Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 18:05:00 (2919)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég skal hugga hv. 1. þm. Vesturl. með því að ég hef ekki áhyggjur af því þó að framlög hækki til hafnagerða. Og hitt vil ég líka segja að sem betur fer dugir ekki að Vesturlandsblaðið þegi yfir þeim framlögum. En hafi það ekki komið allt fram þar hafa það verið mistök og verða leiðrétt.
    En vegna þeirra orða sem komu fram hjá honum tel ég út af fyrir sig ekkert sérstakt við það að athuga þó að menn skoði upp á nýtt hvaða reglur eiga að gilda um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það geta menn gert á hvaða tíma sem er og eðlilegt að skoða það öðru hverju. En að það leiði til þess að þessi sveitarfélög missi möguleikann til að fá jöfnunarframlögin dreg ég mjög í efa vegna þess að þau gjöld sem eru ekki inni í þessari mynd munu ekki gerbreyta henni.