Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 16:14:00 (2994)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin en hins vegar brá hann sér í hlutverk bókmenntagagnrýnandans og svörin voru aðallega um það hvort grein bankastjóra Landsbankans væri vel eða illa skrifuð. Bankastjóri Landsbankans er ágætleg ritfær og það er hæstv. forsrh. líka --- ég get borið um það --- og auðvitað er nauðsynlegt að fá þá bókmenntagagnrýni hér í ræðustól. Hins vegar voru engin svör um það sem ég spurði um og rennir það stoðum undir það að þetta mál er náttúrlega allt í lausu lofti og ekkert hefur gerst í málinu þrátt fyrir þessa fréttatilkynningu. Auðvitað rennir það stoðum undir það að allt er þetta farsi og það hefur verið nefnd skipuð í málið. Þá er ljóst að síldarvertíðinni lýkur án þess að nokkur sala verði á þennan markað og var það svo sem við búið þegar slíkur vandræðagangur er að hvorki ríkisstjórnin né Landsbankinn hefur unnið að því að klára þetta mál og benda hver á annan eins og kom svo berlega í ljós í svörum hæstv. forsrh. Ég mun draga ályktanir mínar um þá tillögu sem liggur fyrir hér í samræmi við þetta.