Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:27:00 (2959)

     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Málið er ósköp einfaldlega þannig að hér hefur verið hafin umræða um tryggingamál bæði fyrr og nú að frumkvæði hæstv. heilbr.- og trmrh. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að sú umræða fái að fara hér fram hvort sem það gerist t.d. í umræðum utan dagskrár eða með öðrum hætti og að hlé verði gert á atkvæðagreiðslunni. Þegar ráðherrar hefja umræður með þeim hætti sem hæstv. heilbr- og trmrh. hefur hér gert, þá er óhjákvæmilegt að menn fái að ræða þá hluti hér. Og ég verð að segja það eins og er að mér þykir það nokkuð sérkennilegt að það skuli aftur og aftur gerast að þegar ráðherrar verða uppvísir að vafasamri hegðun hér í salnum, þá er ævinlega siður forseta að veitast að þingmönnum almennt og setja ofan í við þá en það er aldrei tekið sérstaklega á því að þeir friðarspillar sem fremstir fara hér í salnum eru hæstv. ráðherrar og alfremstur þar í flokki er hæstv. heilbr.- og trmrh. Honum hefði verið nær, virðulegi forseti, að þegja, með leyfi forseta, hér áðan.