Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 15:45:00 (2987)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Aðeins eitt. Við megum ekki gleyma því að ríkisstjórnin sem situr að völdum hefur ekki gengið lengra en svo að það er gert ráð fyrir því að halli á ríkissjóði í ár sé milli 4--5 milljarðar. Það er gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn verði um 15 milljarðar. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að við erum meira að segja í ár þrátt fyrir allan niðurskurðinn að auka skuldir okkar erlendis og erum að reka ríkissjóð með verulegum halla vegna þess að við teljum að það sé óheppilegt, óæskilegt og ekki sé hægt að bjóða fólki hér á landi upp á frekari niðurskurð. Við ákváðum að fara ekki lengra, en við munum þá líka hafa skilning sem flestra á því að okkur ber í versnandi árferði að viðurkenna öll sömul, allir þingmenn í öllum stjórnmálaflokkum, að nauðsyn er að grípa til þeirra aðgerða eða samsvarandi aðgerða og núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir.