Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 16:53:00 (2912)

     Sturla Böðvarsson :
     Herra forseti. Ég skal reyna að gera það. En í tilefni þess sem hv. 5. þm. Vestf. sagði í sínu andsvari við ræðu hv. 5. þm. Reykv. er svolítið fróðlegt að fylgjast með því þegar hv. þm. Alþb. eru að fordæma það sem þeir kalla miðstýringu, þessir ágætu hv. þm. sem árum og áratugum saman hafa dásamað það sem þeir hafa kallað miðstýringu og mælt sérstaklega fyrir henni. Hins vegar er alrangt hjá hv. þm. að það sem hann tiltók væru miðtýringaráform, fjarri því.
    Þegar fjárlög þessa árs voru afgreidd var gert ráð fyrir þeim ráðstöfunum í ríkisfjármálum ársins 1992 sem hér er fjallað um í svokölluðum bandormi. Eins og vænta mátti hafa orðið miklar umræður um þær ráðstafanir í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir þingið. Staða ríkisfjármála var með þeim hætti að stjórnin átti ekki annarra kosta völ þegar hún tók við en að grípa til ráðstafana til að hemja ríkisútgjöldin og snúa vörn í sókn. Það markmið að draga saman ríkisútgjöldin svo sem sett var fram í frv. til fjárlaga og tengdist að sjálfsögðu minnkandi þjóðartekjum hlaut að kalla á aðgerðir sem gætu snert mjög marga í þjóðfélaginu, bæði einstaklinga, fyrirtæki og einnig þann hluta framkvæmdarvaldsins sem eru sveitarfélögin.
    Auðvitað veldur það óánægju þegar ríkisvaldið neyðist til að skerða framlög eða hækka hlutdeild notenda í þeirri þjónustu sem veitt er svo að ekki sé talað um þegar nauðsyn ber til að fresta mikilvægum framkvæmdum eða verkefnum sem snerta stóra hópa eða

heila landshluta. En það er hlutverk ríkisstjórnar og Alþingis að takast á við að stjórna landinu, undirbúa og setja löggjöf, m.a. fjárlög og þá löggjöf sem varðar tekjur og útgjöld ríkisins. Undan því verður ekki vikist og það er lýðræðisleg skylda okkar þingmanna að leita hinna færustu leiða sem oft kalla á mótmæli og sem kosta jafnan að ekki eru allir á eitt sáttir og fjarri fer því að allir geti fengið því framgengt sem þeir helst vildu jafnan af óskum sínum.
    Ekki fer á milli mála að sumt af ráðstöfunum í því frv. sem hér er til umræðu veldur gagnrýni. Það á ekki síst við um málefni sem varða grunnskóla og einnig tryggingakerfið, en það sem ég ætla einkum að fjalla um lýtur að sveitarfélögunum og mun ég gera sérstaka grein fyrir þeim þáttum í minni ræðu.
    Í 18. gr. frv. er gert ráð fyrir að leggja niður svokallaða daggjaldanefnd sem hefur gert tillögur til ráðherra undangengin mörg ár um greiðslur til daggjaldastofnana sem hafa verið reknar með framlögum sem hafa byggst á daggjöldum. Mjög hefur dregið úr verkefnum þessarar nefndar þar sem margar stofnanir og í rauninni langflestar stærstu stofnanir í heilbrigðiskerfinu hafa verið færðar á fasta fjárlagaliði. Aðild að daggjaldanefndinni hafa átt sveitarfélög og Landssamband sjúkrahúsa auk fulltrúa Tryggingastofnunar og ráðuneyta.
    Það er þekkt að forsvarsmenn margra stofnana telja að ekki hafi verið nægjanlegt tillit tekið til raunverulegs kostnaðar við rekstur stofnana og hjá sumum stofnunum hafi safnast upp og myndast halli sem m.a. sveitarfélögin hafa orðið að greiða. Þetta á kannski einkum við elliheimili sem rekin eru af sveitarfélögum og jafnvel rekin af sjálfseignarstofnunum eða einstaklingum. Fulltrúar sveitarfélaga í daggjaldanefndinni hafa vafalaust komið athugasemdum á framfæri og gætt hagsmuna þeirra stofnana sem reknar hafa verið á vegum sveitarfélaganna án þess að ná í öllum tilvikum fram sínum vilja í glímunni við fulltrúa ríkisvaldsins sem eðlilega hafa haldið fram hlut ríkisins og reynt að halda niðri útgjöldum.
