Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:50:00 (3036)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Þetta segir okkur bara eitt og það er að ekki er hægt að koma til móts við byggðarlög sem lenda í erfiðleikum ef fiskmarkaðir eru á staðnum. (Gripið fram í.) Mig langar þá að fá betri útskýringar á því með hvaða hætti menn ætla að standa að því. Vegna þess að sú útgerð sem fær þetta í hendurnar þarf að fá markaðsverð fyrir fiskinn. Hún kaupir hann á markaðsverði og hún kaupir aflaheimildirnar á gangverði og hún hlýtur því að þurfa a.m.k. sama arð og aðrar útgerðir sem eru á sama tíma að selja á markað. Og mig langar virkilega að vita hvernig menn ætla sér að standa að þessu í reynd, hvernig þeir ætla að útfæra þær aðferðir við að selja aflann eða koma honum til vinnslu fram hjá markaði sem fyrir hendi er.