Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:24:00 (3077)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Þau ummæli sem ég lét falla í þessum efnum og málshefjandi vitnaði til eru auðvitað mitt mat á stöðunni. Ég geri ekki í sjálfu sér ráð fyrir því að neinn ágreiningur sé um það mat meðal ráðherra í ríkisstjórninni. Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hafði 15. og 16. des. sl. gefið til kynna að reynt yrði að vinna í þágu samningsaðilans við Evrópubandalagið, EFTA-ríkin, með þeim hætti að sú dómsumsögn sem Evrópudómstóllinn gaf mundi ekki koma í veg fyrir það að samningar gætu gengið fram. Ég vona að enginn velkist í vafa um það að ég tel afskaplega mikilvægt að slíkir samningar nái fram að ganga.
    Mér hefur þótt sem þær yfirlýsingar hafi ekki gengið eftir og mér hefur þótt sem þær hugmyndir sem helst hafa verið í gangi og í rauninni ganga í þá áttina að auka vægi Evrópudómstólsins eða a.m.k. minnka vægi EES-dómstólsins séu til þess fallnar að skapa okkur mjög mikla erfiðleika. Ég vona auðvitað enn að pólitísk lausn fáist í málinu en mér hefur þótt því miður að við höfum engin tákn séð um það að slík lausn sé í sjónmáli.
    Við sjáum líka að EFTA-ríkin eru hvert af öðru að ganga hraðar þann veg að sækja um beina aðild að þessu bandalagi og hugsanlega gætu flest EFTA-ríkin fellt sig við þessa breytingu sem umsögn EB-dómstólsins leiðir til, nema helst við og Norðmenn. Það hefur yfirleitt verið mat íslenskra lögfræðinga að það fyrirkomulag sem var á EES-dómstólnum mundi ekki stangast á við íslenska stjórnarskrá en það mál hlyti að koma til endurmats ef það sigldi í það far sem Evrópudómstóllinn í raun vildi leggja samningsviðræðunum með sinni dómsumsögn.