast heldur unnu menn sig út úr kreppunni. Þessi ríkisstjórn er hins vegar að auka á erfiðleikana með sínum aðgerðum. Þarna skilur þessar tvær ríkisstjórnir að.