    Sú skipan, sem hér er lögð til, að heilbr.- og trmrh. skuli að höfðu samráði við viðkomandi stofnanir, eins og brtt. gerir ráð fyrir, ákveða daggjöld, leggur mjög mikla ábyrgð á herðar hæstv. heilbr.- og trmrh. Það er rík tilhneiging hjá ráðuneytum og jafnvel hæstv. ráðherrum að ætla sveitarfélögum að taka á sig kostnað sem þeim ber ekki að greiða. Sú skipan að ráðherra ákveði hver kostnaður einstakra stofnana sem sveitarfélög eða sjálfseignarstofnanir reka eigi að vera er afar óheppileg að mínu mati og leggur fullmiklar kvaðir á viðkomandi ráðherra. Ég tel að hér sé farið út á braut sem erfitt geti verið að koma í þann farveg sem æskilegt er.
    Þá breytingu sem hv. heilbr.- og trn. hefur lagt til, að ráðherra skuli hafa samráð við viðkomandi stofnanir, tel ég vera til mikilla bóta og að þeirri brtt. samþykktri get ég fallist á 18. gr. eins og hún er fram sett. Þrátt fyrir að veita verður nauðsynlegt aðhald í rekstri stofnana ber að tryggja hallalausan rekstur vel rekinna stofnana, svo sem elliheimila sem ég hef gert hér sérstaklega að umtalsefni.
    Á undanförnum árum hefur daggjöldum elliheimila verið haldið niðri en verið hlaupið undir bagga með því að meta hluta af vistrými elliheimilanna sem hjúkrunarrými og bæta halla þeirra að nokkrum hluta með því. Á þessu þarf að verða breyting og er þess að vænta að hæstv. heilbrrh. lát endurmeta þessa daggjaldaviðmiðun í samráði, og það vil ég undirstrika, við viðkomandi stofnanir.
    Virðulegi forseti. Að ósk forseta er ég tilbúinn til þess að gera hlé á ræðu minni hér. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Þegar ég gerði hlé á ræðu minni hafði ég farið yfir þær athugasemdir sem ég hef haft við þann hluta bandormsins sem snýr að þeirri breytingu að leggja niður daggjaldanefndina og mun nú snúa mér að öðrum þáttum.
    Í fjárlögum er gert ráð fyrir sérstakri tekjuöflun til hafnagerðar að upphæð 125 millj. sem verða til með sérstöku álagi á vörugjöld sem hafnirnar innheimta. Í brtt. hv. meiri hluta efh.- og viðskn. er gert ráð fyrir þeirri breytingu á hafnalögum, nr. 69/1984, að höfnunum er gert að innheimta 25% álag á vörugjöld og skal það álag renna í sérstaka deild

í Hafnabótasjóði. Með þessu álagi á vörugjöldin er tryggt framkvæmdafé til hafnagerðar og samkvæmt fjárlögum er hægt að ná því marki að afla fjármagns til að standa við, að því er stefnt er að, þá tillögu að hafnaáætlun sem lá fyrir þegar núverandi stjórn kom til valda. Samkvæmt þessari hafnaáætlun, sem að vísu og því miður hefur ekki verið afgreidd frá Alþingi, er gert ráð fyrir að árlegur ríkishluti framkvæmda í hafnagerð sé um það bil 800 millj. kr.
    Til þess að átta sig betur á forsendum þeirrar tekjuöflunar Hafnabótasjóðs sem hér er lagt til er nauðsynlegt að skoða nokkrar staðreyndir um framkvæmdir og framlög til hafnagerðar að undanförnu.
    Í fjárlögum ársins 1991 eru 508 millj. ætlaðar til framkvæmda í höfnum landsins. Í fjárlögum þessa árs, ársins 1992, er sambærileg tala 762 millj. og er þar um að ræða um það bil 50% hækkun milli ára. Ríkishluti framkvæmda á árinu 1991, sem var mjög mikið framkvæmdaár í höfnum landsins, var um 1 milljarður 107 millj. kr. Skuldir ríkisins í árslok 1991 við sveitarfélögin vegna hafnasjóðanna voru því um 600 millj. kr. og námu hærri fjárhæð en öll fjárveitingin til hafnagerðar á því ári.
