Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:27:00 (3031)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hér er ekki spurt um skilning heldur staðreyndir. Það er alveg ljóst að í stefnuskrá Kvennalistans er tekið fram að 20% allra veiðiheimilda sem veittar eru eigi að renna í sérstakan sjóð. Síðan eigi að leigja eða selja eða ráðstafa með einhverjum hætti þessum veiðiheimildum. Það þýðir þá að koma á afgjald fyrir, a.m.k. fyrir hluta þeirra. Þessu afgjaldi á að verja til hafrannsókna. Með öðrum orðum, þetta er veiðigjald í mun ríkari mæli heldur en þau 3% veiðiheimildanna sem fyrirhugað er að leigja með því frv. sem nú liggur fyrir um Hagræðingarsjóðinn. Engum blöðum er um það að fletta að Kvennalistinn er fylgjandi því að hluti veiðiheimilda verði seldur og afgjaldinu varið til hafrannsókna. Það er nákvæmlega þetta sem er gert með Hagræðingarsjóðnum. Með öðrum orðum: Kvennalistinn hlýtur að vera fylgjandi veiðigjaldi.
    Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson skrifar hins vegar án fyrirvara undir minnihlutaálit sjútvn. Þar er tekið fram m.a. að ein af ástæðunum fyrir því að minni hlutinn er á móti þessu sé sú að þar er stefnt að veiðigjaldi. Þar er sem sagt stefnt að því sem Kvennalistinn vill. Hér er um hreina hentistefnu að ræða og ekkert annað. Auðvitað ætti viðkomandi kvennalistaþingkona að biðja stallsystur sínar og kjósendur afsökunar á þessum mistökum og segja það bara hreint út hér í ræðustól að þetta hafi verið glöp.