Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 19:30:00 (3019)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Nokkuð er um liðið síðan ég tók til máls í þessu máli. Það var við 1. umr. þess og allnokkrar breytingar hafa orðið á frv. frá því sem þá var. Að sumu leyti hafa verið dregnar til baka þær róttæku breytingar sem lagðar voru fram en engu að síður er um að ræða verulega breytingu á þessum lögum. Hins vegar er ljóst að umtalsverðar breytingar hafa orðið eða munu verða á núgildandi lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins verði þetta frv. að lögum eins og það lítur út núna. Í ljósi bráðabirgðaákvæðis II í núgildandi lögum og í lögum um stjórn fiskveiða, um lögbundið samráð við Alþingi og hagsmunaaðila, sjáum við hvaða virðingu stjórnarflokkarnir bera fyrir lögum. Það verður því miður að segjast að hún er ákaflega lítil. Og þegar þetta er skoðað í því ljósi að stjórnarflokkarnir hafa tekið endurskoðun fiskveiðistefnunnar út úr hinum lögskipaða farvegi yfir í farveg utan þings og eingöngu milli þessara tveggja flokka, þá er ljóst að þeir hafa rofið alla viðleitni og þá niðurstöðu sem menn komust að á sínum tíma til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu um skipan á stjórn fiskveiða. Meira að segja er svo langt gengið að menn hafa ekki einu sinni viðleitni um að samráð séu á milli aðila í þeirri von að slíkt samráð leiddi til einhverrar sameiginlegrar niðurstöðu. Það er ekki einu sinni það.
    Maður hlýtur að spyrja sig hver sé tilgangurinn með þessu frv., sem lögð hefur verið mikil áhersla á að keyra í gegn, í ljósi þess að stjórnarflokkarnir ætla sér að vera búnir að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða fyrir árslok sem þýðir að slík endurskoðun tæki gildi við upphaf næsta fiskveiðiárs á eftir, þ.e. 1. sept. 1993. Það þýðir að þessi lög mundu einungis gilda í eitt fiskveiðiár, frá byrjun september 1992 til ágústloka 1993. Hver er tilgangurinn að gera svo viðamiklar breytingar á þessum lögum fyrir bara eitt ár? Það er ekki svo margt sem kemur til greina ef maður veltir því fyrir sér. Í fyrsta lagi, sem er augljóst og er meginhvati breytinganna, er það til þess að afla fjár í ríkissjóð. Eins og hæstv. ráðherra hefur sjálfur komist að orði: Hér er um að ræða ríkisfjármálaaðgerð þar sem fjárins er aflað með sölu veiðileyfa með aðferð sem Sjálfstfl., flokkur hæstv. sjútvrh., lýsti yfir mikilli andstöðu við fyrir tæpum tveimur árum. ( Gripið fram í: Þá var hann í stjórnarandstöðu.) Já, þá var hann í stjórnarandstöðu og minnir það á hvernig ýmsar aðrar skoðanir ráðherrans hafa breyst frá því hann var í stjórnarandstöðu og fer ég ekki út í þá sálma. Þetta sýnist mér vera megintilgangur laganna af hálfu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að afla fjár í ríkissjóð. Og þegar menn einu sinni eru byrjaðir á því er hætt við að seint gangi að snúa til baka með það þannig að ég leyfi mér að draga þá ályktun að í því frv. sem stjórnarflokkarnir munu koma sér saman um að leggja fyrir þingið um nk. áramót verði gert ráð fyrir að veiðileyfi verði seld til að afla ríkissjóði tekna og tilhneigingin hlýtur að verða fremur í þá átt að auka við þennan þátt fremur en minnka. Þar með eru menn komnir út á þá braut að fara að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega til að standa undir útgjöldum ríkissjóðs. Þetta er megintilgangur þessa frv. sem er ætlast til að verði afgreitt hér á morgun.
    Það er ýmislegt fleira sem ástæða er til að gera athugasemdir við. Ég hef reyndar komið því flestu á framfæri við 1. umr. og vísa ég til þeirrar ræðu sem ég flutti þá. Ég vil undirstrika það sem fram kom hér áðan hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að menn verða að gera grein fyrir tilgangi úreldingar í aflamarki. Ef það er niðurstaða stjórnarflokkanna að leiðin til að minnka fiskiskipaflotann sé að hafa sjóð sem kaupi skipin út þá bendi ég á að þessir sömu stjórnarflokkar leggja mikla áherslu á að það þurfi að fækka frystihúsum um land allt. ( ÖS: Stefán Guðmundsson líka, ef ég skil hann rétt.) Hvers vegna leggja þá þessir sömu flokkar ekki fram tillögu um úreldingarstyrk í frystihúsum? Það er ekki hægt með rökréttum hætti að halda þessu fram eins og núverandi stjórnarflokkar gera því að ef eitthvað er þá eru fiskiskipaeigendur betur settir að losa sig við sín skip og fá verðmæti fyrir en frystihúsaeigendur því að frystihús úti á landi er verðlaust. Það er enginn sem kaupir það. Ef menn eru á þeirri skoðun að úreldingarsjóður verði að vera fyrir fiskiskip geta menn ekki komist hjá því að vera á sömu skoðun varðandi frystihús og ég óska eftir því að fulltrúar stjórnarliðsins í þessu máli rökstyðji hvers vegna þeir gera ekki ráð fyrir hinu sama varðandi frystihúsin. Þvert á móti, það sem maður hefur heyrt frá stjórnarliðinu um þetta eða öllu heldur hæstv. forsrh. er að menn eigi að fara á dúndrandi hausinn. ( Gripið fram í: Þú vilt leggja á nýjar álögur.) Ja, ég vil fá rökstuðning stjórnarliðsins fyrir þeirri afstöðu að vera frekar með úreldingarstyrki þeim megin sem er auðveldara að gera sér verðmæti úr eigninni.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, ekki hafa fleiri orð um þetta frv. sem hér liggur fyrir en ítreka almenna andstöðu mína við þessi áform og lýk máli mínu, virðulegi forseti.