Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:25:00 (2957)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því að ég hafi farið hér rangt með. ( ÓÞÞ: Það vita allir að þú laugst.) Ég sæki mínar upplýsingar í frv. til laga um almannatryggingar, greinargerð sem fylgdi frv. hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh. og ég hef ekki tekið stafkrók annars staðar upp en þar. Og ég árétta það að hann mótmælti því ekki sjálfur að ég færi rétt með þegar ég skýrði frá því að sú skerðing sem verið er að gera á grunnlífeyri sé nákvæmlega eins framkvæmd og hann lagði sjálfur til að öðru leyti en því að hann lagði til 30% skerðingu þegar í tillögum ríkisstjórnarinnar er lögð fram 25% skerðing. Að öllu öðru leyti er um sömu framkvæmd að ræða. Og ég vil líka upplýsa menn um það að í þessu skjali hæstv. ráðherra sjálfs kemur fram að ellilífeyrir er samkvæmt hans tillögum skertur um 400 millj. kr. eða allmiklu meira heldur en hér er gerð tillaga um. Menn geta dregið orð mín í efa en ég vísa þeim mönnum sem eru læsir og hafa fyrir því að afla sér réttra heimilda á að sækja heimildir sínar í pappíra fyrrv. ráðherra sjálfs.