Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:47:00 (2970)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera hv. þingheimi ljóst hvað hér er að gerast. Alþfl. og yngstu sprotarnir af útgerðarauðvaldinu í landinu hafa tekið saman höndum um að svipta sjómenn við 60 ára aldur lífeyri sínum. Vegna þeirra sem ekki hafa komið nálægt raunveruleikanum vil ég upplýsa það sem ég veit. Faðir minn var í 54 ár á sjó. Hann lést á sl. vori. Þá var lífeyrir hans 26 þús. kr. á mánuði. Móðir mín hefur nú 16 þús. kr. í makalífeyri. Hafi þessi ungu afsprengi útgerðarmanna landsins sem hér eiga sæti ekki vitað þetta, þá skulu þeir vita það núna. Þessu ætla þeir öldruðum sjómönnum að lifa af núna.
    Hér er einnig verið að gera þetta: Ef öryrki, sem er ófær um að vinna sér nema 1 / 4 af því sem hann hefði annars átt að geta, hefur yfir 67 þús. kr. í tekjur á mánuði, þá skal byrja að skerða örorkulífeyri hans. Minni hlutinn hér á Alþingi Íslendinga hindraði að

barnalífeyrir yrði tekinn af þessu fólki líka.
    Hæstv. forseti. Hvað er hér að gerast? Það hvarflar að manni að hv. þingheimur sé ekki aldeilis alveg með réttu ráði. Hvernig er þessu fólki ætlað að lifa af þessum tekjum?
    Það sem er nú kannski kaldhæðnislegast af því öllu er: Þetta á einungis við ef menn eru 75% öryrkjar vegna veikinda. Hafið þeir nú verið svo lánssamir að verða að sitja í hjólastól ævilangt vegna bílslyss eða þeir voru útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar eða þeir sem voru að vinna að björgun manna úr sjávarháska eða þeir sem íþróttamenn voru að stunda íþróttakeppni, þá gildir annað. Það á ekkert að skerða þá menn þannig að í framtíðinni geta setið tveir menn í hjólastólum, við sama vinnuborð, með sömu laun og lífeyrir annars er skertur en hins ekki. Ég spyr hv. þm.: Er ekki ráð að hafa hér hlé eða a.m.k. hafa nokkurt hlé milli umræðna áður en þetta mál er afgreitt endanlega? Ég segi náttúrlega nei.