Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 15:12:00 (2983)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi fá að taka fyrir í þessari umræðu og fá tækifæri til þess að svara spurningum sem til mín hefur verið beint. Reyndar hef ég svarað sumu hverju í svokölluðum andsvörum strax eftir að ræður hafa verið fluttar, öðrum atriðum hefur mér ekki tekist að svara en mun gera tilraun til þess nú, ekki síst þegar um það ríkir nokkuð gott samkomulag að flýta fyrir þeim umræðum sem nú eiga sér stað á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í.) Ég sagði að það væri víðtækt samkomulag og ég vona að það misskiljist ekki á nokkurn hátt.
    Í fyrsta lagi kom hv. 1. þm. Norðurl. e. að því atriði og spurðist fyrir um arðgreiðslur ríkissjóðs og hið sama gerði hv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason. Þeir spurðust fyrir um þá skiptingu sem birt er með fjárlögum. Í fyrsta lagi hvort samkvæmt þeirri skiptingu væri um meiri tekjur að ræða en gefið væri upp í tekjugrein fjárlaganna og síðan var spurst fyrir um hvað það þýddi samkvæmt d-lið þeirrar skiptingar eða þessa sérstaka yfirlits, að Landsvirkjun greiddi hagnað í samræmi við ákvæði laga.
    Af þessu tilefni vil ég segja að á undanförnum árum hefur ákveðnum reglum verið fylgt varðandi arðgreiðslur ríkisfyrirtækja en nú er í fyrsta skipti birt sérstakt yfirlit um þetta efni. Ef litið er til þessa sérstaka yfirlits sem fylgir fjárlögum, og er reyndar hluti af fjárlögunum því að þetta sérstaka yfirlit var samþykkt af Alþingi í lagabreytingartillöguformi og að mínu viti telst þetta hluti fjárlaganna sem nánari útskýring á ákveðnum tekjulið sem gerir ráð fyrir því að arðgreiðslur ríkisfyrirtækja gefi tekjur í aðra hönd, að mig minnir upp á 150 millj. kr., ég hygg að sú áætlun sem kemur fram í þeirri tölu sé í lægri kantinum, kannski fyrst og fremst vegna þess að í þessu sérstaka yfirliti sem Alþingi samþykkti er gert ráð fyrir að nokkur fyrirtæki, bæði fyrirtæki ríkisins og fyrirtæki að hluta í eigu ríkissjóðs, greiði nokkru hærri arð en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum á undanförnum árum. Á það sérstaklega við um b-liðinn. Varðandi c-liðinn sem fjallar um hlutafélög er auðsætt að aðalfundur ræður hverjar arðgreiðslur verða eins og segir til um í annaðhvort sérstökum lögum eða í lögum um hlutafélög.
    Varðandi Landsvirkjun vil ég einungis minna á að í 5. og 13. gr. landsvirkjunarlaganna, ef ég man rétt, er ákvæði um það með hvaða hætti Landsvirkjun skuli greiða arð og þar er tiltekin ákveðin formúla sem gerir ráð fyrir að Þjóðhagsstofnun eigi aðild að málinu. Og umsögn Þjóðhagsstofnunar er lögð er til grundvallar áður en gjaldskrárákvarðanir fara fram, en gjaldskrárákvarðanir byggja á því að félagið skili tilteknum arði til hinna þriggja eigenda sinna. Þegar sagt er hér að Landsvirkjun greiði hagnað í samræmi við ákvæði laga er einungis verið að vitna til landsvirkjunarlaganna.
    Í e-liðnum er rætt um Póst- og símamálastofnunina og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. En eins og öllum er kunnugt er nánar tiltekið í fjárlögum hvernig fara skuli með

þau mál.
    Varðandi f-liðinn þá er þar fjallað um Íslenska aðalverktaka. Þeir greiða arð í samræmi við samþykktir félagsins en nýjar samþykktir koma að fullu í gildi á yfirstandandi ári.
    Virðulegi forseti, ég vona að þessar upplýsingar séu þær sem beðið var um. Ef svo er ekki skal ég reyna að afla frekari og betri upplýsinga um þetta tiltekna atriði.