    Á undanförnum árum hefur verið rætt um nauðsyn þess að marka ákveðna tekjustofna fyrir framlag ríkisins til hafnagerðar. Ekki hefur það markmið náðst, en með álagi á vörugjaldið er renni í Hafnabótasjóð er stigið fyrsta skrefið í þessa átt. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1991 setti þáverandi ríkisstjórn fram tillögur þess efnis að í ríkissjóð rynni gjald fyrir veitta þjónustu eins og það var nefnt í greinargerð með frv. Þáverandi stjórn tókst ekki að útfæra þessa tekjuöflun með þeim hætti að samþykkt væri, enda var þar um að ræða að afla í einum áfanga allra þeirra framlaga sem áttu að renna til hafnagerðar og áttu notendur hafnanna að skila þessum tekjum í ríkissjóð eins og frv. gerði ráð fyrir.
    Í grg. með frv. þessu til fjárlaga fyrir árið 1991 segir, með leyfi forseta: ,,Rekstrarumsvif stofnana á sviði vita- og hafnamála á næsta ári eru áformuð í meginatriðum með svipuðum hætti og í ár. Aftur á móti er gerð tillaga um gerbreytta fjármögnun framkvæmda og reksturs. Í því tillit mun samgrh. leggja fyrir Alþingi tillögu þess efnis að þeir sem noti hafnirnar greiði gjald fyrir veitta þjónustu. Gert er ráð fyrir 560 millj. kr. innheimtu af gjaldinu á næsta ári sem skiptist þannig að 36 millj. kr. færist hjá Vita- og hafnamálaskrifstofu, 28 millj. hjá Vitastofnun Íslands og 496 millj. kr. á fjárlagalið 333, hafnamál. Vita- og hafnamálaskrifstofunni eru ætlaðar 1,5 millj. kr. til tækja- og búnaðarkaupa auk 24,9 millj kr. framlags sem er lokagreiðsla ríkissjóðs vegna nýbygginga stofnunarinnar.``
    Þegar litið er til þessara hugmynda fyrrv. ríkisstjórnar hlýtur andstaða fyrrv. hv. stjórnarliða við þeirri tillögu sem er gert ráð fyrir nú þegar í fjárlögum að koma á óvart, ekki síst þegar litið er til þess að um mun lægri upphæð er þarna að ræða, en ríkissjóði er eftir sem áður ætlað að leggja til langstærstan hluta af því framlagi sem ætlað er til hafnagerðar í landinu.
    Í umræðum á Alþingi hefur komið fram sú gagnrýni að þetta álag á vörugjald hækki vöruverð í landinu. En það hefur verið upplýst í þingnefnd að áhrif þessarar hækkunar á verðlag séu óveruleg eða um það bil 0,03% þannig að vart er þar um miklar hækkanir að ræða. Augljóst er að innheimta gjaldsins og skil skapa aukna vinnu, það fer ekki hjá því, einkum hjá stóru vöruhöfnunum sem síðan eiga nánast ekkert eða lítið tilkall til þessara fjármuna sem þær þó innheimta. Þetta hefur verið gagnrýnt og kvartað undan því. En telja má víst að þær lagfæringar sem felast í brtt. á þskj. 384 muni auðvelda innheimtuna og hefur þar verið farið að tillögum og ábendingum sem m.a. komu fram í þingnefnd frá fulltrúum Hafnasambands sveitarfélaga.
    Að þeirri breytingu gerðri og með því að ráðherra er gert að kveða nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu í reglugerð tel ég að niðurstöðurnar séu ásættanlegar fyrir hafnirnar, en auðvitað verður í reglugerð um innheimtuna að tryggja að hafnir sitji ekki uppi með að þurfa að skila þessu álagi ef vörugjöldin nást ekki inn, t.d. við gjaldþrot eða því um líkt.
    Líta verður á að með þeirri tekjuöflun sem Hafnabótasjóði er tryggð hækkar ráðstöfunarfé til hafnagerðar. Ef það er borið saman árið 1991 og 1992 og tekin framlögin til einstakra hafna og svo framlögin sem Hafnabótasjóður fær er sú tala í fjárlögum 1991 558 millj. á móti 852 millj. í fjárlögum þessa árs og er því um að ræða verulega hækkun á milli ára. Ég er sannfærður um að þegar hafnastjórnum er ljós sú niðurstaða, sem flestum er að ég tel núna, munu þær fagna þeirri stefnu sem mörkuð er í fjárlögum og þeirri stefnu sem mörkuð er með því að koma á þessari auknu tekjuöflun fyrir Hafnabótasjóð.
