Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 18:16:00 (3009)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Það væri dálítið fróðlegt að fá hv. þm. til að segja okkur hér hvað hann teldi að launamenn ættu að fá í kauphækkanir, í peningalaunahækkanir sem hann var að minnast

á áðan. Ég held að miklu skynsamlegra sé að gera það sem ríkisstjórnin er að gera þegar hún segir: Nú skulum við geyma okkur krónutöluhækkanir og einbeita okkur frekar að því að koma verðlaginu niður, koma því niður fyrir það stig sem gengur og gerist í nágrannalöndunum.
    Af því að minnst var á verðhækkanir og kjaraskerðingu þar að lútandi vil ég geta þess að samkvæmt spám sem nú liggja fyrir, (Gripið fram í.) já, skattahækkanir, gjaldahækkanir alls konar, þá mun framfærsluvísitalan á þessu ári lækka út árið. Meira að segja er það svo, ef fram gengur sem horfir og fylgt verður forsendum fjárlaganna um verðlag og kaupgjald --- við skulum hafa það allt saman eins og það er --- að þá mun Ísland komast í hóp þeirra tíu Evrópuþjóða sem hafa lægstu verðbólgu. Ég held að með þeim hætti mundum við ná því að verja kaupmáttinn eins og við þurfum og þannig takist okkur að verja kaupmáttinn betur en ef um beinar krónutöluhækkanir væri að ræða. Ég vonast til þess að flestir séu sammála um það.