Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:16:00 (2953)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram lýtur þetta ákvæði að því að skerða grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega, reyndar ellilífeyrisþega hér í þessari grein, og af því leiðir ýmislegt. Einkum og sér í lagi hefur það orðið mönnum umhugsunarefni að yfir 500 sjómenn á lífeyristökualdri frá sextugu og upp að 67 ára aldursmörkunum missa að öllu leyti eða að hluta þessi réttindi. Enn fremur leiðir af þessum ákvæðum sú umhugsunarverða staðreynd að sérstakt hátekjuskattþrep verður til, ef svo má að orði komast, á tekjur á bilinu 66 þús. kr. og upp í 114 þús. kr. á mánuði hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Þar virðist hæstv. ríkisstjórn hafa fundið þau breiðu bök í þjóðfélaginu sem ástæða sé til að leggja á sérstakt hærra skattþrep en aðra landsmenn.
    Hér er enn fremur um það að ræða að aukið er á þá mismunun sem er annars vegar í skattalegri meðferð vinnulaunatekna og hins vegar fjármagns- og eignatekna. Það er ekki hróflað við tekjum sem menn geta haft þess vegna svo hundruðum þúsunda króna

skiptir á mánuði hverjum af eignum sínum eða fjármagni, en hins vegar er jaðarskattprósentan 55% á vinnulaunatekjur aldraðs fólks sem er að reyna að bæta stöðu sína með einhverjum viðbótarvinnulaunum. Það er ekki hægt annað en óska þeim stjórnarliðum og sérstaklega þeim sem telja sig talsmenn sjómannastéttarinnar til hamingju með það að standa að þessu ákvæði með meiri hluta ríkisstjórnarinnar. Þá er og ekki hægt annað en óska Alþfl. til hamingju með þau afrek sem hann er þarna að vinna á tryggingalöggjöfinni, ekki síst hæstv. heilbr.- og trmrh. sem gerði grein fyrir atkvæði sínu hér áðan með eftirminnilegum hætti. Og þar sem hér eru á ferðinni brtt. frá hæstv. heilbr.- og trmrh. þá vil ég leyfa mér að endurgjalda honum þær með því að leggja til við hann eina brtt. sem hann getur flutt á næsta flokksfundi Alþfl. Hún er sú að framan við viðbótina sem kom inn í nafn Alþfl. á síðasta landsþingi bætist stafurinn ó á því næsta. ( Forseti: Og hvað ætlaði þingmaðurinn að segja?) Þingmaðurinn er á móti þessu og segir nei.