Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 19:47:00 (3021)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það kemur skýrt fram í stefnu þessarar ríkisstjórnar, m.a. í ræðum hæstv. forsrh. og vísa ég fyrst og fremst til framsöguræðu hans fyrir frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992, að eitt af því brýnasta að hrinda í framkvæmd strax er að fækka vinnslustöðvunum. Fyrst núv. ríkisstjórn telur á annað borð ástæðu til að breyta lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins þá er óeðlilegt annað en hún geri það til að ná þá þeim markmiðum sínum. Ég vek athygli á því að þessi lög heita lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins en ekki fiskveiða. Sjávarútvegurinn nær ekki einungis til fiskveiða heldur líka vinnslu. Með því að ekki er lagt til í þessum brtt. stjórnarflokkanna að taka upp úreldingarstyrkjakerfi á fiskvinnslustöðvum er ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar að gera slíkt, hvorki nú né síðar því þessi hagræðing á að fara fram núna strax en breytingar varðandi stjórn fiskveiða, sem er verið að endurskoða á vegum stjórnarflokkanna, tekur gildi í fyrsta lagi 1. sept. 1993. Ég get þannig ekki dregið þá ályktun að stjórnarflokkarnir hafi áform um að taka slíkt kerfi upp með þeirri breytingu svo að niðurstaðan verður sú að stjórnarflokkarnir ætla ekki að stuðla að fækkun vinnslustöðva með sama hætti og þeir hugsa sér að stuðla að fækkun fiskiskipa.