Greiðsla umönnunarbóta

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:05:00 (3096)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Í lögum þeim um breytingu á lögum um almannatryggingar sem hv. fyrirspyrjandi rakti hér áðan stendur orðrétt í 3. gr.:
    ,,Um framkvæmd greinarinnar fer eftir reglugerð sem heilbr.- og trmrh. setur í samráði við félmrh. að fengnum tillögum tryggingaráðs.``
    Ég skal taka það fram að umræddar lagabreytingar voru samdar í samráði við formann tryggingaráðs. Fyrir áramót óskaði ég eftir því að fá þessar tillögur frá ráðinu. Þegar þær ekki bárust sendi ég bréf eða það var sent í mínu nafni til tryggingaráðs, dags. 13. jan. Í bréfinu er þess óskað að tryggingaráð sendi ráðuneytinu tillögur hið allra fyrsta. Þetta bréf er dagsett þann 13. jan.
    Það er hins vegar ekki alveg rétt og einhver misskilningur á ferðinni þegar segir að greiðslur hafi ekki farið fram. Þann 3. jan. sl. voru greiddar 6 millj. 954 þús. kr. í barnaörorkustyrki samkvæmt gildandi úrskurðum og 11 millj. 742 þús. kr. í barnastyrki samkvæmt 10. gr. óbreyttri. Greiðsla fyrir janúarmánuð hefur því þegar farið fram. Hins vegar hefur okkur borist frá Tryggingastofnun ríkisins --- ekki tillögur enn að greinargerð --- heldur fyrirspurn um það hvernig skuli fara með greiðslur þann 3. febr. nk. Það liggur fyrir að félmrn. er búið að úrskurða fram í tímann um greiðsluréttindi allra þeirra barna eða umannenda barna sem félmrn. veit af þannig að engin vandkvæði verða með greiðslurnar þann 3. febr. nk. til þeirra sem fengið hafa umönnunarbætur. Þær umönnunarbætur munu verða greiddar í samræmi við fyrirliggjandi úrskurði, í samræmi við þá reglugerð sem áður var stuðst við.
    Hins vegar verður nokkur vandi varðandi nýja úrskurði sem ekki er hægt að fella fyrr en reglugerð verður gefin út. Samkvæmt lagatextanum get ég ekki gefið út reglugerð fyrr en ég hef fengið tillögur frá tryggingaráði. Ég ítrekaði beiðni um það í bréfi þann 16. jan. og bíð enn eftir tillögum tryggingaráðs sem ég vona að komi sem allra fyrst svo að hægt sé að setja reglugerð á grundvelli þeirra tillagna. Ef það verður unnt á næstu dögum að fá tillögur frá tryggingaráði þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að hægt verði að setja reglugerð strax í framhaldi af því þannig að greiðslur þann 3. febr. geti farið fram í samræmi við hin nýju lög. Ef ekki, þá munu þær fara fram í samræmi við reglugerðina sem áður gilti, þannig að þeir sem hafa fengið úrskurði munu fá greiðslur samkvæmt þeim. En vandamálið, virðulegi forseti, verður fyrir þá aðila sem bíða eftir nýjum úrskurði.