Greiðsla umönnunarbóta

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:14:00 (3099)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Seint í nóvember var lagt fyrir Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem gerði ráð fyrir því að umönnunarbætur yrðu teknar inn í lögin um almannatryggingar. Jafnframt yrði barnaörorka felld niður. Það varð niðurstaða heilbr.- og trn. að breyta þessu þannig að barnaörorka yrði áfram í almannatryggingalögum og umönnunarbætur eru tengdar barnaörorku og öfugt, eins og eðlilegt er.
    Þetta varð svo samhljóða niðurstaða Alþingis, samhljóða niðurstaða heilbr.- og trn., þar á meðal hv. 6. þm. Reykv., sem mun vera varaformaður tryggingaráðs. Við lögðum til að frv. yrði samþykkt svona og niðurstaðan varð sú að Alþingi féllst á þá tillögu okkar samhljóða og okkur datt ekki annað í hug en að menn mundu vinda bráðan bug að því að tryggja framkvæmd þessa máls. Það hefur bersýnilega ekki verið gert. Hér er um að ræða hóp af fólki sem ekki hefur fengið bætur samkvæmt þessum nýju lagaákvæðum, það liggur þannig. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. að koma hér núna og vitna til talna frá 3. jan. og væntanlegra talna 3. febr. því að hitt er alveg ljóst að fjöldi fólks hefur ekki enn þá fengið bætur og það gengur ekki. Hæstv. heilbr.- og trmrh. ber ábyrgð á því máli.
    Auðvitað er það þannig að tryggingaráð á samkvæmt lögum að gera tillögur í þessum efnum. En að sjálfsögðu getur hæstv. heilbrrh. stuðlað að því að þær tillögur berist og ekki bara núna heldur hefðu borist fyrir áramót. Það var auðvitað embættisskylda hæstv. heilbrrh. að ganga þannig frá þessum málum að þessar tillögur bærust fyrir áramót. Hér er auðvitað um að ræða endemis vinnubrögð sem enn þá einu sinni sýna hvernig sambandið --- eða sambandsleysið öllu heldur --- er á milli Tryggingastofnunar ríkisins og heilbrrn. Nýlegt dæmi um það er auðvitað framkvæmdin á skerðingu ellilífeyris, m.a. ellilífeyris sjómanna, sem stjórnarliðið var að samþykkja hér í gær og í dag. Þar kom í ljós að

Tryggingastofnun ríkisins hafði ekki fengið neinar upplýsingar um málið. Þó að það hefði legið fyrir hér á Alþingi vikum saman þá hafði enginn úr heilbrrn. haft fyrir því að ræða við Tryggingastofnun ríkisins um framkvæmd þessa máls.
    Ég tel að hæstv. heilbr.- og trmrh. eigi núna að viðurkenna mistök sín og hann eigi strax í dag að gefa út viðhlítandi reglur í þessum efnum.