Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 12:27:00 (3073)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Tekjur sveitarfélaga dragast saman með sama hætti og tekjur ríkissjóðs þegar samdráttur er í þjóðfélaginu. Ég vil minna á það að þegar verkaskipting var ákveðin fyrir tveimur árum milli ríkis og sveitarfélaga, þá tóku sveitarfélögin að sér tiltekin verkefni og fengu til þess ákveðna tekjustofna.
    Tekjur sveitarfélaga á árinu 1990 voru minni en útgjöld þeirra. Þau áttu ekki fyrir útgjöldum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að bæta á sveitarfélögin 750 millj. kr. útgjöldum til viðbótar. Auk þess hvíla á sveitarfélögunum mörgum hverjum lögbundnar kvaðir um úrbætur í umhverfismálum og í sumum sveitarfélögum neyðast menn til að verja stórfé til atvinnumála til að halda þar uppi einhverri sómasamlegri atvinnu. Ég segi því, virðulegi forseti, nei.