Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 15:47:00 (2988)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vitnaði í ummæli mín varðandi það að raungengi íslensku krónunnar hefði hækkað um 9% á tveimur árum. Hann taldi að hér væri ofsagt. Þessi frétt var í Dagblaðinu og vissulega er rétt að miðað var við laun þegar sú fullyrðing er sett fram og í sömu grein er viðtal við Gunnar Svavarsson, formann Félags ísl. iðnrekenda.
    Ég ætla ekki að deila um það hvort fullyrðingin sem hér er sett fram sé nákvæmlega sú rétta eða hvort sú fullyrðing sem hæstv. fjmrh. var með upplýsingar um sé nákvæmlega sú rétta. Hitt er staðreynd að á sama tíma og viðskiptahalli við útlönd er upp á 18 milljarða sl. ár hefur ríkisstjórnin hækkað vextina en haldið þannig á málum að íslenskur samkeppnisiðnaður og útflutningsiðnaður hefur verið að gefast upp. Við erum að minnka þjóðartekjur Íslendinga með þeirri stefnu sem verið er að framkvæma. Það er verið að auka kreppuna í landinu. Það er verið að fækka þeim störfum sem hægt er að vinna innan lands. Hæstv. fjmrh. gerir sér ekki grein fyrir því að þetta mun bitna á honum fyrstum vegna þess einfaldlega að íslenska ríkið lifir á því að það sé velta og umsvif í íslensku samfélagi. Ef hann dregur úr veltunni þá minnka tekjur ríkissjóðs. Niðurstaðan er þess vegna sú að aðgerðir núv. stjórnar stuðla ekki að því að rétta við stöðu ríkissjóðs, þær munu stuðla að því að ríkissjóður fari verr en ella.