Greiðsla umönnunarbóta

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:23:00 (3103)

     Margrét Frímannsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem hann veitti en þau koma manni vissulega á óvart. Í fyrsta lagi vegna þess að ítrekað hef ég spurst fyrir um það hjá Tryggingastofnun ríkisins hvort greidd muni verða umönnunarlaun til aðstandenda krabbameinssjúkra barna eða mikið veikra barna sem fengu greidd umönnunarlaun samkvæmt bráðabirgðaákvæði við reglugerð. Ég hef ávallt fengið sömu svörin. Nei, það er ekki hægt og mun ekki verða gert vegna þess að úrskurðir varðandi umönnunarlaun þessa fólks liggja ekki fyrir. Þeir féllu úr gildi 31. des. 1991 og þess vegna mun þetta fólk þurfa að sækja um aftur. Það þarf að senda inn nýjar umsóknir.
    Ráðherra sagði hér að greiðslur hefðu átt sér stað 3. jan. og nefndi tölur þar um. Það er rétt. Allir þeir sem höfðu úrskurð sem gilti fram á árið 1992 fengu greiðslur, aðrir ekki. Það er eins og ráðherra viðurkenndi reyndar, það er hópur sem ekki fékk greiðslur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum mun þessi hópur ekki heldur fá greiðslur um næstu mánaðamót þrátt fyrir þær yfirlýsingar ráðherra að félmrn. hafi tryggt að þessi hópur fengi sínar greiðslur fram í apríl. Þetta höfum við fengið staðfest frá þeim aðstandendum sem nutu þessara greiðslna fram að áramótum, en þá féllu þær út. Við verðum auðvitað að treysta því að hæstv. heilbr.- og trmrh. og hæstv. félmrh. leysi málið.