Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 18:04:00 (3002)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Þá vitum við að Bush Bandaríkjaforseti er að reyna að hafa áhrif á efnahagsþróunina í Bandaríkjunum vegna kosninganna en ekki til þess að snúa henni til betri vegar. En það kom mjög á óvart hjá hæstv. fjmrh. þegar hann lýsti því yfir að fjármálaráðherrar í ríkisstjórn Íslands væru tíu. Ég skil það þá þannig að hver og einn ráðherra sé fjármálaráðherra í sínum málum og við munum að sjálfsögðu haga málflutningi okkar hér á Alþingi með tilliti til þess þannig að að því er landbrh. varðar þá á ekki að ræða það við hæstv. fjmrh. heldur landbrh. sjálfan.
    Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir margt sem hann hefur sagt hér. Hann hefur upplýst að því er varðar arðgreiðslur að hér sé um tilmæli að ræða, áætlanir, og það muni þurfa að breyta lögum. Samkvæmt þessu ber viðkomandi aðilum ekki að greiða þessi gjöld nema þeir sjálfir kjósi að gera það eða þá að lögum verði breytt.
    Í öðru lagi vil ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að staðfesta það í fyrsta skipti að hækka eigi skatta á barnafólki sérstaklega. Hann hefur nú loksins viðurkennt það sem ég tel verulegan árangur og staðfesta að það var ástæða til að flytja þessa ræðu alloft yfir honum.
    Ég er honum sammála um það að ástæða er til að kanna til fullnustu hvort rétt sé að breyta fjárfestingarlánasjóðunum en þá á að undirbyggja það, hæstv. fjmrh., en ekki að byrja á því að tilkynna það og fara síðan í undirbúning málsins. Þannig á að vinna mál en því miður hefur hæstv. ríkisstjórn unnið flest mál sín þannig að fyrst er gefin út yfirlýsing og síðan er farið að skoða málið. Í reynd er þessi lögfesting á yfirlitinu í fjárlögunum dæmi um slíkan málatilbúnað.