Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:21:00 (3076)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Á fyrra ári fóru sem kunnugt er fram samningaviðræður EFTA við Evrópubandalagið um myndun Evrópsks efnahagssvæðis. Tvisvar sinnum var okkur kynnt að niðurstaða væri fengin í þeim umræðum og því lýst af talsmönnum ríkisstjórnarinnar sem íslenskum stórsigri. Við nánari könnun kom í ljós að samningsdrögin voru ekki eins tvímælalaus stórsigur fyrir Íslendinga og hæstv. utanrrh. vildi vera láta og eftir því sem samningsdrögin hlutu nákvæmari skoðun í utanrmn. og annars staðar komu fleiri og fleiri annmarkar í ljós. Samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi dró til baka stuðningsyfirlýsingu sína við þessi samningsdrög af þessum sökum. Ég varð þess var í vetur þegar ég hafði tækifæri til að hitta þingmenn frá Evrópuþinginu að þeir töldu samninginn eiga miklu lengra í land en okkur hafði verið sagt hér heima og Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fyrirliggjandi samningsdrög samrýmdust ekki Rómarsáttmálanum og slógu þar með á hendur EFTA-ríkjanna.
    Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins þann 20. jan. var viðtal við hæstv. forsrh. um þetta efni. Þar sagði hann að enginn vafi væri á því að afskaplega þungt væri fyrir fæti í þessum samningum og síðan orðrétt: ,,Þannig að ef við horfum á málið í dag, þá er það ekki bara tvísýnt. Það er flest sem bendir til þess að við séum komir þar í afskaplega þrönga stöðu.`` Fréttamaðurinn spyr hvort það megi telja kraftaverk ef takist að semja úr þessu. Og hæstv. forsrh. svarar: ,,Já, það væri að mínu viti kraftaverk ef það gengi fram og ástæðurnar eru kannski margar.``
    Í tilefni þessara ummæla vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Eru ummæli hæstv. forsrh. mat ríkisstjórnarinnar á stöðu málsins? Hvað hyggst þá ríkisstjórnin gera? Vonandi hefur hæstv. ríkisstjórn engin áform á prjónunum um að sækja fyrir Íslands hönd um aðild að Evrópubandalaginu. Ég vona að hér séu allir sammála um að slíkt komi ekki til greina og þá spyr ég: Er ekki tímabært að hefja nú þegar undirbúning að tvíhliða viðræðum um viðskiptasamning við Evrópubandalagið?