    Sá þáttur frv. sem valdið hefur mestum óróa er tillaga um hlutdeild sveitarfélaga í kostnaði við löggæslu á árinu 1992. Aðdragandi og undirbúningur þessa máls er fjarri því að vera með þeim hætti sem vera ber og bera ríkisstjórnin og stjórnarliðarnir að sjálfsögðu fulla ábyrgð á þeim bresti sem hefur orðið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaga vegna þessa máls. Mótmæli stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga eiga fullan rétt á sér þrátt fyrir að á stundum hafi þeir ágætu forsvarsmenn skotið nokkuð yfir markið, ekki síst þegar litið er til þess hve fjálglega þeir lýstu góðri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna á fjármálaráðstefnu sambandsins í nóvember sl.
    Í allri umræðunni um hlutdeild sveitarfélaga í kostnaði við löggæsluna hefur komið mér nokkuð á óvart hve marga talsmenn sveitarstjórnir hafa eignast á hinu háa Alþingi og vænti ég þess að hæstv. félmrh. fagni því mjög. Þau 17 ár sem ég hef fylgst með sveitarstjórnarmálunum gagnvart Alþingi hef ég ekki orðið svo var við stuðning sumra núverandi stjórnarþingmanna, t.d. þegar hefur komið til þess að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem nú fær 100 millj. kr. reyndar samkvæmt fjárlagafrv. umfram lögboðið framlag til að styrkja tekjujöfnunarframlög úr sjóðnum. Og enn síður varð ég var við mikinn stuðning margra hv. þm. þegar komið hefur til þess að skerða Hafnabótasjóð. Og síst varð ég var við mikinn stuðning margra þessara ágætu hv. þm. þegar hæstv. ráðherrar í síðustu stjórn stóðu að því að rifta lögformlegum samningum sem ríkið hafði gert við sveitarfélög, m.a. um byggingu skólamannvirkja.
    Viðbrögð þessara hv. þm. hlýt ég að meta í því ljósi sem ég þekki og hef nefnt hér. Það breytir því engu að síður að öll málsmeðferðin hefur kallað yfir okkur gagnrýni og ég verð að segja að auðvitað hefði verið á allt annað kosið og verið æskilegt að geta í undirbúningi þessarar skattlagningar á sveitarfélögin átt gott samstarf við fulltrúa sveitarfélaganna í landinu. En það segir okkur að sá samstarfssáttmáli sem gerður hefur verið á milli ríkis og sveitarfélaga heldur kannski ekki nægjanlega vel og það er full ástæða til að endurskoða hann og endurvekja traust milli ríkisins og sveitarfélaganna.
    Auðvitað hafa þingmenn innan stjórnarflokkanna haft verulegar áhyggjur af þessari stöðu og m.a. þess vegna hefur verið aukið framlag til Jöfnunarsjóðsins eins og ég gat um áður til að koma til móts við sveitarfélögin. En auðvitað verða þau að taka á sig þá erfiðu stöðu sem er í þjóðfélaginu og við undirbúning fjárlaga og samþykkt þeirra var óhjákvæmilegt, því miður, að láta sveitarfélögin með einhverjum hætti taka á sig þær byrðar sem þau hafa nú orðið að axla.
    Það á hins vegar ekki að nota þessi auknu framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þannig að þau verði til að verðlauna þær sveitarstjórnir sem hafa gert ráðstafanir til að fara bakdyramegin inn í Jöfnunarsjóðinn vegna hins svokallaða lögregluskatts, en takist þeim það tel ég að í mikið óefni geti stefnt. Ég legg á það mjög mikla áherslu að reglugerð um Jöfnunarsjóðinn verði endurskoðuð og það tryggt að þau sveitarfélög sem raunverulega þurfa á jöfnunarframlagi að halda njóti þess með þeim hætti sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir gerðu ráð fyrir þegar Jöfnunarsjóðurinn fékk aukið framlag til að hafa upp á að hlaupa varðandi tekjujöfnunarframlögin.
    Um aðra þætti frv. tel ég að flest hafi komið fram sem máli skiptir. Mun ég því ekki lengja þessar umræður frekar.