Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 10:13:00 (3050)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Með breytingum á lögum um Hagræðingarsjóð er, eins og hæstv. utanrrh. Jón Baldvin hefur orðað það, kominn fyrsti vísir að komandi veiðileyfagjaldi. Hæstv. sjútvrh. upplýsti það einnig á fundi sjútvn. 15. þessa mánaðar að þessi gjaldtaka

væri komin til að létta á ríkissjóði og sem aðgerð ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Því hefur verið haldið fram að þessi gjaldtaka væri til að styrkja hafrannsóknir. Ef fjárlög áranna 1991 og 1992 eru borin saman kemur í ljós að um nær enga hækkun er að ræða á þessum lið á milli ára þannig að sá málflutningur stenst ekki.
    Þess er einnig að geta að sú aðstoð sem áður var við byggðarlög sem orðið höfðu fyrir verulegum skakkaföllum er nú felld út.
    Í lögunum um Hagræðingarsjóð frá 5. maí 1990 var um lokaðan sjóð að ræða sem virkaði hvetjandi fyrir sjávarútveginn í heild. Hlutverk sjóðsins var fyrst og fremst að auka arðsemi innan sjávarútvegsins sjálfs. Það að taka rentuna af fiskveiðunum og færa til ríkissjóðs til samneyslu í þjóðfélaginu eins og nú á að gera er auðlindaskattur sem ætlunin er að leggja á þá atvinnugrein sem dregur á veisluborð þessarar þjóðar yfir 80% af útflutningstekjum hennar. Hér er farið inn á ranga og hættulega braut í skattheimtu. Því segi ég já við því að vísa þessari tillögu frá.