Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 11:56:00 (3065)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er verið að brjóta grundvallarreglur að því er varðar eftirlit og stjórnun stofnana. Starfssvið þessara tilsjónarmanna samkvæmt frumvarpstextanum er í fyrsta lagi að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana. Þessir tilsjónarmenn eiga að skipuleggja bókhaldið, hafa eftirlit með bókhaldinu. Þeir eiga að skipuleggja fjárhagsáætlanir og hafa eftirlit með fjárhagsáætlunum. Þetta er verksvið sem aðrar eftirlitsstofnanir ríkisins hafa samkvæmt lögum og samkvæmt venjum. En það er ekki nóg með að tilsjónarmennirnir eigi að gera þetta því að síðan segir í frumvarpstextanum: ,, . . .  og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um umfang starfsmannahalds . . .  `` Þeir eiga ekki eingöngu að hafa eftirlit og skipuleggja allt reikningshald, heldur eiga þeir líka að taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar og umfang starfsmannahalds. Þeir hafa sem sagt allsherjarvald þar sem öllu er hrært saman.
    Það er með ólíkindum að meiri hluti Alþingis skuli brjóta með þessum hætti allar hefðir í sambandi við framkvæmd slíkra mála og jafnvel þótt nokkrar lagfæringar hafi verið gerðar eru þær alls ekki nægilegar. Ég segi því nei.