Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 14:01:00 (2975)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Út af þeim ummælum sem komu hér fram þegar menn gerðu grein fyrir atkvæði sínu vil ég gjarnan upplýsa að það kom fram í heilbr.- og trn. að ekki væri ætlun heilbrrh. eða heilbrrn. að svipta örorkulífeyrisþega barnalífeyri þó svo að þeir vegna atvinnutekna misstu grunnlífeyri. Það kom rækilega fram. Á það var að sjálfsögðu ljúflega fallist þegar á það var bent að það væri kannski æskilegra að taka það fram ótvírætt í lagatexta.
    Ég vil enn og aftur vitna til frv. fyrrv. heilbrrh. sem ég veit ekki betur en stutt hafi verið bæði af Framsfl. og Alþb. Þar var ekki ástæða talin til að taka af svona tvímæli í lagatexta jafnvel þótt það ætti að framkvæma skerðingu með nákvæmlega sama hætti í því frv. og gert var þarna. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að fallast á að taka af öll tvímæli í lagatexta þegar allir eru sammála um efnisatriðin eins og þarna voru og það var upplýst að það var ekki tilgangur heilbrrh. að svipta öryrkja barnalífeyri, hvorki þess heilbrrh. sem þessar tillögur flutti fram núna né heldur þess heilbrrh. sem sambærilegar tillögur flutti fram á síðasta Alþingi þó svo að báðir hefðu látið hjá líða að taka það sérstaklega fram í frumvarpstextanum.