Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:43:00 (3084)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. þau svör sem hann veitti. Ég skil það svo að mat hans sé mat ríkisstjórnarinnar og ég sé ástæðu til þess að hvetja ríkisstjórnina til þess að hefja nú þegar raunhæfan og skipulagðan undirbúning að viðræðum um tvíhliða viðskiptasamning Íslands og EB. Ákvæðin um EES-dómstólinn voru yfirdrifið nógu óhagstæð fyrir Íslendinga í samningsdrögunum frá því rétt fyrir jólin þar sem skipan dómsins var sú að þrír dómarar voru frá EFTA-hliðinni á móti fimm dómurum frá EB og hagsmunir EB hefðu þá átt að vera tryggðir. Hefði verið meiningin að þessi dómstóll starfaði á jafnréttisgrundvelli og dæmdi eftir gildandi reglum hefði auðvitað verið nægilegt að dómararnir væru jafnmargir frá hvorri hlið.
    Ég vil líka láta það koma fram að ég tel að við meðferð málsins hafi það verið ámælisvert að greina ekki utanrmn. og Alþingi rétt frá stöðu málsins, greina Alþingi, utanrmn., hagsmunaaðilum og þjóðinni allri frá hinni raunverulegu stöðu málsins. Ekki var greint skilmerkilega frá því að Evrópubandalagið hefði endanlega neitað að taka við langhala og endurgjald yrði að vera karfi. Því má bæta við og undirstrika að sú loðna sem við höfum fengið í skiptum fyrir þennan karfa hefði á nokkrum undanförnum árum einungis verið pappírsfiskur. Þá fer að nálgast það að við færum að brjóta þau prinsipp sem við höfum haldið fast við í þessari samningagerð allri, að veita ekki einhliða aðgang að fiskimiðum fyrir tollaívilnanir.