Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 18:55:00 (3012)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. féll nú í viðjar frjálshyggjunnar og fór með hefðbundnar klisjur um að ríkið ætti að draga saman og skapa pláss fyrir aðra aðila. Þetta höfum við heyrt þúsund sinnum áður. Það var reyndar enginn að tala um að ríkið ætti að fara að setja í gang einhver stórkostleg plön til að hleypa nýju lífi í atvinnulífið þ.e. sem beinn gerandi í þeim efnum. Að fara að setja á fót ríkisfyrirtæki eða annað því um líkt. Ég veit ekki hvar í ósköpunum hæstv. fjmrh. hefur heyrt það. Hins vegar þarf ríkið að reyna að reka framsækna efnahagsstefnu og reyna að telja í menn kjark til að reyna að takast á við ný verkefni í atvinnulífinu, ekki frysta allt fast og kveða allt niður í allsherjarsvartsýniskast, eins og hér hefur gerst. Meðal annars með því að reyna að halda vaxtastiginu lágu þannig að menn þori að taka eitthvert fé að láni eftir atvikum ef þeir telja sig vera með ábatasamar hugmyndir til nýsköpunar í atvinnulífi í höndunum eða annað því um líkt. Og byrðarnar af þeim skuldum sem á fyritækjunum hvíla fyrir séu ekki gjörsamlega að drepa þau eins og er í dag.
    Það er eðlilegt að hæstv. fjmrh. reyni að einangra sífellt út úr umræðunni þátt ríkisins í því að halda hér uppi háum vöxtum. Hann benti á hina tvo óvissuþættina sem ég gerði að umtalsefni en ég tók þá alla þrjá með, hafði háa vexti á ríkisskuldabréfunum þarna með. Það er beinlínis broslegt og hlægilegt að heyra hæstv. fjmrh. reyna að halda því fram að vextirnir á ríkisskuldabréfunum hafi þarna engin áhrif. Af hverju er það? Jú, það er af þeirri augljósu staðreynd að frá og með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka þessa vexti um 2% sl. vor þá hafa þeir verið 7,9% og 8,1%. Það eru sömu vextir og lægstu útlánsvextir bankanna á verðtryggðum lánum, svonefndir kjörvextir. Þeir eru í dag frá 8% í Búnaðarbanka, um 8,25% hjá sparisjóðunum og upp í 8,5% hjá Landsbanka og Íslandsbanka. Og það er alveg augljóst mál, hæstv. fjmrh., að bankarnir fara ekki með lægstu útlánsvexti niður fyrir innlánsvexti ríkisins. Þeir vilja viðhalda þessum mun á kjörunum til sinna bestu viðskiptavina, þ.e. kjörvöxtunum, og til hinna sem meiri áhætta er fólgin í að eiga viðskipti við. Af þessum sökum er þetta vaxtabotninn. Kjörvextirnir eru þarna á sama grunni og vextir spariskírteina ríkissjóðs og munu ekki fara neðar fyrr en hæstv. fjmrh. lækkar vextina hjá sér.