    Hv. 2. þm. Austurl., Jón Kristjánsson, spurðist fyrir um það hvort ætlunin væri að selja húsbréf erlendis á þessu ári og minnti á að Þjóðhagsstofnun teldi það öfugsnúið að selja húsbréf erlendis í stað þess að ríkið tæki sjálft lán á betri kjörum. Af þessu tilefni vil ég minna á að samkvæmt yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. lífeyrissjóða er ætlun þeirra sem ráða ríkjum hjá lífeyrissjóðunum að draga úr áhættu sinni á næstunni, a.m.k. á næstu árum, með því að kaupa verðbréf erlendis. Slíkt getur að sjálfsögðu orðið til þess að þrengi um markaðinn hér á landi, einkum og sér í lagi fyrir ríkissjóð. Af þessum ástæðum m.a., ekki eingöngu en m.a., fór ríkisstjórnin fram á það þegar frv. til lánsfjárlaga var lagt fram að hún gæti metið hvort lán yrðu tekin erlendis eða hérlendis. Um þetta mál hef ég fjallað talsvert áður en vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég einungis segja að engin ákvörðun hefur verið tekin um það að selja húsbréf erlendis né heldur að afla fjár til þess að standa undir húsbréfakerfinu eða undir útstreymi úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna. Hins vegar vill ríkisstjórnin hafa nokkurt frelsi til þess að ákvarða þetta og að sjálfsögðu út frá því meginsjónarmiði að lagt yrði sem mest upp úr innlendum sparnaði í þessu efni eins og á öllum öðrum sviðum.
    Hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, taldi að raungengi hefði hækkað um 9% á valdatíma þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þessu hef ég þegar svarað. Ég lét það koma fram fyrr í umræðunni að þetta er misskilningur. Það eru launin sem hækkuðu um 8--9% á sl. ári. Samkvæmt skýrslu sem Seðlabankinn hefur gefið út hefur raungengið breyst á undanförnum árum og örlítið á síðasta ári. Og samkvæmt skýrslunni var raungengi á síðasta ársfjórðungi 1991 svipað á mælikvarða launa og að meðaltali á tímabilinu 1980--1990. Á mælikvarða verðlags var raungengið um 2,5% hærra en meðaltal þessa tímabils. Sé hins vegar horft til skemmri tíma fæst sú niðurstaða að raungengi í árslok 1991 hafi verið 4--5,5% hærra en árið 1990 og þá er lægri talan miðuð við verðlag en sú hærri við laun. Skýringin á hækkun raungengis upp á síðkastið er fyrst og fremst sú að verðlags- og launakostnaður hefur hækkað meira hér á landi en í nágrannalöndunum. Þannig hækkuðu laun á síðasta ári að jafnaði um 9--10% hér á landi en um 5--6% erlendis. Sömuleiðis hækkaði verðlag um 7% hér á landi en um 4,5--5% erlendis. Samkvæmt forsendum fjárlaga má gera ráð fyrir að þróunin snúist við á yfirstandandi ári. Þá er gert ráð fyrir að verðlag og laun hækki minna hér á landi en í nágrannalöndunum og því muni raungengið lækka á nýjan leik um allt að 2--3% sama á hvern mælikvarðann mælt er, laun eða verðlag. Þar með væri staðan orðin svipuð og hún var 1990. Þetta er kannski kjarninn í þeirri stefnu sem nú er rekin. Og ég hygg að víðtækur skilningur sé á að verði verðbólga hér á landi minni en í nágrannalöndunum freistum við þess að raungengið lækki og skapi batnandi samkeppnisskilyrði fyrir íslenska útflutningsatvinnuvegi. Það er í rauninni mikilvægast að skilja þetta atriði og sem betur fer það atriði sem ég hygg að bæði verkalýðsforingjar og fyrirliðar úr atvinnurekendasamtökum hafi lagt áherslu á, þ.e. að kalla fram bætt samkeppnisskilyrði íslensks atvinnurekstrar með þessum hætti fremur en fara þá leið sem oft og tíðum var farin fyrr á árum, þ.e. að fella gengi íslensku krónunnar til að ná sama markmiði en sem því miður hefur ætíð leitt til þess að Íslendingar hafa staðið í sömu sporum og stundum í verri sporum eftir en áður. Eins og hv. þm. sagði er þess vegna hægt að nálgast rétta skráningu gengisins með öðrum hætti en oftast hefur verið lýst, en hv. þm. tók þannig til orða í ræðu sinni að skrá þyrfti gengi íslensku krónunnar rétt.