Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:32:00 (3105)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Það hefur ekkert tilefni verið til þess að ríkisstjórn Íslands tæki afstöðu til aðildarumsókna Eystrasaltslandanna að Norðurlandaráði fyrr en þá í fyrri viku af þeirri einföldu ástæðu, að hvað sem líður óformlegum viðræðum milli aðila, hefur ekki legið fyrir ósk þeirra um aðild að Norðurlandaráði fyrr en þá. Þá vísa ég til þess að 13. jan. sl. beindu þeir Landsbergis, forseti Litáens, og Gorbunovs, forseti Lettlands, sameiginlegu erindi fyrir hönd ríkisstjórna landa sinna til Norðurlandaráðs þar sem þeir óska eftir því að afstaða verði tekin til slíkrar aðildarumsóknar. Þess vegna er það að ég hef hvergi lýst neinu yfir fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar um afstöðu í þessu máli. Ég hef hins vegar verið spurður af fréttamanni: Ert þú fylgjandi aðild Litáens að Norðurlandaráði? Ég hef svarað því játandi. Það kemur skýrt fram að þar er ég að lýsa minni persónulegu afstöðu.
    Þetta mál var rætt á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda og þar kom á daginn að ríkisstjórnir landanna hafa ekki tekið neina bindandi afstöðu í málinu af þeirri einföldu ástæðu að til þess hefur enn ekki verið beint tilefni. Hins vegar tjáðu menn okkur að það væru nokkuð skiptar skoðanir í þessum málum. T.d. sagði danski utanríkisráðherrann að persónulega væri hann fylgjandi þessu.
    Nú geri ég mér fyllilega grein fyrir því að þetta er auðvitað álitamál. Allir hafa utanríkisráðherrar Norðurlanda lýst því yfir að þeir telji rétt að Norðurlönd hafi sem allra nánast samstarf við Eystrasaltsríkin. Auðvitað er hægt að hugsa sér fleiri en eitt form á því samstarfi en í þessum umræðum, sérstaklega þegar menn ræddu framtíð Norðurlandasamstarfs og samstarfs innan Norðurlandaráðs og hlut Norðurlanda í samrunaferlinu í Evrópu, þá eru menn þeirrar skoðunar að við ættum að vinna að því að Norðurlöndin gætu verið sem eitt svæði og þá einnig í sem nánustum tengslum við Eystrasaltsríkin og reyndar, af ýmsum sögulegum ástæðum, jafnvel stærri nærsvæði Norðurlanda í austurátt heldur en eingöngu Eystrasaltsríkin.