Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:52:00 (3087)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. utanrrh. dregur hér til baka það sem fram hefur komið í norrænum blöðum varðandi þennan fund leiðtoga krataflokka. Ég held að ástæða væri til þess fyrir hæstv. utanrrh. að gefa yfirlýsingu þannig að fréttir berist einnig til Norðurlanda um að hann sé ekki einn í þessum hópi því að auðvitað geta fregnir af svona vettvangi haft áhrif á þróun mála. Það er auðvitað þáttur í því sem er að gerast í þessum efnum er að EFTA-ríkin eitt af öðru eru að búa sig undir að sækja um aðild eða hafa þegar gert það. Síðustu fregnir frá Noregi sem menn hafa metið svo að yrði seint á ferðinni með að sækja um aðild eru þær að forsætisráðherra Noregs er farinn að tala mjög opinskátt um það að Norðmenn eigi að slást í hópinn, hóp þeirra EFTA-ríkja sem sækja um aðild að Evrópubandalaginu og það er vaxandi þrýstingur á norsk stjórnvöld að stíga þetta skref og kunngera niðurstöðu á miðju þessu ári ef þau ætla ekki að missa af lestinni á þessum áratug. Og auðvitað hefur það áhrif á Evrópubandalagið þegar slíkar fregnir berast.
    Ég tel vegna þess sem hér kom fram hjá hæstv. utanrrh. að hann geti ekki frekar en önnur EFTA-ríki lagt það í hendur Evrópubandalagsins að koma fram með einhverja lausn í þessum málum, lausn, sem eins og hæstv. forsrh bendir réttilega á, mundi að líkindum stangast á við íslenska stjórnarskrá í sambandi við dómsþáttinn.