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykn. að ógætilega var talað af hálfu þess sem hér stóð að segja að hæstv. félmrh. stæði fyrir útgáfu húsbréfa. Útgáfan er auðvitað á vegum fjmrn. en það breytir ekki því að svo gott samkomulag er í ríkisstjórninni að við erum ekkert að keppast um að halda því fram hver geri hvað. Þetta hefur breyst upp

á síðkastið eins og hv. þm. hefur kannski tekið eftir þegar hann hlustaði á ræður hæstv. félmrh. ( ÓRG: Það eru nú ekki meðmæli með fjmrh. að gera svona ráðstafanir.) Ég skal koma þessu til skila og til þess að þetta komist nú örugglega í bækur þingsins, þá kallaði hv. 8. þm. Reykn. fram í fyrir mér að það væri ekki meðmæli með fjmrh., ég býst við á hverjum tíma, þeir hafa nú verið ansi margir með félmrh. í ríkisstjórn. Við skulum nú sjá hver þróunin verður á næstu árum og áratugum, hvort samstarf fjmrh. sem hér stendur og félmrh. eigi ekki eftir að skila . . .  (Gripið fram í.) Árum og áratugum, sagði ég. Ég skal endurtaka þetta, það voru ekki mismæli heldur árum og áratugum saman, hvort það kemur ekki til með að skila þeim árangri sem til er ætlast. Við höfum stundum talað saman frú Jóhanna, hæstv. félmrh., og ég. Stundum hef ég talað til hennar eins og fram hefur komið í ýmsum dægurbókmenntum upp á síðkastið. En samkomulagið er ákaflega gott. (Gripið fram í.) Nei, ég hef ekki hugmynd um hvort það er rétt, en ég legg ekki dóm á skáldskap. Það getur vel verið að einhver flugufótur sé til fyrir ýmsu en þegar skáld eiga í hlut á maður ekki að reyna að leiðrétta þau. Eða er það ekki satt, svo maður horfi nú í augu skáldsins sem nú er upptekið við að lesa Time? ( GHelg: Skáld eru eina fólkið sem segir satt.) Ég vona að þetta hafi líka náðst inn í bækurnar, hæstv. forseti. Skáld eru eina fólkið sem segir satt. Þá vitum við öll hin hvað til okkar friðar heyrir. ( ÓRG: Hvaða skáld . . .  félmrh. og fjmrh.?) Eigum við ekki að hinkra aðeins við, hv. 8. þm. Reykn.?
    Hv. 8. þm. Reykn. ræddi hins vegar um gamlar syndir Framkvæmdasjóðs og vildi gjarnan, held ég, eiga orðastað við fleiri en þann sem hér stendur. En hann spurði: Verður þessi skuld Framkvæmdasjóðs gerð upp með þeim hætti sem krafist hefur verið um aðrar svipaðar skuldir í ríkisreikningi? Til þess að gefa upplýsingar sem ég held að nauðsynlegar séu í þessu sambandi vil ég minna á að fjárlög eru á svokölluðum greiðslugrunni. Þannig að einungis það sem greitt er úr ríkissjóði hefur verið sett á fjárlög á undanförnum árum. Hins vegar hefur það verið vaxandi krafa að skuldbindingar ríkissjóðs, þ.e. þegar tekin er ákvörðun um að skuldbinda ríkissjóð fram í tímann, þá ber, á því augnabliki, að setja það inn sem greiðslu eða sem rekstrarútgjöld ríkisins. Það er kallað að setja fjárlög upp á rekstrargrunn. Í fjárlagafrv. á bls. 382--384 er gerð grein fyrir því að ríkisreikningsnefnd svokölluð hafi lagt fram tillögur um breytingu á framsetningu fjárlaga til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á ríkisreikningi. En eins og hv. þm. vita var gerð breyting á framsetningu ríkisreiknings fyrir árið 1989. Í fyrsta lagi er talið nauðsynlegt að sem mest samræmi sé milli ríkisreiknings og fjárlaga. Og í öðru lagi er ekki talið fullnægjandi að áfallnar en ógreiddar skuldbindingar ríkissjóðs séu færðar í ríkisreikningi eftir lok fjárhagsársins.
