Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 15:39:00 (2984)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Í umræðum hér á dögunum um þetta mál komst ég einhvern veginn þannig að orði að spámenn ríkisstjórnarinnar hefðu fyrir áramót gert ráð fyrir samdrætti í þjóðartekjum upp á 17--18 milljarða kr. og að þær tillögur um niðurskurð hjá ríkinu sem við vorum m.a. að fjalla um hér fyrr í dag byggðust á þessum forsendum. Í framhaldi af því bendi ég á að núna á síðustu vikum hafa verið að koma í ljós upplýsingar sem breyta þessari mynd í grundvallaratriðum. Í fyrsta lagi er það auðvitað loðnan, í öðru lagi sú staðreynd að rækjuveiðiheimildir eru auknar og í þriðja lagi sú staðreynd að verð á olíu fer lækkandi. Þetta þrennt gerir það að verkum að við því er að búast að staða þjóðarteknanna sé um þriðjungi skárri en tapið nam sem menn reiknuðu með fyrir örfáum vikum. Þessar staðreyndir notaði ég sem röksemdir fyrir því að ekki væri ástæða til þess að grípa til jafnharkalegra niðurskurðarráðstafana og þeirra sem ríkisstjórnin er nú að grípa til, það væru engin rök fyrir því. Það var ekki að ég teldi ekki þörf á því að spara og fyrir utan þá staðreynd hefur Alþb. auðvitað oft bent á það að í þeim þrengingum sem nú ganga yfir þjóðarbúið eiga menn að sækja peninga til fjármagnseigenda og til hátekjumanna í þjóðfélaginu en ekki til lágtekjuellilífeyrisþega eins og nú er verið að gera. Þess vegna er það rangt hjá hæstv. fjmrh. að ég hafi haldið því fram að það væri óþarfi að spara en ég benti á að forsendurnar sem hæstv. ríkisstjórnin hefur fyrir sparnaðinum eru þegar gerbreyttar frá því sem gert var ráð fyrir fyrir örfáum vikum og sú staðreynd breytir auðvitað möguleikum launafólks í landinu til þess að sækja til baka þá skerðingu á lífskjörum sem verið er að knýja í gegnum Alþingi núna og Alþýðusambandið telur að nemi um 2% að meðaltali. Það er skerðing sem þarf auðvitað að hrekja til baka.