Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:35:00 (3081)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. segir að hann sé nú orðinn svartsýnn á að hugmyndir um EES verði að veruleika. Hann segir einnig að það sé hans mat að erfitt verði

fyrir Íslendinga að samþykkja aukið vægi EB-dómstólsins. Þetta þykja mér ágætar fréttir ef réttar eru og kom mér raunar á óvart því að ég hefði ekki orðið undrandi á því þótt EFTA-löndin og þeir sem fara með samningsumboð fyrir hönd EFTA-landanna mundu samþykkja hverja þá niðurstöðu sem EB legði fram í dómstólamálinu. Svíar og Austurríkismenn segjast líta á EES sem stökkpall inn í EB og sama má segja um þá sem ráða ferðinni bæði í Noregi og Finnlandi. Málflutningur ýmissa þeirra sem sæti eiga í ríkisstjórn Íslands, ég á þar kannski sérstaklega við hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. þó að aðrir hafi e.t.v. gefið eitthvað í skyn, hefur verið með þeim hætti að þeir telji, eins og aðrir, að EES sé stökkpallur inn í EB. Þess vegna hafði ég fremur reiknað með því að hæstv. utanrrh. hefði samþykkt hvað eina sem EB byði fram sem lausn á þessu máli. Ég byggi það sérstaklega á því að hér áður fyrr taldi hæstv. utanrrh. að dómstóllinn væri mjög mikilvægur fyrir Íslendinga og talaði fjálglega um það bæði hér úr þessum ræðustól og í fjölmiðlum að mjög mikilvægt væri fyrir Ísland að þessi dómstóll yrði settur á. En um leið og ljóst var hver niðurstaða EB-dómstólsins var, þ.e. að þessi drög yrðu ekki samþykkt og dómastólakaflinn fengi ekki að standa óbreyttur, þá kom það fram hjá utanrrh. í fjölmiðlum að dómstóllinn skipti í raun engu máli fyrir land eins og Ísland. Ég bjóst því fremur við því að það svartsýnistal sem nú hefur borið á hjá ríkisstjórninni væri einungis til þess fallið að hægt væri að tala um stórsigur þegar einhver bastarður kæmi sem lausn frá EB í þessu máli.