    Þá er þess einnig getið að ríkisreikningsnefnd hafi lagt til að framsetningu fjárlaga verði breytt þannig að í stað þess að þau séu eingöngu á greiðslugrunni eins og verið hefur verði þau sýnd bæði á greiðslugrunni og rekstrargrunni. Til þess að skýra þetta skal gamalt dæmi rifjað upp sem við þekkjum hér, a.m.k. við sem vorum hér á síðasta kjörtímabili, en það er yfirtaka ríkissjóðs á skuldbindingu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, sem nú heitir Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins, að fjárhæð 1.500 millj. kr. árið 1990. Það ár kemur skuldbindingin að fullu til gjalda í ríkisreikningi. Aftur á móti áttu engar greiðslur sér stað á því ári. En á næstu tveimur árum, þegar lánin koma til greiðslu, verður í fjárlögum árlega sótt um greiðsluheimild til þess málaflokks sem skuldbindingin var færð á. Með því móti er tryggt samræmi í færslu gjalda í greiðsluuppgjöri og rekstraruppgjöri.
    Eins og hv. þm. vita, hefur verið ákveðið að eftir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 verði þau sett fram samkvæmt tillögum ríkisreikningsnefndar en fjárlagafrv. ársins 1993 verður svo undirbúið og sett fram í fullu samræmi við þessar breytingar. Til þess að svara þeirri spurningu sem til mín var beint þýðir þetta að þær 1.700 millj. kr. sem ríkissjóður yfirtekur af Framkvæmdasjóði verða færðar á rekstrargrunninum sem útgjöld á yfirstandandi ári en verða færðar á greiðslugrunninum þegar þær koma til borgunar til þeirra sem eiga að fá greiðslurnar til sín. Eins og fram hefur komið förum við síðan smám saman meira yfir á rekstrargrunninn en ljóst er að í ríkisreikningi kemur þessi upphæð til gjalda. Vona ég að þetta svari fyrirspurn hv. þm. því sem betur fer er nokkur friður orðinn um

það að fyrst um sinn verði sýnd hvor tveggja aðferðin en þegar fram í sækir verði lagt eitthvað meira upp úr því að fjárlög séu á rekstrargrunni.
    Hv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason, ræddi nokkuð um greiðslur til bænda og spurðist fyrir um það hvernig staðið yrði að þeirri frestun sem á sér stað þegar beinar greiðslur til bænda verða ekki kláraðar á yfirstandandi ári heldur færast að nokkru leyti yfir til ársins 1993. Talið hefur verið af hálfu þeirra sem skoða núgildandi lög að beinar greiðslur séu ekki hluti af skráðu afurðaverði þannig að skráð afurðaverð sem greiðast á fyrir 15. des. fer á milli afurðastöðvanna og bænda en beinu greiðslurnar sem auðvitað er hluti af kjörum bænda geti gegnt öðrum lögmálum og þess vegna sé það löglegt á grundvelli núgildandi laga að greiðslurnar eigi sér stað mánaðarlega að ég tel frá 1. mars á yfirstandandi ári og fram í febrúar á næsta ári. Það séu því greiðslur sem fari fram mánaðarlega á heilu ári en ekki einungis á 10 mánuðum eins og hingað til hefur verið gert. Hins vegar skal ég viðurkenna að það kann að vera að ákveðið hlutfall greiðslunnar skuli hafa komið fram á tilteknu tímabili. Það mál verður að sjálfsögðu skoðað. Jafnframt vil ég geta þess að fyrir liggja drög að frv. sem breyta búvörulögunum og að sjálfsögðu verður að gæta þess að þessi háttur sem nú er upp tekinn stangist ekki á við það frv. ef að lögum yrði. Ég vil einnig taka skýrt fram að ekki er verið að skerða beinar greiðslur til bænda til frambúðar heldur einungis að fresta greiðslum til þeirra um sinn.
