Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:48:00 (3086)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Spurningin um örlög samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er þessi: Getur Evrópubandalagið staðið við þann samning sem það hefur gert og fullnustað hann? Svar við þeirri spurningu liggur ekki fyrir og meðan svo er, þá er hann í tvísýnu og það er óvissu undirorpið hvort samningurinn tekst endanlega og verður hrundið í framkvæmd.
    Á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda, sem var hér næstliðna daga, var þetta meginmál umræðna. Þar spurðum við utanríkisráðherrar EFTA-ríkja utanríkisráðherra Danmerkur, sem sæti á í ráðherraráði Evrópubandalagsins, fyrst og fremst eftirfarandi spurninga:
    Hvert er þitt mat á því hvernig skilja beri samningsstirfni framkvæmdastjórnar EB varðandi lausn á dómstólsmálinu? Ber okkur að skilja það sem skilaboð um breyttar pólitískar áherslur? Ber að skilja það á þann veg að áhugi Evrópubandalagsins hafi nú minnkað á því að standa við samningsskuldbindingar sínar? Ber að skilja það svo að þau öfl innan EB, sem að sjálfsögðu eru fyrir hendi og sem vilja frekar fjölga aðildarríkjum en efna þennan samning, séu að verða ofan á? Hefur fjölgun yfirlýsinga um hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu þannig styrkt stöðu þeirra innan EB sem eru andvígir EES-samningnum?
    Svar danska utanríkisráðherrans var efnislega þetta: Ég hef engar upplýsingar í höndum sem renna stoðum undir þessa túlkun og tel hana ósennilega vegna þess að þau ríki innan EB sem andstæðust eru EES-samkomulaginu eru jafnframt þau hin sömu sem hafa lýst andstöðu við fjölgun aðildarríkja.
    Virðulegur forseti. Því miður gefst ekki tími til að segja miklu meira en að gefu tilefni vil ég taka það fram vegna fyrirspurnar hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að á leiðtogafundi jafnaðarmanna á Norðurlöndum í Stokkhólmi 14. og 15. jan. gerði ég að sjálfsögðu grein fyrir afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar með nákvæmlega sama hætti og ég gerði hér á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, þ.e. að ríkisstjórn á Íslandi hefði engin áform uppi um umsókn að Evrópubandalaginu. Hins vegar var ég farinn af fundi þegar fréttamannafundur var og veit ekki hvað þar fór fram af hálfu annarra.