Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 12:31:00 (2938)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Sá liður sem hér eru greidd atkvæði um er tvíþættur. Fyrra ákvæðið varðar fjölda kennslustunda í grunnskólum og samkvæmt því er verið að ákveða að fresta ákvæðum grunnskólalaga sem samþykkt voru samhljóða hér á Alþingi sl. vor um fjölda kennslustunda á komandi skólaári. Þetta er mjög alvarlegur hlutur því að samþykkt grunnskólalaganna í fyrra var stórfelldur ávinningur að mati allra þeirra sem starfa í skólum landsins. Þá var í fyrsta sinn ákveðinn lágmarkskennslutímafjöldi í grunnskóla en hér er verið að ganga gegn þessum ávinningum grunnskólalaganna. Þetta er sérstaklega alvarlegt þegar litið er til síðasta málsliðar 3. gr. þar sem ráðherrann er auk þess að afla sér sérstakrar opinberrar heimildar til þess að ákveða vikulegan kennslutíma í skólum.
    Við alþýðubandalagsmenn og fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntmn. höfum gagnrýnt þetta ráðslag ríkisstjórnarinnar mjög harðlega. Hér er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, á börnin í grunnskólum landsins. Við segjum nei við þessum ákvæðum.