    Hv. þm. ræddi einnig um önnur atriði og handleiðslu Seðlabanka varðandi vaxtakjör og ýmislegt fleira. Þau mál hafa verið allmikið til umræðu undir öðrum dagskrárlið þegar rætt hefur verið um ríkisfjármálin 1992 og ég ætla ekki að endurtaka það sem þá hefur verið sagt. Ég get ekki fallist á það sem hann sagði í ræðu sinni að ríkisstjórnin hafi fellt tillögur sjútvrh. því að það er rangt. Sjútvrh. lagði fram hugmyndir í ríkisstjórninni og þær fengu afgreiðslu. Langmikilvægustu aðgerðirnar eru að sjálfsögðu aðgerðir sem snúa að fjárlögunum sjálfum og þau hafa verið samþykkt, en ég vil einnig minna á að ríkisstjórnin hefur ákveðið, og forsrh. og fjmrh. hafa undirritað bréf þess efnis, að fresta tilteknum afborgunum í tiltekinn tíma úr atvinnutryggingardeild Byggðasjóðs og gerðar hafa verið ráðstafanir í lánsfjárlagafrv. til að koma til móts við þann aukna kostnað sem af því hlýst. Sömuleiðis hefur hæstv. sjútvrh. beitt sér fyrir því að Fiskveiðasjóður tekur tillit til fjárhagsstöðu þeirra fyrirtækja sem skulda Fiskveiðasjóði. Stjórn Fiskveiðasjóðs, sem auðvitað er sjálfstæð stjórn, hefur samþykkt þær hugmyndir og hefur fallist á að taka eftir ákveðnum reglum tillit til fjárhagsstöðu þeirra fyrirtækja sem skulda sjóðnum. Ég tel að þess vegna hafi verið fallist á það sem er viðamest og mikilvægast í tillögum eða hugmyndum hæstv. sjútvrh.
    Ég ætla ekki að fjalla um ræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar, enda er hann fjarstaddur. Ég get þó ekki á mér setið að þakka honum fyrir þegar hann óskaði mér til hamingju með fyrsta skrefið í vaxtalækkuninni. Ég held að honum hafi þótt skrefið heldur stutt en vil minna hann og jafnframt aðra, og sjálfan mig þar með, á það að löng ferð hefst stundum með stuttu skrefi og allar ferðir hefjast að sjálfsögðu með fyrsta skrefinu eins og segir í gömlum málshætti, líklega kínverskum.
    Hv. þm. Svavar Gestsson sagði frá því að að áliti hans og sjálfsagt margra annarra væri engin ástæða til niðurskurðar. Það mundi veiðast meira af loðnu og rækju og þriðjungur af áfallinu sem við höfum orðið fyrir samkvæmt þjóðhagsspánni mundi ganga til baka. Því miður er það ekki svo þótt við hljótum að fagna því að sem betur fer megi veiða meiri loðnu en gert var ráð fyrir en það hefur ekki þau áhrif sem hv. þm. taldi í ræðu sinni. Hann vék einnig að finnska dæminu og kannski er athyglisvert fyrir okkur að átta okkur á því að landsframleiðslan í Finnlandi dregst saman frá 1992--1993, líklega fjórfalt minna en hér á Íslandi þannig ef við mælum vandann í hagvexti milli áranna 1992 og 1993 þá er sú efnahagslega lægð sem gengur yfir Ísland margfalt minni en sú sem gengur yfir Finnland og skal ég þó ekki gera lítið úr henni og skal ég enn fremur viðurkenna að það er kannski ekki rétt að hafa samanburðinn bundinn við þessi tvö ár. Við megum ekki gleyma því hvernig Finnar hafa tekið á málum sínum og hvaða áhrif sú kreppa sem þeir hafa lent í hafa haft á finnsk stjórnmál og þau úrræði sem þeir hafa gripið til og ætluðu sér að grípa til. Á það hef ég minnst í ræðu minni áður sem fjallaði um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þessi fáeinu orð mín sem hafa verið tilraun til þess að svara að nokkru þeim spurningum sem til mín var beint í þessari umræðu hafi orðið til þess að skýra mál og gefa svör og greiða fyrir því að þetta mál fái greiðan gang í gegnum þingið.